Októbermánuður hefur verið tileinkaður undirbúningi að fjárhagsáætlun 2025-2028.
Drög að fjárhagsáætlun var lögð fram í bæjarráði síðastliðinn fimmtudag og verður áætlunin tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn miðvikudaginn 6 nóvember. Á fyrsta bæjarstjórnarfundi í desember fer fram síðari umræða.
Það fer mikil vinna í áætlanagerðina og mæðir mest á fjármála – og áhættustýringarsviði en allir stjórnendur stofnana bæjarins koma að áætlunargerðinni með einum eða öðrum hætti, m.a til að setja inn forsendur launaáætlunar. Eins og alltaf eru þarfirnar mun meiri en fjármagnið sem er til ráðstöfunar og það er mesta áskorunin við gerð fjárhagsáætlunarinnar.
Fjármálaráðstefna sveitarfélaga var haldin í byrjun október þar sem dagskráin var helguð fjármálalegri stöðu sveitarfélaga en líka nýsköpun sem hefur það að markmiði að auka afköst og gæði.
Anna María Axelsdóttir sérfræðingur og verkefnastjóri á fjármála og áhættustýringarsviði Mosfellsbæjar flutti mjög góðan fyrirlestur um notkun Mosfellsbæjar á stafrænu vinnuafli, sem við höfum kallað Mosa en hann sér um ýmis verkefni fyrir okkur, s.s. afstemmingu í bókhaldi, upplýsingagjöf í tengslum við fasteignamat og fleiri verkefni. Við erum eitt örfárra sveitarfélaga sem erum byrjuð að nota stafrænt vinnuafl og næst munum við nýta Mosa til að vinna með launadeildinni til að sinna m.a. eftirliti fyrir okkur og villuprófunum.
Það hefur verið hefð að fara í heimsókn á stofnanir í tengslum við fjárhags-og fjárfestingaáætlanagerð og þetta árið fórum við á Hlaðhamra, í Reykjakot, Helgafellsskóla, þjónustustöðina, Listaskólann, Lágafellsslaug og í dagdvölina í Skálatúni.
Okkur var allstaðar mjög vel tekið en við fengum líka upplýsingar um það sem er eða hefur verið ábótavant í þessum stofnunum.
Það hefur mætt mjög mikið á starfsfólki Hlaðhamra en vegna framkvæmda hafa færri börn verið tekin inn í skólann í haust og hluti húsnæðisins er lokað vegna rakaskemmda. Í Reykjakoti hafa verið miklar framkvæmdir vegna byggingar eldhúss og það hefur reynt á starfshópinn en nú hillir undir lok þessara framkvæmda og nýtt eldhús að líta dagsins ljós. Þá skoðuðum við leikskóladeildina í Helgafellsskóla og þar komu fram ábendingar um erfiðleika vegna hávaða, að rýmin væru ekki nægilega aðskilin. Við skoðuðum líka frábæra gróðurhúsið í skólanum sem er einstök vin í byggingunni og ótal möguleikar á nýtingu í þágu barnanna. Þá ræddu stjórnendur Listaskólans um vöntun á tónlistarsal til að halda tónleika en í húsnæðinu sem skólinn er í er ekki slíkur salur fyrir hendi. Í Lágafellsslaug er kominn tími á viðhald meðal annars á rennibrautum. Við ræddum líka heitan pott með aðgengi fyrir fatlað fólk.
Bæjarfulltrúar voru sem sagt nestaðir af upplýsingum sem eru gagnlegar í áætlanagerðinni. Þá var ferðin notuð til þess að færa þeim Dóru Guðrúnu Wild á Hlaðhömrum og Málfríði Bjarnadóttur í Helgafellsskóla blómvendi í tilefni tilnefninga þeirra til Íslensku menntaverðlaunanna 2024. Forsíðumyndin er einmitt af Dóru Wild sem var tekin við þetta tilefni.
Heilt yfir er tilfinningin eftir heimsóknirnar í stofnanir að það hafi verið kominn tími á mikið viðhald víða og þess vegna erum við að lenda í vanda í byggingum eins og Hlaðhömrum og Varmárskóla en báðar stofnanirnar eru með lokuð rými sem ekki er hægt að nýta vegna rakaskemmda. Mosfellsbær fór í úttekt fyrir nokkrum árum þar sem allt húsnæði skólanna var skoðað með tilliti til hugsanlegra rakaskemmda og myglu. Því miður reyndist sú úttekt ekki nægjanleg, þar sem einungis var um sjónskoðun að ræða og það er ekki fyrr en farið er í mjög ítarlegar rannsóknir á afmörkuðu svæði að skemmdir koma í ljós.
Í október var skrifað undir samninga um snjómokstur, annarsvegar vegna stofn- og tengibrauta og hinsvegar vegna húsagatna og bílaplana stofnana bæjarins. Ástæða þess að vetrarþjónustu er skipt upp í tvö útboð er að mismunandi tæki og verktaka þarf til þess að sinna þjónustunni.
Íslenska Gámafélagið mun sjá um vetrarþjónustu stofn- og tengibrauta í Mosfellsbæ samkvæmt samningnum sem var undirritaður og gildir fyrir árin 2024-2027. Samningurinn felur í sér aukið þjónustustig en frá fyrra útboði er búið að bæta við fleiri götum við stofn- og tengibrautir.
Einnig voru undirritaðir snjómoksturssamningar við Malbikstöðina vegna vetrarþjónustu húsagatna og bílaplana stofnana. Samningarnir gilda fyrir árin 2024-2027. Í þessum samningum er einnig um þjónustuaukningu að ræða frá útboði ársins 2019 þar sem einungis bílaplön stofnana voru boðin út, en í útboði ársins 2024 voru húsagötur og bílaplön boðin út saman.
Ég sótti mjög skemmtilegt vinkonukvöld hjá Soroptimistaklúbbi Mosfellssveitar sem var haldið í Hlégarði. Soroptimistar eru alþjóðleg samtök kvenna með það að markmiði að vinna að bættri stöðu kvenna og mannréttindum öllum til handa. Á hverju ári standa Soroptimistar um heim allan fyrir átaki til að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi gegn konum. Átakið gengur undir heitinu „Roðagyllum heiminn”. Vinkonukvöldið er fjáröflun Mosfellssveitarklúbbsins fyrir þetta verkefni.
Opinn fundur Atvinnu- og nýsköpunarnefndar var haldinn í Hlégarði 14. október þar sem kynntar voru niðurstöður greiningar og boðið til samtals um Álfosskvos sem áfangastað. Fundurinn var vel sóttur en tæplega 70 manns tóku þátt.
Greiningin var unnin fyrir Mosfellsbæ í samstarfi við Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins. Áhersla greiningarinnar var á að skoða meðal annars hvað gerir Álafosskvosina að áhugaverðum stað til að heimsækja. Á fundinum ávarpaði nýr eigandi að ullarversluninni, Lárus Guðbjartsson, gesti en hann hyggst á frekari uppbyggingu á svæðinu.
Þá afhentum við Listaskólanum langþráðan flygil á fyrstu tónleikum hausttónleikadaga skólans sem fóru fram 15. – 17. október. Flygillinn er af gerðinni Yamaha S3X–PE Premium Grand. Flygillinn verður í Hlégarði á meðan eldri flygill sem þar hefur verið, 50 ára gamall Bösendorfer konsertflygill, verður tekinn í gegn og lagfærður.
Við héldum opinn fund fyrir foreldra barna á miðstigi í grunnskólum Mosfellsbæjar undir yfirskrifstinni Það þarf heilt þorp til að ala upp barn og var þessi fundur haldinn í kjölfarið á afar fjölmennum foreldrafundi fyrir unglingastigið. Eftir erindi frá samfélagslögreglunni og Margréti Lilju Guðmundsdóttur um hagi og líðan barna gátu fundargestir komið sínum skoðunum á framfæri með gagnvirkum hætti. Þeir komu með 75 hugmyndir og hugleiðingar undir spurningunni „Hvað getum við sem foreldrar gert til að styðja við vellíðan og öryggi barnanna í samfélaginu okkar“ og 51 hugmynd kom til Mosfellsbæjar um „Hvernig Mosfellsbær getur stutt við foreldra“. Mosfellsbær mun nýta þessa góðu punkta til að vinna að aðgerðaáætlun og forgangsraða verkefnum inn í fjárhagsáætlun ársins 2025.
Ég sótti líka mjög áhugavert glæpaspjall í Bókasafninu þar sem rithöfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónsson sátu fyrir svörum Katrínar Jakobsdóttur undir yfirskriftinni „Er eitthvað nýtt að frétta af íslenskum glæpasögum?“ Viðburðurinn var haldinn í tengslum við 25 ára afmæli Hins íslenska glæpafélags.
Í október voru haldnir eigendafundir byggðarsamlaganna, Sorpu og Strætó auk aðalfundar Markaðsstofunnar, sem er félag í eigu SSH. Þá voru haldnir reglubundnir fundir stjórnar SSH, slökkviliðsins og almannavarna.
Þá voru haldnir fundir í stjórn Farsældartúns, með mennta- og barnamálaráðuneyti vegna uppbyggingarinnar þar og með Barna og fjölskyldustofu. Í fréttaþættinum Kveik sem var sýndur um miðjan mánuð var því haldið fram að öll starfsemi Stuðla ætti að flytjast á Skálatúnsreitinn. Það er ekki rétt en hinsvegar er verið að gera ráð fyrir því í skipulagi að þar verði búsetuúrræði fyrir börn með fjölþættan vanda og meðferð og greining fyrir börn sem eiga í margvíslegum erfiðleikum. Þá er einnig gert ráð fyrir að þar verði skrifstofur og þjónusta stofnana á borð við Ráðgjafar og greiningarstöð, miðstöð menntunar og skólaþjónustu og Barna og fjölskyldustofu. Þá verður meðferðardeild rekin tímabundið í húsi sem heitir Blönduhlíð á Skálatúnsreitnum og samþykkti stjórn Farsældartúns að gera leigusamning með 6 mánaða uppsagnarákvæði. Haldinn hefur verið einn fundur með skipulagsnefnd Mosfellsbæjar um framtíðarskipulag svæðisins þar sem drög að deiliskipulagi var kynnt.
Ég sótti líka 50 ára afmæli knattspyrnudeildar og uppskeruhátíð en allri bæjarstjórn var boðið. Við ákváðum að gefa liðunum, meistararflokki karla og kvenna mynd eftir Listapúkann okkar, Þóri Gunnarsson sem hann málaði eftir ljósmyndum frá Ragnar Ólasyni eða Ragga Óla.
Síðasti fundurinn í október var fundur skipulagsnefndar með hestamannafélaginu Herði fimmtudaginn 31. október. Fundurinn var haldinn í Harðarbóli og var mjög vel mætt af hestafólki. Tilefnið var kynning skipulagslýsingar fyrir stækkun golfvallarins. Valdimar Birgisson formaður skipulagsnefndar stýrði fundinum og Kristinn Pálsson skipulagsfulltrúi kynnti helstu atriði skipulagslýsingarinnar. Þá kynnti Ewdin Roald Rögnvaldsson landslagshönnuður, sem hefur unnið mikið að golfvallarhönnun á Íslandi, markmið hönnunarvinnunnar. Marteinn Magnússon kynnti sjónarhorn hestamanna ásamt fleirum og það var skipst hressilega á skoðunum á fundinum. Skipulagslýsingin er fyrsta skref í kynningu til bæði fulltrúa hestamannafélagsins en einnig er verið að undirbúa opinn fund með íbúum.
Október var líka mjög bleikur og við héldum að sjálfsögðu bleikt kaffiboð á bæjarskrifstofunni og víða á stofnunum bæjarins þar sem fólk mætti í sínu fínasta bleika pússi. Markmiðið er að hvetja fólk til að kaupa bleiku slaufuna og sýna þannig stuðning í verki við konur sem glíma við brjóstakrabbamein.
Á föstudag, 1. nóvember voru tímamót, þar sem ég lét af tveggja ára formennsku í stjórn samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu á aðalfundi sem var haldinn hér í Hlégarði. Einar Þorsteinsson tók við sem formaður en sveitarfélögin skipta þessu hlutverki á milli sín, tvö ár í senn. Ég hlakka því til komandi vikna og mánaða þar sem ég get einbeitt mér enn frekar að því mikilvæga starfi sem ég er var ráðin í sem bæjarstjóri Mosfellsbæjar og óska Einari góðs gengis.
Eigið góðar stundir – og munið endilega að styrkja björgunarsveitina Kyndil með því að kaupa neyðarkallinn í heimabyggð.
Tengt efni
Nýársávarp bæjarstjóra: Tökum framtíðina í okkar hendur
Gleðilegt nýtt ár kæru Mosfellingar!
Pistill bæjarstjóra nóvember 2024
Pistill bæjarstjóra september 2024