Eftir því sem vikunum fjölgar í starfinu sem bæjarstjóri þá verð ég meira og meira meðvituð um hvað það er mikið grasrótarstarf og viðburðahald í Mosfellsbæ. Um síðustu helgi var mjög flottur basar haldinn á vegum félagsstarfsins að Hlaðhömrum og vöfflusala á vegum kvenfélags Lágafellssóknar. Þær Valgerður Magnúsdóttir, Jóhanna, Rósa Hilmarsdóttir og Halldóra Kristjánsdóttir sem stóðu vaktina í vöfflusölunni prýða einmitt forsíðumyndina sem fylgir pistlinum í dag. Á basarnum kenndi ýmissa grasa, meðal annars mjög fallegar handprjónaðar vörur. Allur ágóði af sölunni rennur til hjálparstarfs Lágafellssóknar og fyrir það ber að þakka. Ég hitti einmitt Salome Þorkelsdóttur, heiðursborgara Mosfellsbæjar í kaffinu. Salome var ein af fyrirmyndunum á mínum yngri árum þegar hún var á alþingi og síðar forseti þingsins og það var mjög gaman að hitta hana.
Sömu helgi sóttum við líka áhugaverða sýningu Jóns Sæmundar Auðarsonar í Listasafni Mosfellsbæjar sem nefnist Litandi, Litandi, Litandi.
Ég mætti einnig á 100 ára afmæli UMSK, Ungmennasambands Kjalarnessþings sem var haldið í Hlégarði. Mjög flott veisla og þar var Sigurður Rúnar í Aftureldingu sæmdur gullmerki ÍSÍ fyrir sitt framlag til íþróttahreyfingarinnar.
Saga Mosfellssveitar og aldarsaga UMSK á sér marga snertifleti. Ungmennafélagið Afturelding var eitt af stofnfélögum UMSK árið 1922 og eina stofnfélagið sem er enn aðili að UMSK. Birna á héraðsskjalasafninu og Bjarki Bjarnason sagnfræðingur sendu mér nokkra punkta um söguna, fyrir afmælishófið. Meðal annars sagði Bjarki sögu af landsmóti UMFÍ sem var haldið í fyrsta skipti á félagssvæði UMSK, þ.e.a.s. hér að Varmá árið 1990. Engu var til sparað við undirbúninginn, glæsilegur frjálsíþróttavöllur var byggður og allt til reiðu fyrir fjölmennt og viðamikið mót. Mótið tókst afar vel en komst þó á fyrst og fremst á spjöld sögunnar fyrir ofsarok sem dundi yfir þegar mótið stóð sem hæst. Vindmælirinn á vellinum fauk um koll en að sögn Bjarka þá kættust stangarstökkvarar því þeir þeyttust á loft og flugu hátt yfir rána.
Ég var með fiðrildi í maganum þegar mánudagurinn rann upp en þá hafði ég lofað mér í skógarhögg. Það voru vel undirbúnir starfsmenn á þjónustustöðinni sem tóku á móti mér, þau Ingibjörg Ásta Guðmundsdóttir og Tryggvi Þór Júlíusson. Auk þessu voru Kristín Davíðsdóttur og Björn Traustaon frá skógræktarfélagi Mosfellsbæjar með í för í Hamrahlíðarskóg til að fella jólatré ársins 2022, að ógleymdum Hilmari Gunnarssyni ritstjóra Mosfellings.
Við val á jólatré á miðbæjartorgið eru ekki valin stakstæð tré heldur tré sem standa í þéttum skógi og kominn er tími á grisjun. Skógræktarfélagið gróðursetur allt að 30 tré í staðinn fyrir hvert fellt tré og það á einnig við um þetta.
Svo öllu sé haldið til haga þá rétt tók ég í sögina en öll vinnan var á herðum Björns Traustasonar formanns skógræktarfélagsins enda verkefni fyrir vant fólk að sinna skógarhöggi.
Ég stýrði eigendafundum Sorpu og Strætó í vikunni, en sveitarfélögin samþykktu aukið framlag til Strætó á næsta ári. Sorpa kynnti nýja móttökumiðstöð að Lambhaga en tillaga um að fara í það verkfni verður send borgar-og bæjarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu til umfjöllunar og ákvarðanatöku. Ég átti fund með framkvæmdastjóra Skálatúns og fulltrúum IOGT í vikunni vegna stöðu heimilisins og samráðsnefnd Mosfellsbæjar og Aftureldingar vegna uppbyggingar íþróttamannvirkja auk þess sem ég sótti minn fyrsta stjórnarfund Reykjalundar endurhæfingar. Ég fór líka á bókmenntahlaðborð í Bókasafninu en það var einstaklega vel sóttur og vel heppnaður viðburður. Þá tókum við Arnar Jónsson á móti hópi nemenda og kennara á starfsbraut í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ en þau voru að fræðast um stjórnsýsluna.
Ég endaði síðan vinnuvikuna á fundi í eftirmiðdag með fyrirtækinu Kólofon, sem hannaði vef Mosfellsbæjar og annað efni en verkefnið er í stöðugri þróun.
Eins og ég sagði í pistlinum í síðustu viku þá nálgast aðventan óðfluga og á morgun munum við kveikja á jólatrénu hér í Mosfellsbæ. Það verður góð dagskrá í boði, börn í forskóla Listaskólans og Jógvan Hansen meðal annars.
Ég vona að veðrið leiki við okkur á miðbæjartorginu á morgun og óska ykkur góðrar helgar.
Regína Ásvaldsdóttir
Mynd 1: Með Salome Þorkelsdóttur fyrrum alþingiskonu og forseta alþingis
Mynd 2: Kór félagsstarfsins
Mynd 3: Frá hátíðarhöldunum í tilefni 100 ára afmælis UMSK
Mynd 4: Hilmar, Kristín, Ingibjörg og Tryggvi
Mynd 5: Björn Traustason kennir á sögina