Fjölbreytt vinnuvika að baki að venju. Hápunkturinn var heimsóknir í stofnanir í bænum ásamt fulltrúum í bæjarráði. Við vorum á ferðinni nánast allan miðvikudag og fimmtudag og fórum í Helgafellsskóla, Krikaskóla, Varmárskóla, Lágafellskóla, Kvíslarskóla, Hlaðhamra, Hlíð, Leirvogstunguskóla, Hulduberg og Höfðaberg. Einnig félagsstarf aldraðra að Hlaðhömrum, Úlfinn sem er frístundastarf fyrir fötluð börn og ungmenni, Bólið frístundamiðstöð og Mosann, ungmennahús. Þá heimsóttum við einnig íþróttamiðstöðina að Varmá, búsetukjarnann að Þverholti, þjónustumiðstöðina við Völuteig, Listaskólann og enduðum í glæsilega bókasafninu hér í Kjarnanum. Það var frábærlega vel tekið á móti okkur á öllum stöðum og við náðum góðu samtali við stjórnendur. Við fengum bæði yfirferð yfir það sem gengur vel en líka um helstu áskoranir og það er mikilvægt, ekki síst fyrir okkur sem erum ný í starfi að fá hreinskiptnar umræður um stöðuna í helstu starfsemi bæjarins. Eftir situr að stofnanirnar eru ótrúlega vel skipaðar hæfu og metnaðarfullu starfsfólki sem leitar stöðugt nýrra leiða til að efla fagmennsku í starfinu.
Í vikunni voru bæði bæjarstjórnarfundur og bæjarráð. Á fundi bæjarstjórnar á miðvikudag fór fram síðari umræða um nýjar samþykktir um stjórn Mosfellsbæjar sem var samþykkt með 11 atkvæðum. Samþykktirnar fara til skoðunar í innanríkisráðuneytinu og í kjölfarið verða þær sendar í birtingu Stjórnartíðinda.
Á fundi bæjarráðs á fimmtudag voru lögð fram drög að fjárhagsáætlun 2023 -26 og samþykkt að vísa þeim í bæjarstjórn til fyrri umræðu. Drögin verða birt að afloknum þeim fundi sem verður 9. nóvember og endanleg fjárhagsáætlun síðan samþykkt eftir síðari umræðu í bæjarstjórn 7. desember.
Þar var einnig samþykkt tillaga um að ráðast í gerð stjórnsýslu- og rekstrarúttektar hjá Mosfellsbæ. Tilgangur hennar er að fá fram mat á núverandi stöðu sveitarfélagsins og leiða fram hvernig stjórnsýsla Mosfellsbæjar virkar í dag gagnvart íbúum, stofnunum bæjarins, hagsmunaaðilum, kjörnum fulltrúum og starfsmönnum.
Að lokum vil ég þakka stjórnendum bæjarins kærlega fyrir móttökurnar og samtölin úti í stofnunum. Forsíðumyndin er einmitt frá Leirvogstunguskóla en það er mynd af Guðrúnu Björgu leikskólastjóra sem tók afar hlýlega á móti okkur ásamt samstarfskonum sínum, þeim Gunnu Heiðu, Kolbrúnu Höllu, Söru Fanney og Ragnheiði Ástu. Þær voru afskaplega heimilislegar enda náttfatadagur í leikskólanum í tilefni af alþjóðlega bangsadeginum. Það var þó algengara að rekast á hluti sem tengjast Hrekkjavökunni á stofnunum bæjarins og starfsfólk á bæjarskrifstofunum lét ekki sitt eftir liggja fremur en fyrri daginn en hér voru margar skuggalegar verur á sveimi í lok vinnudags í gær.
Góða helgi!
Regína Ásvaldsdóttir
Mynd 1 : Sigurður í íþróttamiðstöðinni að Varmá
Mynd 2: Bæjarfulltrúarnir Lovísa, Ásgeir og Anna Sigríður ásamt starfsmönnum íþróttamiðstöðvarinnar, þeim Dönu og Ágústi.
Mynd 3: Heimsókn í Bólið - Jana bæjarfulltrúi og Guðrún í Bólinu
Mynd 4: Erna sýnir okkur hugmyndir að endurnýtingu fatnaðar - verkefni í Kvíslarskóla
Mynd 5: Rósa skólastjóri í Helgafellskóla og Anna Sigríður
Mynd 6: Í heimsókn hjá Þrúði skólastjóra í Krikaskóla.
Mynd 7: Þær Rakel, Rósa, Gerður og Eva í bókasafni Mosfellsbæjar
Mynd 8: Hrekkjavakan nálgast