Hoppa í meginmál
mos.is - Forsíða
18. ágúst 2023

Fyrsti fund­ur bæj­ar­stjórn­ar eft­ir sum­ar­frí var hald­inn í vik­unni, eða á mið­viku­dag­inn 16. ág­úst. Það er því ekk­ert að van­bún­aði að hefja pistla­skrif á ný enda starf­ið á bæj­ar­skrif­stof­unni kom­ið á fulla ferð og nefnd­ar­fund­ir farn­ir af stað. Stjórn­end­ur í skól­um  eru að und­ir­búa starf­semi hausts­ins og leik­skól­ar að taka inn ný börn. Það hef­ur geng­ið ágæt­lega að ráða nýtt starfs­fólk í flesta leik­skóla en ein­staka skóli glím­ir við mann­eklu sem hef­ur óneit­an­lega áhrif á starf­ið. Mos­fells­bær vinn­ur að því að bæta starfs­að­stæð­ur í leik­skól­un­um, með­al ann­ars með stytt­ingu vinnu­vik­unn­ar.  Það hef­ur reynt á starf­semi leik­skól­anna með­al ann­ars vegna þess að á sama tíma  og al­geng­asti vist­un­ar­tími er 42,5 stund­ir á viku er unn­ið að því að stytta vinnu­tíma starfs­fólks í 36 tíma á viku.

Í vor samþykkti bæj­ar­ráð Mos­fells­bæj­ar  til­lögu fræðslu­nefnd­ar um svo­kall­aða skrán­ing­ar­daga í leik­skól­um frá og með næsta hausti. Það þýð­ir að á skil­greind­um skrán­ing­ar­dög­um þurfa for­eldr­ar að skrá börn sín sér­stak­lega ef þeir hyggj­ast nýta sér þjón­ustu leik­skól­ans í kring­um jól-, páska- og vetr­ar­frí og eft­ir kl. 14.00 alla föstu­daga. Með því er hægt að skipu­leggja leik­skóla­starf­ið fyr­ir­fram og gera starfs­fólki kleift að nýta þá daga til að taka út upp­safn­aða stytt­ingu vinnu­vik­unn­ar. Annað markmið hefur verið að jafna laun á milli stuðningsfulltrúa í grunnskólum og starfsmönnum leikskóla. Með nýjum kjarasamningum hefur tekist að minnka þetta launabil verulega og munu áhrifin koma fram 1. október næstkomandi.

En það er vert að brýna það að leikskólarnir verða opn­ir öll­um þeim sem þurfa á þjón­ust­unni að halda og það verður engin hækkun á leikskólagjöldum í tengslum við nýtt fyrirkomulag. Hinsvegar munu gjöld lækka hjá þeim sem þurfa ekki að nýta sér þjónustu leikskólanna eftir kl. 14 á föstudögum.  Í byrjun þessarar viku stýrði ég fundi stjórnar samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu á reglulegum fundi samtakanna sem eru haldnir á tveggja vikna fresti.  Stjórnin lagði áherslu á að koma sjónarmiðum sveitarfélaganna á framfæri varðandi stuðning og framfærslu við þá umsækjendur um alþjóðlega vernd sem hafa fengið synjun á umsókn um stöðu flóttafólks. Við sendum yfirlýsingu á alla fjölmiðla þar sem við hörmum stöðu þessara einstaklinga en mótmæltum um leið afstöðu ríkisins um að sveitarfélögin ættu að taka við þessum einstaklingum og þjónusta þá.  Ekkert samtal hafði farið fram milli ríkis og sveitarfélaga um hvað tekur  við hjá þeim einstaklingum sem neita að yfirgefa landið og hafa misst  framfæri sitt hjá ríkinu og eru án kennitölu og réttinda í landinu. Að okkar mati eru  sveitarfélögin  sett í afar erfiða aðstöðu gagnvart þessum hópi. Við skrifuðum líka undir loftslagsstefnu höfuðborgarsvæðisins á stjórnarfundi á mánudeginum en með stefnunni vilja sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu  leggja sitt að mörkum með innleiðingu markvissra aðgerða sem stuðla að kolefnishlutleysi höfuðborgarsvæðisins. Mikilvægasta afurð stefnunnar er því yfirlit aðgerða sem eru líklegar til að skila árangri í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Í tengslum við stefnuna hafa SSH undirritað samkomulag við umhverfis-, orku- og auðlindaráðuneytið í þeim tilgangi að fylgja loftslagsstefnunni eftir, m.a. með ráðningu ráðgjafa til þess að aðstoða sveitarfélögin við að móta aðgerðir til samræmis við verkfærakistu loftslagsstefnu höfuðborgarsvæðisins. Hér má sjá stefnuna og frétt um málið.

Ég heimsótti ,,Karlana í skúrnum” á þriðjudag ásamt Sigurbjörgu Fjölnisdóttur framkvæmdastjóra velferðarsviðs. Skúrinn er staðsettur á Skálatúni, fyrrum sambýli og hafa meðlimir klúbbsins gert húsnæðið afar skemmtilega upp með pláss fyrir hefilbekk og verkfæri auk kaffistofu. Þeir létu ekki þar við sitja og smíðuðu líka verkfæraskúr í sumar. Verkefnið Karlar í Skúrum sækir fyrirmynd til Ástralíu og eru starfræktir skúrar víða um land með sömu fyrirmynd. Markmiðið er að skapa vettvang fyrir karla, þar sem þeir geta komið með verkfærin úr skúrunum sínum heima og notið félagsskapar og leiðsagnar hvers annars. Það var glatt á hjalla með þessum góða hópi sem tók á móti okkur með kaffi og bakkelsi.

Ég átti fjölmarga innanhússfundi þessa vikuna en ég hitti stjórnendur á framkvæmdastjórnarfundum alla mánudaga og svo fer ég yfir stöðuna með flestum sviðsstjórum að minnsta kosti vikulega. Þessa vikuna átti ég í töluverðu samstarfi við nýráðinn sviðsstjóra mannauðs- og starfsumhverfissviðs, Kristján Þór Magnússon, til að setja hann inn í starfið. Ég vænti mikils af þessu nýja sviði og samstarfinu við Kristján.

Bæjarstjórn fundaði í vikunni eins og áður hefur verið nefnt og bæjarráðið var á sínum stað á fimmtudag en fundurinn var í styttra lagi. Hér má sjá fundargerð bæjarráðs. Ég fékk líka heimsókn frá Höllu Karenu Kristjánsdóttur formanni bæjarráðs en við fundum reglulega til að undirbúa bæjarráðsfundi. Hún kom að sjálfsögðuu færandi hendi, eins og hún gerir svo oft og færði mér fallega bleika rós úr garðinum.

Ég fór með kynningu á nýju stjórnkerfi fyrir íþrótta og tómstundanefnd bæjarins á fimmtudeginum, á fyrsta fund nefndarinnar eftir sumarfrí. Það verður ákveðin breyting í kringum starfsemi nefndarinnar, það er að íþróttamálin færast á nýtt svið, menningar, íþrótta og lýðheilsu en verkefni nefndarinnar verða þau sömu og áður.

Ég fór í vettvangsferð með Hilmari Gunnarssyni viðburðastjóra í Hlégarði, í tengslum við hátíðina Í túninu heima sem verður haldin helgina 25 -27 ágúst. Það eru ótrúlega mörg handtökin sem Hilmar og aðrir starfsmenn koma að til að gera svona hátíð mögulega. Þar eiga líka fyrirtækin í bænum og íbúar þakkir skildar fyrir að taka virkan þátt. Ég er mjög spennt fyrir þessari fyrstu bæjarhátíð sem ég fer á í Mosfellsbæ.

Í dag fór ég á fund dómsmálaráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra vegna þjónustu við þann hóp einstaklinga sem hafa fengið synjun um alÞjóðlega vernd hér á landi. Fundurinn var ágætur en það er nauðsynlegt að okkar mati, þ.e. sveitarfélaganna að ríkið taki forystu um að ganga frá málum þannig að fólk komist í eitthvert skjól.

Forsíðumyndin  er frá opnun myndlistarsýningar Henriks Chadwick Hlynssonar í listasalnum í Mosfellsbæ og nefnist Fjallaloft. Sýningin er fyrsta einaksýning Henriks og samanstendur af málverkum úr náttúru Íslands. Á ferðum Henriks um landið, en hann starfar sem leiðsögumaður, þá safnar hann öskuvatni frá íshellum sem hann notar í verkin. Á myndinni með mér eru auk Henriks, foreldrar hans, þau Hafdís Óskarsdóttir og Hlynur Chadwick Guðmundsson.

Góða helgi!

Netspjall

Opið virka daga
mán. – fim. 8:00-16:00
fös. 8:00-13:00

Þjónustuver 525-6700

Opið virka daga
mán. – fim. 8:00-16:00
fös. 8:00-13:00