Þessa dagana snýst lífið um tölur, vexti og verðbætur, skuldahlutfall, veltufé frá rekstri og sjóðstreymi. Við erum að leggja lokahönd á tillögu að fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 og þrjú næstu ár á eftir. Það eru margar breytur sem eru óvissar á næstu misserum, eins og það að vextir eru mjög háir og óvíst hvernig þeir þróast. Einnig eru flestir kjarasamningar lausir á árinu 2023 en laun eru stærsti hlutinn af rekstri Mosfellsbæjar. Aðrir óvissuþættir eru verð á aðföngum sem hefur hækkað um tugi prósenta og hefur áhrif á verðlag, meðal annars vegna byggingaframkvæmda.
En það eru alltaf góðir hlutir að gerast í daglega starfinu sem hægt er að gleðjast yfir. Til dæmis er komin góð reynsla af matarsendingum um helgar til eldri borgara en öldungaráð bæjarins hefur kallað mjög eftir þessari viðbótarþjónustu sem hófst 1. október síðastliðinn.
Ég átti mjög góðan fund með forstöðumönnum bæjarins þar sem ég kynnti málefnasamninginn sem rammar inn stefnumörkun kjörtímabilisins og Kristinn Pálsson skipulagsfulltrúi kynnti skipulagsmál í Mosfellbæ með sérstakri áherslu á Blikastaðalandið. Það var gott að hitta þennan sterka hóp forstöðumanna og mín tilfinning eftir þessar fyrstu vikur í starfi er að Mosfellsbæ hafi auðnast að laða til sín afskaplega gott fólk til starfa á stofnunum bæjarins, bæði starfsmenn og stjórnendur. Mér finnst jákvætt hugarfar og lausnarmiðuð nálgun einkenna hópinn. Eitt af því sem gerir Mosfellsbæ að góðum vinnustað er sameiginleg árshátíð allra starfsmanna bæjarins. Ég átti einmitt fund með fulltrúum í árshátíðarnefnd, þeim Önnu Rún Sveinsdóttur forstöðumanni áfangaheimilisins Króksins og Maríu Aradóttur forstöðumanni skammtímavistunar fyrir börn en þær kynntu afar spennandi dagskrá fyrir árshátíð bæjarins sem fer fram þann 25. febrúar í vetur.
Í vikunni tók ég að venju nokkur viðtöl og fundi við einstaklinga og fulltrúa fyrirtækja sem höfðu pantað tíma. Ég er með opna viðtalstíma þrisvar í viku og einnig er hægt að óska eftir fundum þess utan. Málin eru af ýmsum toga þó flest þeirra tengist skipulagi og framkvæmdum. Ég held að það sé mikilvægt fyrir fólk að vita að það geti leitað með sín mál milliliðalaust þó að í langflestum tilvikum sé um að ræða málefni sem heyra undir ákveðnar nefndir í stjórnkerfinu og ekki á færi bæjarstjóra að hlutast þar til um. Það eru líka margir sem hafa áhuga á að koma að uppbyggingu í Mosfellsbæ, enda leitun að sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu, þar sem uppbyggingarmöguleikar eru jafnmiklir. Slíkir samningar, þ.e. um uppbyggingu lands í eigu einkaaðila eru háðir skipulagi og taka langan tíma í undirbúningi. Skipulagið horfir fyrst og fremst til svæða sem eru nálægt fullbyggðum hverfum þar sem samnýting innviða er möguleg en við uppbyggingu nýrra hverfa þarf, fyrir utan gatnagerð, að huga að veitumálum, grunn- og leikskólum, velferðarþjónustu og íþróttamannvirkjum svo helstu þættir séu nefndir.
Bæjarráð fundaði að venju á fimmtudagsmorgunn og skipaði meðal annars nýjan stýrihóp til að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þær Anna Sigríður Guðnadóttir og Jana Katrín Knútsdóttir bæjarfulltrúar voru skipaðar í hópinn og mun Anna Sigríður gegna formennsku. Auk þeirra eru framkvæmdastjórar sviða í hópnum og verkefnisstjórar.
Ég heimsótti Birnu Mjöll Sigurðardóttur á Héraðsskjalasafni Mosfellsbæjar en það er staðsett á jarðhæð í Kjarnanum. Þar er unnið mjög merkilegt starf við varðveislu skjala. Meðal annars sýndi Birna mér afar vandaðan annál frá fyrsta íþróttamóti Aftureldingar og Drengs, eða Leikmóti eins og það hét, frá árinu 1918. Annállinn er geymdur í mjög fallegum viðarkassa, útskornum af Ríkarði Jónssyni. Bæjarbúar geta heimsótt hérðasskjalasafnið og skoðað gamlar heimildir. Að sögn Birnu er mjög vinsælt að koma og skoða gamla „kladda“ fyrir árgangsmót og slíka viðburði.
Undir lok vikunnar fékk ég góða heimsókn frá „Palla bæjó“ eins og hann var kallaður eða Páli Guðjónssyni fyrrum bæjarstjóra Mosfellsbæjar og síðar framkvæmdastjóra Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Við Aldís Stefánsdóttir bæjarfulltrúi sem situr í stjórn Sorpu höfðum mælt okkur mót við hann til að ræða málefni sem tengjast sorpmálum á höfuðborgarsvæðinu. Páll var bæjarstjóri Mosfellsbæjar á árunum 1987 til 1994.
Ég ætla að ljúka þessum pistli með hrósi til Jónu Benediktsdóttur skólastjóra í Varmárskóla sem hjólar á rafmagnshjólinu sínu alla daga í vinnuna, frá heimili sínu í miðbæ Reykjavíkur. Hún er nýbúin að halda upp á sextíu ára afmæli skólans og gerði það með miklum sóma. Um síðustu helgi var einnig haldið samræðuþing foreldra og starfsmanna í skólanum þar sem rætt var um gildi skólans. Svo sannarlega til eftirbreytni.
Með þessari líka fínu mynd af Jónu skólastjóra sem prýðir forsíðu þessa pistils í dag óska ég ykkur góðrar helgar!
Regína Ásvaldsdóttir
Mynd 1. Forstöðumennirnir Anna Rún Sveinsdóttir og Anna María Aradóttir, fulltrúar í árshátíðarnefnd Mosfellsbæjar 2023
Mynd 2. Á forstöðumannafundi
Mynd 3. Á forstöðumannafundi
Mynd 4. Á forstöðumannafundi
Mynd 5. Birna Mjöll Sigurðardóttir héraðsskjalavörður
Mynd 6. Innbundinn annáll Aftureldingar og Drengs
Mynd 7. Með Páli Guðjónssyni, fyrrum bæjarstjóra Mosfellsbæjar