Gleðilega aðventu!
Fyrsti laugardagur í aðventu var einstaklega góður dagur þar sem veðrið lék við okkur hér í Mosfellsbæ og setti fallegan ramma utan um hátíðarhöldin á miðbæjartorginu. Ég hóf daginn í Lágafellskirkju, þar sem Lionsklúbbur Mosfellsbæjar og Lionsklúbburinn Úa voru með dagskrá í tengslum við afhendingu fjárframlags til hjálparstarfs Lágafellssóknar. Það var gott að koma í þessa fallegu kirkju og það náðist mjög góð stemning á þessum viðburði.
Bragi Ragnarsson fór yfir sögu Lionsklúbbs Mosfellsbæjar og sagði frá byggingu fyrsta áfanga dvalarheimilisins (nú hjúkrunarheimili) hér í bæ. Líklega stærsta verkefni sem nokkur klúbbur hefur ráðist í. Peningasöfnun til verkefnisins hófst upp úr 1970 og fyrsta skóflustungan var tekin 26. nóvember 1976. Húsið var afhent Mosfellsbæ þann 12. júlí 1980 og árið eftir unnu klúbbfélagar við standsetningu lóðarinnar umhverfis húsið.
Ég hélt erindi um fátækt og þá aðallega með áherslu á líðan þeirra barna og ungmenna sem glíma við þær aðstæður í uppvextinum og áhrif þess á sálarlífið. Signý Sigtryggsdóttir frá Lionsklúbbnum Úu var með pistil um starfið í klúbbnum og þau Þorsteinn Yngvi Magnússon og Ida Fenger afhentu svo séra Arndísi sóknarpresti fjárframlag í hjálparsjóð kirkjunnar.
Við fengum tónlistaratriði úr Listaskóla Mosfellsbæjar og þar á meðal frá Evu Limbo Guðmundsdóttur sem spilaði undurfallega á píanó en hún prýðir forsíðumyndina í dag.
Aðventuhátíðin á miðbæjartorginu var ekki síður falleg og þar kom Listaskólinn aftur við sögu en börn úr forskóladeildinni, undir stjórn Þórunnar Díu Steindórsdóttur sungu og spiluðu fyrir gesti. Það voru síðan þau Anney Saga La Marca Woodrow og Pálmar Jósep Gylfason á leikskólanum Reykjakoti sem fengu heiðurinn að því að tendra ljósin á jólatrénu og ég aðstoðaði þau lítillega við það verkefni.
Venju samkvæmt kíktu jólasveinar í heimsókn og gáfu mandarínur auk þess sem Mosfellingurinn Jógvan Hansen stýrði samkomunni og flutti nokkur lög. Þetta var í fyrsta skiptið síðan 2019 sem ljósin voru formlega tendruð og ánægjulegt að sjá hversu margir sóttu viðburðinn.
Fyrir tendrunina spilaði Skólahljómsveit Mosfellsbæjar undir stjórn Daða Þórs Einarssonar jólalög á torginu í Kjarna þar sem 4. flokkur kvenna í fótbolta hjá Aftureldingu seldi vöfflur, kakó og kaffi í fjáröflunarskyni.
Í vikunni átti ég fjölmarga fundi að vanda, í stjórn slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, bæjarráði og fræðslunefnd auk fastra funda með starfsmönnum. Ég fundaði með stjórnarformanni og framkvæmdastjóra Sorpu vegna undirbúnings að fundi stefnuráðs um eigendastefnu Sorpu. Ennfremur sótti ég fund með borgarstjóra vegna sama málefnis. Á síðasta kjörtímabili var ákveðið að setja á laggirnar stefnuráð fyrir höfuðborgarsvæðið en hlutverk þess er að taka stefnumótandi ákvarðanir um þau verkefni sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu standa sameiginlega að s.s. sorpurðun og strætisvagnasamgöngur.
Í stefnuráðinu eru bæjarstjórar og borgarstjóri ásamt kjörnum fulltrúum úr meiri og minnihluta. Formennska í stefnuráðinu er sameiginleg á milli formanns SSH og borgarstjóra og því fellur það í minn hlut að undirbúa fundi stefnuráðsins í samvinnu við borgarstjóra Reykjavíkur. Fulltrúar Mosfellbæjar í stefnuráðinu þetta kjörtímabilið eru Lovísa Jónsdóttir og Ásgeir Sveinsson.
Ég sótti fund fræðslunefndar sem fjallaði um starfsumhverfi leikskólanna í Mosfellsbæ. Gestir fundarins auk mín voru Tinna Rúna Eiríksdóttir, Sveinbjörg Davíðsdóttir, Þrúður Hjelm, Kristlaug Þ. Svavarsdóttir og Guðrún Björg Pálsdóttir leikskólastjórar í Mosfellsbæ auk þess sem Þuríður Stefánsdóttir sem á fast sæti sem áheyrnarfulltrúi í ráðinu fyrir hönd leikskólstjóranna sat einnig fundinn.
Þrúður Hjelm var með mjög áhugaverða kynningu á helstu áskorunum sem leikskólastjórar standa frammi fyrir þegar kemur að því að manna stöður og bjóða upp á aðlaðandi starfsumhverfi í leikskólum á sama tíma og leikskólabörnum fjölgar og krafan um faglega þjónustu eykst. Þrúður kom með mjög margar gagnlegar ábendingar sem lúta að verkefnum leikskólastjóra í tengslum við rekstur, mannauðsmál og umsjón með húsnæði. Fræðslunefnd fól framkvæmdastjóra fræðslu- og frístundasviðs að taka umræðuna áfram með það að markmiði að finna lausnir, bæði með miðlægum hætti og einnig með sértækum hætti í hverjum og einum skóla.
Ég átti líka fund í stýrihópi um börn með fjölþættan vanda en í honum eiga sæti fulltrúar þriggja ráðuneyta, Barna og fjölskyldustofu og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Vinnan hefur snúist um að móta sameiginlegar tillögur um úrræði fyrir börn og unglinga sem glíma við mikinn heilbrigðis- og hegðunarvanda. Tillögurnar eru komnar vel á veg og eigum við von á að geta afhent mennta-og barnamálaráðherra niðurstöður í lok þessa árs.
Ég tók líka nokkra fundi með einstaklingum og fyrirtækjum, vegna ýmissa mála sem tengjast verkefnum sveitarfélagsins en ég er með opna viðtalstíma þar sem fólk getur pantað tíma. Oft er um að ræða málefni sem hafa komið inn á borð stjórnsýslunnar áður eða eru í öðru ferli innan kerfisins. Mosfellsbær er í þeirri stöðu, eins og flest önnur sveitarfélög að íbúum finnast málin ganga hægt í gegnum kerfið. Það er einmitt eitt af hlutverkum þeirrar stjórnsýsluúttektar sem er fyrirhuguð, að fara í gegnum ferlana og skoða hvar má stytta málsmeðferðartíma meðal annars með því að auka stafræna getu sveitarfélagsins. Síðasti fundur vikunnar var einmitt með Guðrúnu Ragnarsdóttur frá fyrirtækinu Strategíu en bæjarráð fól mér að ganga til viðræðna við fyrirtækið vegna úttektarinnar. Það voru tvö fyrirtæki sem sendu inn tilboð og Strategía varð fyrir valinu.
Að þessu sögðu óska ég ykkur góðrar helgar!
Regína Ásvaldsdóttir
Forsíðumynd: Eva Limbo Guðmundsdóttir
Mynd 1: Bragi Ragnarsson
Mynd 2: Þorsteinn Yngvi Magnússon, Ida Fenger og séra Arndís Bernhardsdóttir Linn
Mynd 3: Með séra Arndísi
Mynd 4: Kveikt á jólaljósunum, Jógvan, Anney og Pálmar auk pistlahöfundar