Þessi vinnuvika er stutt vegna sumardagsins fyrsta og svo tek ég frí í dag föstudag og er reyndar stödd í Bretlandi í rigning og slagveðri. Vikan var mjög fjölbreytt og skemmtileg þrátt fyrir að ver stutt.
Á mánudag var stjórnarfundur hjá SSH þar sem við fengum kynningu á skýrslu um stöðu heimilislausra í sveitarfélögunum í kringum Reykjavík, þ.e. Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi, Seltjarnarnesi og Mosfellbæ. Verkefnið er samstarfsverkefni sveitarfélaganna sem sviðsstjórar velferðarsviða á svæðinu ákváðu að fara í og verður skýrslan núna send á öll sveitarfélögin sem taka málið fyrir í viðeigandi nefndum og komast svo vonandi að sameiginlegri niðurstöðu um aðgerðir. Skýrslan verður birt opinberlega í kjölfar umfjöllunar í sveitarfélögunum.
Á mánudaginn fór ég einnig, ásamt fulltrúum bæjarráðs á fund SÍBS og Reykjalundar, sem var haldinn á Reykjalundi. Fundurinn var mjög gagnlegur og snerist að miklu leyti um húsnæðismál Reykjalundar og framtíðarsýn í þeim efnum. Það er SÍBS sem á húsnæðið og lóðina umhverfis en það er Reykjalundar endurhæfing ses sem annast þjónustuna og það er sjálfstæð stjórn yfir starfseminni. Reykjalundur fær tekjur frá Sjúkratryggingarsjóði Íslands, SÍ, en eingöngu fyrir þjónustuna en ekki fyrir afnot af húsnæðinu. Það er fjármagnað í gegnum happdrættissölu, sem hefur dregist saman. Það eru því töluverðar áskoranir sem bíða Reykjalundar, hvað varðar húsnæðismálin.
Á þriðjudag sótti ég sjálfbærnifund forsætisráðherra sem var haldinn fyrir kjörna fulltrúa og starfsmenn sveitarfélaga, hagsmunaaðila og almenning. Fundurinn fyrir höfuðborgarsvæðið var haldinn í Salnum í Kópavogi. Á fundinum voru nokkur örerindi og síðan var unnið á borðum með spurningar sem snúa að heimsmarkmiðum um sjálfbærni. Mjög áhugaverðar umræður. Sama dag var líka stjórnarfundur í Reykjalundi endurhæfingu auk nokkurra innnahússfunda í Kjarnnum, meðal annars um þau verkefni sem verið er að vinna í tengslum við stafræna umbreytingu og forgangsáherslur.
Á miðvikudag fór ég á aðalfund Betri samgangna en ég fór með atkvæðisrétt sveitarfélaganna á þeim fundi sem formaður SSH. Samtökin eiga þrjá fulltrúa í stjórn, þau Ólöfu Örvarsdóttur sviðsstjóra umvherfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar og á fundinum voru þau Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH og Ásthildur Helgadóttir bæjarverkfræðingur í Kópavogi kjörin í stjórn og úr stjórninni gengu Gunnar Einarsson fyrrum bæjarstjóri í Garðabæ og Hildigunnur Hafsteinsdóttir lögfræðingur hjá SSH. Voru þeim færðar bestu þakkir fyrir stjórnarsetuna síðastliðin tvö ár.
Um morguninn var lítil athöfn við minnisvarðann í Arnartanga þar sem við Anna Katri Koskivirta, staðgengill finnska sendiherrans á Íslandi drógum íslenska og finnska fánann að húni. Um er að ræða árvissan viðburð þar sem þess er minnst að finnska þjóðin gaf Íslendingum viðlagasjóðshús sem voru reist í Arnartanga í kjölfar gossins í Heimaey árið 1973. Af því tilefni voru reistar flaggstangir og minnisvarði árið 1977 og vígðar að viðstöddum Kekkonen Finnlandsforseti þegar hann kom í heimsókn til Íslands.
Fyrr þennan sama morgun eða frá kl. 7.30 til 9.00 var haldinn bæjarráðsfundur þar sem fjölmörg mál voru tekin fyrir. Meðal annars kynnti Hanna Guðlaugsdóttir mannauðsstjóri niðurstöður árlegrar jafnlaunaúttektar sem kom mjög vel út fyrir Mosfellsbæ fyrir árið 2023 eins og reyndar á síðasta ári líka og var launamunurinn einungis 1,11 % sem verður að teljast langt innan skekkjumarka. Á sama fundi voru Hönnu þökkuð góð störf fyrir Mosfellsbæ og óskað farsældar en hún tekur við starfi mannauðsstjóra Heilsuverndar.
Ég átti líka afar líflegan fund með skólastjórum grunnskóla í bænum ásamt Gunnhildi Sæmundsdóttur starfandi sviðsstjóra, þar sem við fórum yfir ýmis mál, m.a. hvernig fræðslu- og frístundasvið getur stutt sem best við starfsemi skólanna. Fleiri slíkir fundir eru á döfinni með stjórnendum mismunandi eininga innan bæjarfélagsins. Þá átti ég fund með Birni H. Reynissyni ráðgjafa sem er að undirbúa íbúafund um atvinnumál í samstarfi við atvinnumálanefnd sem verður haldinn í maí og auglýstur sérstaklega.
Að þessu sögðu óska ég ykkur öllum gleðilegs sumars með þakklæti fyrir veturinn!