Forsíðumyndin er tekin af stjórn og varamönnum í slökkviliði höfuðborgarsvæðisins ásamt starfsfólki en stjórnin fékk ítarlega kynningu á helstu verkefnum slökkviliðsins í vikunni. Meðal annars fengum við sýnikennslu í skyndihjálp, fórum upp í körfubílnum ofl. Starf slökkviliðsins er að stærstum hluta að annast sjúkraflutninga og aðhlynningu við veikt fólk en árið 2022 voru boðanir vegna sjúkraflutninga 40.564, þar af voru 10.184 forgangsboðanir. Boðanir vegna bruna og annarra verkefna slökkviliðisns eru um 10 -20 % af starfinu. Slökkviliðið er starfrækt á fjórum stöðum á höfuðborgarsvæðinu, meðal annars við Skarhólabraut í Mosfellsbæ sem er gríðarlega mikið öryggisatriði fyrir okkur sem búum hér.
Ég fór á fjölda funda í vikunni að venju, m.a. fór ég núna í hádeginu í dag á fund forsætis-, fjármála og innviðaráðherra vegna samgöngusáttmálans. Þar náðist samstaða um ákveðið verklag næstu vikurnar við að greina þau tækifæri og þær áhættur sem felast í samningnum, m.a. áætlanir vegna einstakra verkefna auk þess að horfa til reksturs almenningssamgangna til lengri tíma. Málið verður kynnt nánar í næstu viku í viðkomandi sveitarfélögum.
Á fundi bæjarráðs í vikunni var samþykkt að Mosfellsbær taki á móti allt að 80 flóttamönnum á árinu 2023 samkvæmt sérstöku samkomulagi við félags-og vinnumarkaðsráðuneytið. Sjö sveitarfélög hafa þegar skrifað undir slíkan samning, þ.e. Reykjavík, Hafnarfjörður, Reykjanesbær, Múlaþing, Akureyri, Árborg og Hornafjörður en í samningnum felst annarsvegar að fjölmenningarsetur miðlar ákveðnum einstaklingum til sveitarfélagsins og hinsvegar að þeir sem koma á eigin vegum fá þjónustu samkvæmt samningnum. Nú þegar hafa um 30 einstaklingar frá Úkraínu flust til Mosfellsbæjar og fölgunin heldur áfram. Það er því til mikilla hagsbóta fyrir samfélagið að gera skýra samninga um þjónustuna og fá framlag vegna aðstoðar við börn í skólum, vegna framfærslu og húsaleigu en ríkið borgar ákveðið framlag fyrstu tvö árin af dvalartímanum. Ennfremur fær sveitarfélagið fjárframlag til að ráða sérstakan ráðgjafa til að aðstoða við aðlögun i samfélaginu. Nánari upplýsingar í minnisblaði velferðarsviðs sem var lagt fyrir bæjarráð á fimmtudag.
Nánari upplýsingar um verkefnið:
Á sama fundi var samþykkt að ganga til samninga við Metatron ehf um lagningu nýs gervigrass á neðri vellinum við Varmá. Það er mikið gleðiefni að fá svona mörg og góð tilboð í verkefnið og nú er bara að biðla til veðurguðanna um hlýindi þannig að verkið geti hafist sem fyrst.
Stjórnarfundur SSH var í vikunni og þar var meðal annars farið yfir stöðu mála á skíðasvæðum höfuðborgarsvæðisins og vinnu við vatnsvernd í tengslum við Bláfjallasvæðið. Auk þess var samþykkt að bera sameiginlega loftslagsstefnu höfuðborgarsvæðisins undir atkvæðagreiðslu í sveitarfélögunum.
Á fundinum var ennfremur samþykkt ályktun vegna NPA samninga en í lok febrúar fengu sveitarfélög landsins bréf frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu þar sem ráðuneytið upplýsti að verið væri að vinna nýjar verklagsreglur um mat á NPA umsóknum og engar nýjar umsóknir yrðu samþykktar. Ályktunin var svohljóðandi:
„Þann 1. janúar 2023 tóku gildi lög um breytingar á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018. Breytingarnar fólust annars vegar í því að innleiðingartímabil notendastýrðar persónulegrar aðstoðar (NPA) var framlengt til ársloka 2024 og hins vegar í fjölgun samninga með framlag úr ríkissjóði í allt að 145 samninga á árinu 2023 og allt að 172 samninga á árinu 2024. Í bréfi félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins til sveitarfélaga, dags. 23. febrúar 2023, kemur fram að þar sem um töluverða aukningu sé að ræða muni ráðneytið, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, móta verklag um móttöku og vinnslu umsókna um framlag vegna nýrra samninga. Þar sem gerð slíkra verklagsreglna er ekki lokið sé þá ekki tryggt að nýir samningar sem þegar hafa verið gerðir um NPA hljóti ríkisframlag. Stjórn SSH áréttar að svo unnt verði að festa NPA þjónustu varanlega í sessi verði að tryggja mótframlag frá ríkinu. Stjórn SSH hvetur ráðuneytið til að ljúka gerð umræddra verklagsreglna sem allra fyrst til að eyða óvissu í málaflokknum og ítrekar nauðsyn þess að ríkið standi við skuldbindingar sínar um þátttöku í nýjum samningum um NPA. Þá lýsir stjórn SSH þeirri afstöðu sinni að það þurfi að endurskoða upphæðir meðalsamninga sem nema í dag 30 milljónum, enda leiði þær til þess að sveitarfélögin beri mun meiri kostnað af NPA samningum en gert var ráð fyrir við gildistöku laga nr. 38/2018.“
Bæjarráð tók undir þessa bókun á fundi sínum þann 9. mars síðastliðinn.
Um helgina verður auglýst eftir nýjum skólastjóra Krikaskóla en Þrúður Hjelm sem hefur verið skólastjóri til 15 ára hefur óskað eftir lausn úr starfi. Þrúður hefur fylgt skólanum eftir frá byrjun en um er að ræða mjög merkilegt þróunarstarf í íslensku menntakerfi, þar sem skólinn er í senn leik- og grunnskóli fyrir börn á aldrinum 2-9 ára auk þess að vera með frístundastarf. Ég vil fyrir hönd Mosfellsbæjar þakka Þrúði fyrir framúrskarandi starf sem skólastjóri í Krikaskóla og óska henni velgengni í nýjum verkefnum.
Að þessu sögðu óska ég ykkur góðrar helgar og minni enn og aftur á Menningarmars en um helgina verða opnar vinnustofur listamanna fyrir gesti og gangandi.
Upplýsingar um viðburði í Mosfellsbæ:
Með Ásdísi bæjarstjóra í Kópavogi og Ragnhildi Jóndóttur bæjarfulltrúa á Seltjarnarnesi í körfubílnum - í 22 metra hæð!
Tengt efni
Nýársávarp bæjarstjóra: Tökum framtíðina í okkar hendur
Gleðilegt nýtt ár kæru Mosfellingar!
Pistill bæjarstjóra nóvember 2024
Pistill bæjarstjóra október 2024