Ótrúlega skemmtileg vika að baki enda mikil stemning hjá bæjarbúum og starfsmönnum í undirbúningi Túnsins. Forsíðumyndin að þessu sinni er af þeim Hilmari Gunnarssyni og Auði Halldórsdóttur sem bera höfuðábyrgð á undirbúningi bæjarhátíðarinnar og þeim Blómdísi og Jóndísi blómaskreytum sem tóku Kjarnatorgið að sér.
Í byrjun vikunnar kíkti ég á flottu vinnustofuna í Skálatúni og keypti eldrauðar veifur til að skreyta húsið mitt enda bý ég í rauða hverfinu. Þar er að myndast stemning og við íbúarnir í götunni munum hittast á laugardagskvöldið og grilla saman.
Ég sat undirbúningsfund með helstu aðilum sem koma að undirbúningi Túnsins á þriðjudeginum, s.s. stjórnendum íþróttamannvirkja og þjónustustöðvar, garðyrkjudeildar, Aftureldingu, skátunum, björgunarsveitinni Kyndli og fleirum. Fundurinn var undir stjórn þeirra Hilmars og Auðar Halldórsdóttur. Við höfum tekið stöðumat daglega þessa vikuna enda um margt að hugsa. Ég verð líka að viðurkenna að ég hef skoðað veðurspána nokkrum sinnum á dag og þegar mér líkar ekki spá á einni stöð, þá færi ég mig yfir.
Í fyrstu var spáð allt að 12 metrum á sekúndu á laugardeginum auk úrhellisrigningu en svo fór að lægja (í spánni) en sömu rigningunni er spáð áfram. Við erum nú vön því Íslendingar og verðum bara dugleg að klæða okkur eftir veðri!
Ég átti fund á þriðjudagsmorgni með ýmsum sérfræðingum vegna kennslu flóttabarna en skólamálayfirvöld í Úkraínu hafa þróað mjög gott fjarkennsluefni sem úkraínsk flóttabörn geta nýtt sér. Um 25 þjóðir hafa innleitt þetta kerfi sem Íslandi stendur til boða.
Á miðvikudagsmorgninum var ég í morgunútvarpi Rásar 2 að kynna helstu dagskrárliði bæjarhátíðarinnar. Hér má lesa umfjöllum um viðtalið. Þá átti ég hádegisfund með framkvæmdastjóra SSH og fulltrúum helstu hagsmunaaðila fatlaðs fólks þar sem við fórum yfir stöðuna í málaflokknum. Við sammæltumst um að vera samstíga í því verkefni að sækja réttlátari skiptingu fjármagns í málaflokkinn.
Síðdegis mætti ég á opna húsið í Hlégarði þar sem þjónusta við eldri borgara var kynnt en velferðarsvið skipulagði fundinn í samvinnu við velferðarnefnd. Fjölmargir þjónustuaðilar voru með bása þar sem þeir kynntu þjónustu sína og golklúbburinn var með skemmtilega púttbraut til að leyfa fólki að prófa.
Undir lok dags átti ég stefnumót við forsvarsfólk íbúasamtakanna í Álafosskvosinni ásamt bæjarfulltrúum og fulltrúum af umhverfissviði. Fulltrúar samtakanna fóru með okkur í göngu um kvosina og bentu á ýmsa þætti sem þau telja mikilvægt að laga til að ásýnd svæðisins verði sem best.
Á fimmtudagsmorgni var bæjarráðsfundur og í framhaldinu var ég með opna viðtalstíma fyrir bæjarbúa eins og alltaf á fimmtudagsmorgnum. Í bæjarráði voru nokkur mál, meðal annars var samþykkt að heimila umhverfissviði að endurnýja eldri lóðaleigusamninga á lóðum sem eru í eigu sveitarfélagsins og leigðar eru undir íbúðarhúsnæði. Lagt er til að við endurnýjun verði leigutími lóðaleigusamninga til 1. júlí 2075. Þá er lagt til að heimild til endurnýjunar lóðaleigusamninga nái aðeins til fullbyggðra eldri íbúðarsvæða samkvæmt gildandi aðalskipulagi Mosfellsbæjar hverju sinni þar sem gildistími samninga er runninn út og ekki er fyrirhuguð frekari uppbygging. Þá var samþykkt að heimila útboð á endurnýjun færanlegrar kennslustofu fyrir mötuneytiseldhús leikskólans Reykjakots.
Ég fór í 10 ára afmæli leikskólans Höfðabergs eftir hádegi en leikskólinn hóf starfsemina sem útibú við leikskólann Hulduberg og síðar Lágafellsskóla. Skólinn var svo gerður sjálfstæður í sumar. Tinna skólastjóri tók á móti okkur Gunnhildi Sæmundsdóttur sviðsstjóra fræðslu og frístundasviðs og við fórum inn á allar deildir og heilsuðum upp á börnin og starfsfólkið. Boðið var upp á kaffi og dýrindis kökur í tilefni dagsins. Ég fór líka og tók smá borðtennis æfingu með Auði Tinnu Aðalbjörnsdóttur formanni borðtennissambands Íslands og Júlíusi Finnbogasyni formanni nýstofnaðs borðtennisfélags Mosfellsbæjar. Þá fór ég í sögugöngu með Bjarka Bjarnasyni þar sem við fræddumst um uppbyggingu íþróttastarfs í kringum Varmá. Stöllurnar flottu tóku lagið á milli frásagna. Ég náði líka að fara út á Kjarnatorg og skoða skreytingarnar hjá þeim Blómdísi og Jóndísi.
Í hádeginu í dag fór ég í viðtal í útvarp Mosfellsbæjar en dagskrárgerðin er í höndum þeirra Ástrósar Hind Rúnarsdóttur og Tönju Rasmussen. Þær sendu fyrst út í fyrra í tilefni af 35 ára afmæli Mosfellsbæjar en þær eru starfsmenn bókasafns Mosfellsbæjar.
Síðar í dag er svo skóflustunga með Þorskahjálp og verðandi íbúum við Úugötu en þar erum við að byggja upp íbúðakjarna fyrir fimm fatlaða einstaklinga sem munu búa þar í séríbúðum. Áætluð verklok eru fyrir áramót árið 2024. Þorskahjálp hefur öðlast góða reynslu af því að byggja upp svona kjarna og ég hlakka mikið til samstarfsins við þau og fagna mjög að við séum að fjölga búsetukostum fyrir fatlað fólk í Mosfellsbæ. Í kvöld er það svo skrúðganga frá Kjarna og Ullarpartýið í Álafosskvos og vonandi næ ég nokkrum góðum atriðum fyrir þann tíma.
Ég óska ykkur öllum góðrar helgar og vonast til að sjá sem flest á þeim 100 viðburðum sem eru í boði í bænum um helgina.
Og ef einhver er ekki búinn að opna dagskrána þá er hana að finna á mos.is/dagskra.