Í dag er 1. desember, fullveldisdagurinn en þann 1. desember 1918 tóku í gildi sambandslög við Danmörku og í þeim fólst viðurkenning á fullveldi og sjálfstæði Íslands. Og í gær voru einmitt kosningar til alþingis og á þessari stundu er enn verið að bíða eftir lokatölum úr suðvestur kjördæmi og norðvestur. Mig langar að þakka kjörstjórninni okkar og öllu starfsfólkinu sem vann við kosningarnar kærlega fyrir vel unnin störf. Ég held að fæstir geri sér grein fyrir því að þetta fólk er að vinna í 18 klukkustundir á kjördag, sem er ansi löng vakt.
Þá er við hæfi að óska öllu því flotta og frambærilega fólki sem hlaut kjör til alþingis innilegar hamingjuóskir! Hinum sem hverfa á braut eftir góða þjónustu við okkur, óska ég alls hins besta.
Í gær, 30. nóvember, tendruðum við jólatréð í Mosfellsbæ við hátíðlega athöfn á á miðbæjartorginu. Ég fékk til liðs við mig þau Sóllilju Björgu Guðmundsdóttur og Hrannar Engilbertsson úr leikskólanum Helgafellsskóla og saman töldum við niður 10, 9, 8…og viti menn, það kviknaði á trénu! Tæknin á það nefnilega til að stríða á ögurstundu og það er alltaf ákveðinn spenningur hvort hún virki eins og hún á að gera. Það var svolítið kalt á torginu, töluverður vindur en það kom ekki að sök, börnin skemmtu sér mjög vel og okkar frábæru kórar, forskólabörnin í Listaskólanum og kór Lágafellskirkju sungu af mikilli innlifun. Þá spilaði skólahljómsveitin í Kjarna, kvenfélagskonur voru með glæsilegan basar og Búðin okkar einnig og 4. flokkur kvenna í fótbolta seldi kakó og vöfflur. Forsíðumyndin er úr Kjarna í gær.
Nóvember hefur liðið með ógnarhraða. Þegar ég lít yfir dagbókina þá er hún ansi skrautleg og ég ætla eingöngu að tæpa á því stærsta. Eins og kom fram í síðasta pistli hófst nóvember á aðalfundi SSH og ég lét af formennsku samtakanna eftir tveggja ára stjórnarformennsku. Einar Þorsteinsson borgarstjóri tók við keflinu en við skiptumst á, bæjarstjórar og borgarstjóri á að gegna þessu hlutverki í tvö ár í senn.
Fjarhagsáætlun var lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn miðvikudaginn 6. nóvember. Við héldum vinnufund með öllum bæjarfulltrúum á mánudeginum fyrir umræðuna í bæjarstjórn þar sem við fórum yfir áætlunina í heild sinni og síðan kynntu sviðsstjórar sína málaflokka.
Ég læt frétt um fjárhagsáætlunina fylgja hér fyrir neðan en hún verður tekin til síðari umræðu í bæjarstjórn núna 4. desember. Ég vek sérstaka athygli á greinargerðinni með fjárhagsáætlun sem er unnin í samstarfi þeirra Sif Sturludóttur á skrifstofu umbóta og þróunar og Önnu Maríu Axelsdóttur á fjármála og áhættustýringarsviði. Þar er hægt að sjá helstu stærðir og lykiltölur í rekstrinum. Meðal annars samanburð útgjalda í leikskólum en Mosfellsbær er með lægstu leikskólagjöld á höfuðborgarsvæðinu. Foreldrar borga um 9% af kostnaði við leikskólapláss á mánuði en fyrir 15 árum var þátttaka foreldra ríflega 30%.
Fjárfestingarstigið verður mjög hátt á árinu 2025, um fimm milljarðar í nýjan leikskóla, íþróttamannvirki, viðgerðir á skólum, skólalóðir, gatnagerð og fleira. Það skiptir ekki síður máli að það verður fjárfest aukalega í börnum í Mosfellsbæ. Fyrir liggur tillaga um 100 milljóna viðbótarframlag í forvarnir barna og ungmenna. Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum í lok ágúst að óska eftir aðgerðaáætlun til að stemma stigu við fjölgun barnaverndartilkynninga en þeim hefur fjölgað um 48 % fyrstu 10 mánuði ársins. Mest í flokknum áhættuhegðun sem er þegar börn eru sjálfum sér hættuleg með ýmisskonar hegðun s.s. vímuefnaneyslu og afbrotum. Á fundum með foreldrum, sérfræðingum Mosfellsbæjar í vinnu með börnum og ungmennum og fulltrúum í ungmennaráði fengum við mat á því hvað þyrfti helst að bæta í forvörnum og síðan forgangsröðuðum við 27 aðgerðum sem verður unnið að á árinu 2025.
Almennar forvarnir fá 25 milljónir, snemmtæk íhlutun 42 milljónir og barnavernd 33 milljónir. Til að kynna þessa áætlun héldum við blaðamannafund í Bókasafninu miðvikudaginn 13. nóvember og buðum sérstaklega oddvitum framboða til alþingiskosninganna að taka til máls og kynna fyrir hvað flokkurinn þeirra stendur í forvarnarmálum barna og ungmenna. Fundurinn var mjög vel sóttur og góð stemning myndaðist. Við vildum líka skilja eftir hjá þessum væntanlegu alþingismönnum mikilvægi þess að styðja vel við meðferðarstarf barna og ungmenna sem er á ábyrgð ríkisins.
Þessar aðgerðir snúast meðal annars um aukna sálfræðiþjónustu og ráðgjöf, námskeið fyrir foreldra og kennara, samskiptasáttmála á milli heimila og skóla, aukið aðgengi að íþróttahúsum, hækkun frístundastyrks, svo nokkuð sé nefnt. Ég hef sagt opinberlega að ef öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu myndu setja sambærilegt aukafjármagn í þennan málaflokk værum við að auka forvarnir um 2 milljarða. Frétt um átakið, sem við köllum Börnin okkar, auk aðgerðaráætlunarinnar má finna hér fyrir neðan.
Um þessar mundir er ég að skipuleggja kynningarfundi fyrir kennara í öllum skólum Mosfellsbæjar og fór ásamt Ólöfu Sívertsen sviðsstjóra fræðslu og frístundasviðs á fyrsta fundinn í vikunni, í Lágafellssskóla. Það mynduðust mjög líflegar umræður þar um forvarnir og fræðslu og ég hlakka til frekara samstarfs við skólasamfélagið um þessi mál.
Við, forsvarsmenn sveitarfélaganna, höfum kallað mjög mikið eftir því að ríkið sinni sínum hlut í meðferðarstarfi fyrir börn og ungmenni en skortur á meðferðarúrræðum hefur verið tilfinnanlegur undanfarna tvo áratugi. Þetta hefur dregið máttinn úr barnaverndarstarfinu, sem er háð því að fá úrræði við hæfi, þegar búið er að fullreyna mildari leiðir.
Það er því mjög gleðilegt að það verði hægt að opna meðferðardeild hér í Mosfellsbæ, á landi Farsældartúns en deildin verður tímabundið til húsa í Blönduhlíð. Það er búið að gera húsið mjög fallega upp að innan en það þarf að sjálfsögðu að taka það líka að utan, til dæmis að mála þakið.
Sérfræðingar Eflu og Stiku hafa verið að vinna að gerð skipulagslýsingar fyrir svæðið en þar er gert ráð fyrir einskonar þjónustukjarna fyrir börn og fjölskyldur. IOGT, sem rak Skálatún í yfir 70 ár, ánafnaði eignunum í þágu barna og ungmenna og sérstök stjórn var mynduð utan um verkefnið. Haraldur L. Haraldsson ráðgjafi og fyrrum bæjarstjóri í Hafnarfirði er formaður stjórnar og ég á sæti í henni sem fulltrúi Mosfellsbæjar.
Gert er ráð fyrir að Barna og fjölskyldustofa flytjist á svæðið og þar verði skrifstofur stofnunarinnar ásamt búsetuúrræðum fyrir börn og ungmenni með fjölþættan vanda og meðferðareining fyrir ungmenni. Þá er gert ráð fyrir Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og Ráðgjafar- og greiningarstöð auk sjálfstætt starfandi aðila og félagasamtaka verði með sína starfsemi á svæðinu.
Verið er að undirbúa opinn fund með íbúum í Mosfellsbæ, sem verður haldinn núna 5. desember til að kynna framtíðaráform vegna Farsældartúns. Síðastliðið vor hóf stjórn Farsældartúns samstarf við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs um val á teymi til að standa að deiliskipulagi svæðisins að Farsældartúni til framtíðar litið.
Það hafa verið fjölmargir skemmtilegir viðburðir í Mosfellsbæ í nóvember og húsfyllir á þeim flestum. Bókamenntakvöldið í Bókasafni Mosfellsbæjar sem var haldið á fimmtudaginn í þessari viku var mjög vel sótt og sama má segja um opnun jóla- listaverkamarkaðarins í listasalnum á laugardaginn en þar eru um 50 listamenn með verk til sölu. Listaverkamarkaðurinn er opinn til 20. desember á opnunartíma bókasafnsins. Þá var húsfyllir í Hlégarði á jólamarkaði félagsstarfsins síðastliðinn sunnudag og á þakkargjörðahátíðinni sem var haldin í Hlégarði á fimmtudag í samstarfi við Reykjabúið. Á fimmtudaginn var einnig haldinn árlegur markaður á vegum Skálatúns og var líka vel sóttur. Þá var markaður á torginu í gær, í tengslum við tendrun jólatrésins.
Framundan er svo hinn árlegi jólamarkaður Ásgarðs sem verður haldinn laugardaginn 7. desember. Þá verður jólaskógur Skógræktarfélags Mosfellsbæjar opnaður sömu helgi og síðan verður jólamarkaður í Hlégarði 14. desember þar sem fjölmargir munu selja vörur sínar. Þá eru ótaldir viðburðir á vegum Lágafellssóknar sem eru mjög margir í desember. Ég er örugglega að gleyma einhverju en það er ljóst að það er nóg við að vera framundan.
Að endingu óska ég ykkur gleðilegrar aðventu og jóla – næsti pistill kemur í lok janúar 2025.
Viðburðir í Mosfellsbæ:
Tengt efni
Nýársávarp bæjarstjóra: Tökum framtíðina í okkar hendur
Gleðilegt nýtt ár kæru Mosfellingar!
Pistill bæjarstjóra október 2024
Pistill bæjarstjóra september 2024