Ágætu bæjarbúar,
Í gær, 1. september tók ég til starfa sem bæjarstjóri hér í Mosfellsbæ. Fyrsta verkefnið var að mæta á bæjarráðsfund kl. 7:30 en þar voru nokkur mál tekin til umfjöllunar, meðal annars sex mánaða uppgjör sveitarfélagsins. Það er ljóst af uppgjörinu að það eru krefjandi tímar í umhverfi sveitarfélaga, ekki bara hér í Mosfellsbæ heldur á landinu öllu. Vaxtaumhverfið sem við búum við hækkar lán sveitarfélaganna – eins og heimilanna í landinu og hefur óneitanlega áhrif á reksturinn. Málaflokkur fatlaðs fólks er annar rekstrarþáttur þar sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa ákveðið að stilla saman strengi og óska eftir auknum tekjustofnum til að standa undir þessum mikilvæga rekstri.
Eftir bæjarráðið fór ég á starfsmannafund á bæjarskrifstofunum og það var afskaplega vel tekið á móti mér af starfsmönnum og boðið upp á þessa líka fínu tertu frá Mosfellsbakaríi.
Ég fór síðan í Kvíslarskóla með fulltrúum umhverfissviðs og fræðslu-og frístundasviðs og hitti Þórhildi skólastjóra og aðra stjórnendur. Þar var farið í gegnum stöðuna, hvaða verkefnum er lokið og hvað vantar upp á til að bæði nýjar skólastofur og önnur hæð hússins geti tekið á móti nemendum. Starfsfólk Kvíslarskóla á miklar þakkir skildar fyrir útsjónarsemi við krefjandi aðstæður en ekki síður nemendur og foreldrar sem hafa sýnt þessum aðstæðum mikinn skilning.
Í morgun ávarpaði ég aðalfund Skógræktarfélags Íslands en félagið heldur aðalfund sinn í Hlégarði með dyggum stuðningi Skógræktarfélags Mosfellsbæjar. Það er greinilega mikil gróska á þessu sviði hér í bænum og umgjörð bæjarins ber öflugu starfi skógræktarfólks fagurt vitni.
Í hádeginu þáði ég boð Hlaðgerðarkots um heimsókn en þar er unnið gríðarlega gott starf í þágu einstaklinga sem þurfa á stuðningi að halda.
Þessir fyrstu dagar lofa mjög góðu og ég fer inn í helgina þakklát fyrir það traust sem bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur sýnt mér með ráðningunni og full tilhlökkunar gagnvart verkefnunum framundan.
Næstu dagar og vikur fara meðal annars í að heimsækja stofnanir bæjarins og kynnast betur innviðum Mosfellsbæjar.
Ég minni á að það er hægt að panta viðtalstíma í síma 525-6700 eða senda póst á netfangið mos@mos.is.
Njótið helgarinnar!
Regína Ásvaldsdóttir
Mynd 1: Frá vinstri, Arnar Jónsson, Þóra Hjaltested, Dagný Kristinsdóttir, Halla Karen Kristjánsdóttir, Ásgeir Sveinsson, Regína Ásvaldsdóttir, Lovísa Jónsdóttir, Anna Sigríður Guðnadóttir og Jana Katrín Knútsdóttir
Mynd 2: Frá vinstri, Björn Traustason formaður skógræktarfélags Mosfellsbæjar, Regína bæjarstjóri og Jónatan Garðarsson formaður Skógræktarfélags Íslands