Það var vel mætt á fund Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar um fyrirhugaða lagningu Sundabrautar en fundurinn var haldinn í húsakynnum framhaldsskólans í Mosfellsbæ í gærkveldi. Það stóð til að halda sameiginlegan fund fyrir Kjalnesinga, Skagamenn og Mosfellinga en við óskuðum eftir sérstökum fundi í Mosfellsbæ þar sem málið varðar mikla hagsmuni bæjarbúa og varð Vegagerðin við því. Valdimar Birgisson formaður skipulagsnefndar Mosfellsbæjar stýrði fundinum en fyrirlesarar voru þær Anna Heiður Eydísardóttir og Ragnhildur Gunnarsdóttir frá Eflu en þær Helga Jóna Jónasdóttir, Bryndís Friðriksdóttir og Sigríður Inga Sigurðardóttir frá Vegagerðinni tóku þátt í umræðum að fyrirlestrum loknum. Þá buðu þær upp á að fundargestir gætu spjallað við þær að afloknum fundi og skoðað þær teikningar sem voru hengdar upp í anddyri skólans. Í umræðunum kom meðal annars fram að þó að lagning Sundabrautar væri mikið hagsmunamál fyrir Mosfellinga m.t.t. þeirrar umferðar sem fer á hverjum degi í gegnum bæínn þá væru áhyggjur af lífríki Leiruvogsins, ef farið verður í þverun með tilheyrandi fyllingum. Fleira var rætt. s.s. vegtengingar frá Sundabraut og inn á Álfsnes til að tengja við Vesturlandsveg.
Fólk var hvatt til þess að senda inn umsagnir í skipulagsgáttina sem er opin til 19. október.
Mosfellsbær mun að sjálfsögðu senda formlega umsögn um málið en skipulagsnefndin bókaði svohljóðandi á fundi sínum þann 6. október síðastliðinn:
Skipulagsnefnd Mosfellsbæjar tekur undir jákvæð áhrif þess að Sundabraut muni auka sveigjanleika stofnvegakerfisins með dreifingu umferðar á fleiri leiðir og létta á umferðarþunga af öðrum vegum, s.s. Höfðabakka um Gullinbrú, Ártúnsbrekku og Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ. Auk þess samfélags- og umhverfislega ábata sem fylgir minni akstri, útblæstri og mengun vegna styttri ferðatíma vegfarenda.
Skipulagsnefnd leggur sérstaka áherslu á mikilvægi þess að metin verði vandlega möguleg áhrif útfærslu III. hluta Sundabrautar (Geldingares-Álfsnes) á Leiruvog, hvað varðar strauma og lífríki svæðisins. Leiruvogur og Blikastaðakró voru friðlýst árið 2022 en svæðið er mikilvægur viðkomustaður farfugla, einkum vaðfugla og fóstrar ríkulegt fuglalíf allt árið um kring. Auk þeirra einkennist vogurinn af fjölbreyttum vistgerðum, leirum, þangfjörum, kræklingaáreyrum og sandfjörum sem eru lífauðugar. Vakin er athygli á mögulegum neikvæðum áhrifum verulegra landfyllinga á þessum stað.
Á einni af myndunum sem fylgja færslunni er mynd af fulltrúum Vegagerðarinnar og Eflu.
Vikan hefur að öðru leyti verið mjög hefðbundin. Á laugardag ávarpaði ég gesti á sýningaropnun í Kvíslartungu 28 en þar er listakonan Una Björg Magnúsdóttir með sýninguna Svikull silfurljómi. Kvíslartunga er tæplega 400 fm einbýlishús í byggingu og rammar verkin mjög fallega inn. Sýningin er á vegum listasafns ASÍ og var fjöldi manns mættur til að samgleðjast listakonunni. Sýningin stendur til 29. október og ég hvet bæjarbúa til að nýta þetta tækifæri og skoða þessi nýstárlegu verk í mjög svo óvenjulegu rými.
Á mánudagsmorgun átti ég fund með okkar aðilum í samninganefnd vegna samgöngusáttmálans en við hefjum vinnuvikuna yfirleitt á fundum kl. 8 á mánudagsmorgnum til að taka stöðuna og ræða álitamál. Þá tóku við fundir innanhúss með framkvæmdastjórninni, fundur með Páli Björgvini framkvæmdastjóra SSH og Þorvaldi Daníelssyni formanni samráðsnefndar höfuðborgarsvæðisins um skíðasvæðin. Þá var stjórnarfundur Skálatúns ses eftir hádegi auk undirbúnings bæjarráðs. Á stjórnarfundi Skálatúns var samþykkt að Sóley Ragnarsdóttir, sem hefur gegnt starfi aðstoðarmanns mennta og barnamálaráðherra, taki að sér verkefnastjórnun fyrir stjórnina til að koma málum tengdum uppbyggingu á Skálatúnsreitnum af stað. Sóley sem er lögfræðingur að mennt hefur fylgt þessu verkefni frá upphafi samningsumleitana á milli IOGT, Mosfellsbæjar og Mennta- og barnamálaráðuneytis og mjög gott að fá hana í verkefnið.
Á þriðjudaginn héldum við góða vinnustofu um farsæld barna með þátttöku starfsfólks fræðslu- og frístundasviðs og velferðarsviðs. Íris Marteinsdóttir sem hefur verið verkefnisstjóri farsældar hjá Mosfellsbæ í eitt ár og hefur nýlega lokið störfum fór yfir helstu þætti farsældarhringsins og þau skref sem er nauðsynlegt að taka í framhaldinu. Því næst voru umræður þar sem við fórum yfir helstu verkefni sem við þurfum að vinna til að komast áfram í farsældinni og forgangsröðun þeirra.
Á miðvikudag hófst dagurinn á fundi í samráðsnefnd Mosfellsbæjar og Aftureldingar. Fulltrúar í samráðsnefndinni eru bæjarfulltrúarnir Halla Karen Kristjánsdóttir og Ásgeir Sveinsson, Birna Kristín Jónsdóttir og Hrafn Ingvarsson frá aðalstjórn Aftureldingar, Grétar Eggertsson framkvæmdastjóri félagsins, Arnar Jónsson sviðsstjóri menningar-, íþrótta- og lýðheilsumála og Jóhanna B. Hansen sviðsstjóri umhverfissviðs auk bæjarstjóra. Ég átti í framhaldinu nokkra innanhússfundi ásamt fundi með framkvæmdastjóra SSH og síðan var bæjarstjórnarfundur að venju.
Í gær, fimmtudag var ég með opna viðtalstíma eftir bæjarráð og fékk nokkra einstaklinga og fulltrúa fyrirtækja í viðtöl. Ég hef sagt það áður að mér finnst mjög gaman að kynnast íbúum á þennan hátt og fá svona fjölbreyttan hóp í heimsókn. Í bæjarráðinu var samþykkt að flýta fyrirhuguðum framkvæmdum við Kvíslarskóla þannig að neðri hæðin verði að fullu tilbúin fyrir áramót. Á fundinum var einnig lögð fram framvinduskýrsla vegna framkvæmdanna en þær munu kosta á annan milljarð króna, þegar allt er upp talið. Ég fékk svo heimsókn frá Kjartani Kjartanssyni bæjarstjóra í Reykjanesbæ og framkvæmdastjórninni hjá honum en þau vildu meðal annars kynna sér stjórnkerfisbreytingar hjá Mosfellsbæ og nýtt skipurit auk stafrænu þróunarinnar. Þetta var líflegur fundur og um margt að ræða.
Í dag hafa eingöngu verið fundir innanhúss og ég hef fengið ágætis tíma til að sinna stjórnsýsluerindum. Ég fer því inn í helgina með örlítið hreinna skrifborð en venjulega og sól í sinni.
Góða helgi!