Síðasta helgi var mjög viðburðarík en Stóri plokkdagurinn var á sunnudeginum 30. apríl. Við mæltum okkur mót við Kjarna, ég og formaður umhverfisnefndar, formaður bæjarráðs og forseti bæjarstjórnar og plokkuðum í runnum í nágrenninu. Meðal annars við torgið og í holtinu fyrir aftan Bankann. Við náðum heilmiklu rusli, ekki síst sígarettustubbum og púðum sem eru hvimleiðir aðskotahlutir í umhverfinu. Það var plokkað víða í Mosfellsbæ, til dæmis í Rótarýlundinum og þar stóð Rótarýfélagið fyrir plokkun en félögin eru bakhjarlar plokkdagsins um allt land. Þá stóð foreldrafélagið fyrir plokkdegi í Helgafellshverfi og bauð foreldrum og börnum í grill á eftir. Algjörlega til fyrirmyndar!
Ég fór líka á Dýrin í Hálsaskógi í Bæjarleikhúsinu sem var ótrúlega metnaðarfull og skemmtileg sýning. Frábær leikur, tónlist, söngur og leikmynd sem leikfélagið má vera stolt af og færi ég þeim bestu þakkir fyrir mig og mína!
Stutt en skörp vinnuvika að baki. Mikið af innanhússfundum og viðtölum við einstaklinga og forsvarsfólk fyrirtækja í bænum. Á þriðjudag voru nokkrir fundir, bæði með starfsmönnum og kjörnum fulltrúum. Á miðvikudag hóf ég daginn klukkan hálf átta með foreldrafélagi Varmárskóla, til að fara yfir fyrirhugaðar framkvæmdir í skólanum og á lóðinni í sumar. Í framhaldinu var starfsmannafundur þar sem við fórum meðal annars yfir næstu skref varðandi flokkun og sorphirðu en það eru miklar breytingar framundan í þeim efnum. Við þurfum öll að vera vel upplýst um þau mál, til að geta svarað bæjarbúum á sem bestan hátt. Það eru fyrirhugaðir kynningarfundir í bóksafninu síðar í maí sem verða auglýstir sérstaklega.
Á tímabilinu 25. maí til 30. júní verður nýjum tunnum dreift við öll heimili í bænum. Heimilin fá einnig plastkörfu og bréfpoka til að safna matarleifum innan húss sem verða afhent um leið og tunnurnar.
Sérbýlin fá eina tvískipta gráa 240 lítra tunnu merkta matarleifum og blönduðum úrgangi, gamla gráa tunnan verður endurmerkt fyrir plastumbúðir og blá tunnan fær einnig nýjan miða fyrir pappír/pappa.
Fjölbýlin fá brúna 140 lítra tunnu merkta matarleifum. Tunnur verða endurmerktar sömuleiðis með nýju miðunum en heildar lítrafjöldi tunna verður ekki aukin nema í einstaka tilfellum. Fjölbýli með djúpgáma fá sömu leiðis brúnu tunnurnar að minnsta kosti til að byrja með.
Afhendingaráætlunina fyrir nýju tunnurnar:
Á miðvikudaginn hófst verkefnið Hjólað í vinnuna. Það vildi ekki betur til hjá mér en að ég mætti óvart á bíl í vinnuna, en náði að skjótast heim á milli funda og sækja hjólið. Það munar um hvern liðsmann og hvern kílómeter!
Á fimmtudag var bæjarráðsfundur og þar var samþykkt ráðning nýs skólastjóra Krikaskóla, Viktoríu Unnar Viktorsdóttur.
Nánari upplýsingar um ráðninguna:
Á fimmtudag kvöddum við Hönnu mannauðsstjóra sem er að fara í nýtt starf hjá Heilsuvernd. Hanna hefur starfað í sjö ár hjá Mosfellsbæ og ég færi henni kærar þakkir fyrir vel unnin störf hjá bænum og óska henni alls hins besta á nýjum vettvangi. Þar til nýr mannauðsstjóri verður ráðinn mun Katrín Dóra Þorsteinsdóttir leysa af í mannauðsmálunum í hlutastarfi næstu mánuði.
Í morgun var fundur almannavarnarnefndar í Skógarhlíð og í beinu framhaldi var stjórnarfundur hjá slökkviliðinu. Þá átti ég fund með bakhópi viðræðunefndar um kostnaðarþáttöku ríkisins í strætisvagnasamgöngum en sá hópur var skipaður fyrir skemmstu og vonir standa til að geti lokið störfum í sumar. Loks átti ég fund með starfsfólki Aftureldingar til að ræða ýmis praktísk mál.
Í dag voru opnuð tilboð í lóðir í fyrri úthlutun í fimmta áfanga í Helgafellshverfi. Alls bárust 98 umsóknir.
Í þessari úthlutun var óskað eftir tilboðum í byggingarrétt annars vegar fjögurra fjölbýla með 12 íbúðum hvert, alls 48 íbúðir, og hins vegar sjö raðhúsa, alls 24 íbúðir.
Bæjarráð fer með úthlutun lóða að lokinni yfirferð tilboða. Hverri lóð verður úthlutað til þess aðila sem gerir hæst tilboð í viðkomandi lóð, enda uppfylli tilboð viðkomandi aðila skilyrði úthlutunarskilmála þar á meðal um hæfi tilboðsgjafa.
Yfirlit yfir tilboðin:
Það eru því spennandi tímar framundan í Mosfellsbæ með áframhaldandi uppbyggingu.
Góða helgi!
Myndir af flotta leikhópnum sem lék í Dýrunum í Hálsaskógi. Einnig frá Stóra plokkdeginum með þeim Höllu Karenu Kristjánsdóttur formanni bæjarráðs og Örvari Jóhannssyni formanni umhverfisnefndar. Þá er mynd af fulltrúum úr foreldrafélagi Varmárskóla. Loks er mynd af Hönnu mannauðsstjóra og Andreu dóttur hennar frá kveðjustundinni í gær.