Það er við hæfi að hefja þennan pistil á að segja; Til hamingju Afturelding! Síðasti pistill var skrifaður á föstudeginum fyrir úrslitaleik Aftureldingar og Hauka, eftir frábæran sigur á Stjörnunni á fimmtudagskvöldinu.
Laugardagurinn rann upp bjartur og fagur og það var ótrúleg stemning á leiknum í Höllinni. Haukar voru yfir í fyrri hálfleik og svo sótti Afturelding í sig veðrið og leiknum lauk 28:27. Það ætlaði allt um koll að keyra í höllinni enda bikarinn að koma ,,heim” eftir 24 ár. Það þurfti að hafa snör handtök eftir leikinn, til að undirbúa móttöku í Hlégarði og það er full ástæða til að þakka öllum sem komu að þeim viðburði. Að öðrum ólöstuðum þá vil ég þakka Hilmari Gunnarssyni sérstaklega en hann gegnir hlutverki viðburðastjóra í Hlégarði um þessar mundir. Það var ótrúlega góð stemning í húsinu og fagnaðarlátunum ætlaði seint að linna þegar nýkrýndir bikarmeistarar mættu á staðinn.
Vikan hefur einkennst af fundarhöldum en líka mjög skemmtilegum viðburðum eins og Stóru upplestrarkeppninni sem var haldin í gær í Kvíslarskóla. Tólf nemendur úr 7 bekk grunnskólanna kepptu til úrslita. Elín Helga Jónsdóttir í Kvíslarskóla bar sigur úr býtum og fékk bikarinn eftirsótta. Ingibjörg Guðný Guðmundsdóttir var í öðru sæti og Hrafnhildur Rut Njálsdóttir í þriðja sæti. En, eins og kom fram í ræðunni minni í gær, þá voru þau öll sem tóku þátt í úrslitunum sigurvegarar enda búin að fara í gegnum úrslitakeppnir í sínum skólum.
Umfjöllun um Stóru upplestrarkeppnina
Á mánudeginum var skrifað undir samning við LFA, Leikskóli fyrir alla um vistun allt að 50 barna í Korpukoti næsta haust. Málið hefur verið töluvert í umræðunni. Mosfellsbær hefur átt farsælt samstarf við LFA til margra ára og við vonum svo sannarlega að svo verði áfram.
Ég fór ásamt fulltrúum bæjarráðs á fund með stjórn hestamannafélagsins Harðar á þriðjudag þar sem við fengum góða kynningu á starfsemi félagsins og fórum í skoðunarferð um svæðið, m.a. í reiðhöllina og hittum þar ungt hestafólk. Það er ótrúlega fjölbreytt starfsemi í félaginu og nokkur fyrirtæki sem tengjast hestamennsku hafa verið að hasla sér völl á svæðinu. Meðal annars útflutningsfyrirtækið Export hestar sem hjónin Eysteinn Leifsson og Guðleif Leifsdóttir reka en fyrirtækið sér um allt sem tengist útflutningi á hestum sem eru seldir til erlendra aðila.
Í bæjarráði á fimmtudag voru fjölmörg mál tekin fyrir, meðal annars að heimila leikskólastjórum að fella niður leikskólagjöld fyrir þau börn sem taka leyfi alla daga dymbilvikunnar. Þetta er til sæmræmis við niðurfellingu gjalda á milli jóla og nýárs sem var samþykkt fyrir síðustu jól. Þá var samþykkt tilboð frá fyrirtækinu Urði og grjót ehf. um gerð fæðilagnar við Skarhólabraut og að gera lóðina Skarhólabraut 3 byggingarhæfa með fráveitulögnum og veitulögnum auk innkeyrslu að lóðinni. Einnig var samþykkt tilboð frá Jarðvali á framkvæmdum á gerð gangbrautar frá Reykjavegi að Bjargsvegi. Fleiri mál voru tekin fyrir í bæjarráði og má finna hlekk á fundargerðina hér fyrir neðan.
Í dag, föstudag, voru fjölmargir fundir að venju, samráðsvettvangur með Aftureldingu, fundur með ráðuneyti vegna málaflokks fatlaðs fólks, undirbúningur fyrir næsta bæjarráð og fundur SSH um hringrásarhagkerfið og næstu skref í upplýsingamiðlun til íbúa. Dagurinn endaði á fræðslufundi með stjórnendum á bæjarskrifstofunni um Lean aðferðafræðina en hún snýst um að auka skilvirkni í rekstri með bættri skipulagningu. Við fengum mörg góð ráð frá Guðmundi Inga Þorsteinssyni verkfræðingi sem hélt utan um fræðsluna.
Að þessu sögðu óska ég ykkur góðrar helgar í veðurblíðunni sem er framundan en á morgun er spáð heilsól og nokkrum hitastigum. Vorið nálgast!