Ágætu bæjarbúar
Vikan 5. – 9. september er búin að vera mjög fjölbreytt.
Hún hófst að venju á fundi á mánudagsmorgni með framkvæmdastjórn bæjarins, þar sem farið er yfir samþykktir síðasta bæjarráðsfundar og verkefnin sett í ferli. Ennfremur er farið yfir mál sem þarf að vinna fyrir næsta bæjarráðsfund.
Í framhaldinu var fundarhrina hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem hófst á eigendafundi Sorpu, síðan eigendafundi Strætó bs og loks stjórnarfundi SSH. Á stjórnarfundinum fengum við meðal annars góða kynningu frá Óskari Reykdalssyni forstjóra heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Eigendafundur Strætó snerist um fjárhagsstöðu fyrirtækisins en síðastliðið vor var samþykkt að fá KPMG til að rýna hana og er ljóst að vegna fækkunar farþega vegna Covid og tekjuskerðingar af þeim sökum, verðbólgu og hækkun á olíuverði þá mun Strætó ekki geta staðið undir þeim rekstri sem fyrirtækinu er ætlað. Það er viðbúið að það þurfi aukaframlag frá sveitarfélögunum sem standa að rekstrinum.
Á þriðjudeginum átti ég fund með framkvæmdastjóra Sorpu og upplýsingafulltrúa ásamt Aldísi Stefánsdóttur fulltrúa Mosfellsbæjar í stjórn Sorpu. Markmið fundarins var að ræða eigendasamkomulag frá árinu 2013 varðandi urðun í Álfsnesi. Samkomulagið rennur út í lok árs 2023 og mikilvægt að sett sé fram raunhæf aðgerðaáætlun varðandi næstu skref.
Á miðvikudag fékk ég kynningu á umhverfissviði bæjarins og helstu verkefnum sem eru í gangi. Í kjölfarið fór ég með Jóhönnu Hansen sviðsstjóra og Kristni Pálssyni skipulagsfulltrúa og skoðaði helstu framkvæmdir í bænum og næstu svæði sem verða undirbúin og skipulögð fyrir íbúabyggð. Það er alveg ljóst að Mosfellsbær á mikið inni þegar kemur að skipulagi nýrrar íbúðabyggðar og atvinnusvæða. Undir lok dags flutti ég stutt ávarp á opnum fundi um málefni eldri borgara í Mosfellsbæ en fundurinn var haldinn í Hlégarði og var mjög góð mæting. Þarna kynntu allir aðilar sem koma að þjónustu við eldri borgara starfsemi sína og var dagskráin brotin upp með söng og dansi.
Á bæjarráðsfundinum á fimmtudag voru tillögur að nýrri áfangastofu höfuðborgarsvæðisins kynntar auk þess sem ný samþykkt um hundahald fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu var samþykkt.
Í kjölfar bæjarráðsfundarins hitti ég Lindu Udengård sviðsstjóra fræðslu- og frístundasviðs og við fórum yfir helstu mál auk þess að heimsækja leikskólana Hulduberg, Höfðaberg, Hlíð og Hlaðhamra, Lágafellsskóla og enduðum í Kvíslarskóla. Ég vil nota tækifærið og þakka stjórnendum skólanna, þeim Tinnu Rún Eiríksdóttur, Sveinbjörgu Davíðsdóttur, Lísu Greipsson, Þórhildi Elfarsdóttur og Þuríði Stefánsdóttur fyrir góðar móttökur.
Ég náði einnig að sitja fjarfund með nefnd sem Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra setti á laggirnar, vegna barna sem eiga í alvarlegum þroska- og geðvanda. Í nefndinni eru fulltrúar þriggja ráðuneyta, Barna- og fjölskyldustofu og sveitarfélaga og er nefndinni ætlað að skila tillögum í nóvember um fyrirkomulag meðferðar og vistunar á þeim börnum sem glíma við þennan alvarlega vanda en sveitarfélög hafa lengi kallað eftir útbótum og úrræðum á þessu sviði.
Um helgina munum við auglýsa tvö störf hjá Mosfellsbæ. Annarsvegar í nýtt starf leiðtoga upplýsingastjórnunar sem kemur í stað starfs skjalastjóra en Þorgerður sem gegndi því starfi er á förum frá okkur og hins vegar starf lögfræðings. Markmiðið er að stórefla stafræna þróun og upplýsingamiðlun bæjarins í takt við almenna þróun í samfélaginu og við vonumst að sjálfsögðu eftir góðum umsóknum.
Að þessu sögðu óska ég ykkur góðrar helgar!
Regína Ásvaldsdóttir
Mynd 1 (efst á síðunni): Með Tinnu í Höfðabergi
Mynd 2: Á fundi um þjónustu við eldri borgara. Frá vinstri: Sigurbjörg, Elva Björg, Guðlaug Helga og Jórunn Edda
Mynd 3: Frá fundinum í Hlégarði
Mynd 4: Ólafur formaður Öldungaráðs og Halla Karen varaformaður
Mynd 5: Sveinbjörg sem stýrir Hlíð og Hlaðhömrum