Frábær vika að baki sem byrjar og endar í hópi bæjarstjóranna á höfuðborgarsvæðinu. Eins og ég hef nefnt í pistlum hér áður þá kemur mér á óvart hversu víðtækt samráðið er á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í gegnum Strætó, Sorpu, slökkvilið, almannavarnir og nú samgöngusáttmálann og sameiginlegan rekstur hlutafélagsins Betri samgangna sem sveitarfélögin og ríkið reka saman. Við höfum líka verið að undirbúa stofnun sérstakrar Áfangastofu ferðamála sem á að taka til starfa á næstu mánuðum.
Á stjórnarfundi á mánudaginn var meðal annars rætt um málefni heimilislauss fólks og farið yfir fjölda þeirra sem nýta neyðarskýli borgarinnar. Um 70 % þeirra sem nýta skýlin eru með lögheimili í Reykjavík og um 30 % frá öðrum sveitarfélögum, þar af 15 % frá höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru með sérstakan samning við velferðarsvið Reykjavíkurborgar um greiðslu gistinátta fyrir íbúa sem eiga lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi. Á síðasta ári greiddi Mosfellsbær fyrir sex einstaklinga.
Á fundinum var einnig farið yfir 6 mánaða skýrslu Betri samgangna um stöðu og framgang verkefnisins ásamt upplýsingum um fyrirhugað útboð á nýjum Arnarnesvegi. Skýrslan verður send til aðildarsveitarfélaganna til kynningar.
Ég sótti kynningarfund hjá félaginu Landey ásamt formanni bæjarráðs vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar Blikastaðalands en vinna við undirbúning verkefnisins er í fullum gangi hjá Mosfellsbæ og hjá félaginu. Landey hefur útbúið vefsvæði fyrir verkefnið, blikastadaland.is. Það er viðbúið að meira efni komi inn á síðuna, eftir því sem verkefninu vindur fram.
Um síðustu helgi birtum við auglýsingu eftir lögfræðingi og verkefnisstjóra skipulagsmála en undirbúningur verkefna tengdu Blikastaðalandi, 5 áfanga Helgafellslands og uppbyggingar við Hamraborg kallar á fleiri hendur á umhverfissviði og í stjórnsýslunni.
Á þriðjudaginn sótti ég opnun listsýningar í Listasal Mosfellsbæjar en listakonan Melkorka Matthíasdóttir opnaði sýninguna ,,Og hvað um tað?” Hægt er að lesa viðtal við Melkorku sem birtist í Fréttablaðinu á opnunardaginn en þar lýsir hún tilurð verkanna og áhugaverðu lífshlaupi sínu. Forsíðumyndin er af Melkorku ásamt einu verka sinna en í það nýtir hún hráefni úr náttúrunni, meðal annars tað og beyki. Sýningin er opin til 3. febrúar og er opið í listasalnum alla virka daga 9-18 og á laugardögum 12-16. Flott sýning hjá áhugaverðri listakonu.
Ég sótti stjórnarfund Reykjalundar í vikunni og átti fjölmarga innanhússfundi og viðtöl við einstaklinga en bæjarbúar geta pantað viðtöl í gegnum þjónustuverið. Ég hélt kynningu hjá Rotaryklúbbi Mosfellsveitar á þriðjudagskvöldinu, meðal annars um fjárfestingaverkefnin sem eru framundan.
Á bæjarráðsfundi í vikunni var samþykkt að fara í útboð á innréttingum á 1. hæðinni í Kvíslarskóla. Unnið verður að innréttingu hæðarinnar samhliða vinnu við endurnýjun glugga sem þegar hefur verið boðin út. Vinnu við endurnýjun aðalinngangs skólans og salerniskjarna er lokið. Endurbætur Kvíslarskóla sem farið hafa fram síðastliðið ár veittu tækifæri til þess að uppfæra húsnæði miðað við nýjustu hönnunarleiðbeiningar og reglugerðir. Áætlað er að þessum framkvæmdum verði lokið fyrir byrjun næsta skólaárs í ágúst 2023.
Í gær fundaði ég með forsvarsfólki í stjórn íbúasamtaka Leirvogstungu og fulltrúum frá Sorpu ásamt Aldísi Stefánsdóttur fulltrúa í stjórn Sorpu og Jóhönnu Hansen framkvæmdastjóra umhverfissviðs. Fram kom í máli fulltrúa Sorpu að á árinu 2022 var um 67 þúsund tonn af úrgangi urðaður í Álfsnesi á móti 147 þúsund tonnum árið 2018. Fjölmargar mótvægisaðgerðir eru í gangi hjá fyrirtækinu til að sporna gegn lyktarmengun en íbúar voru mjög skýrir á sínum kröfum.
Í morgun var haldinn fundur í samráðsvettvangi Aftureldingar og Mosfellsbæjar þar sem farið var yfir næstu skref varðandi útboð á gervigrasvellinum.
Eins og ég kom inn á í upphafi pistilsins þá lauk vikunni með bæjarstjórum á höfuðborgarsvæðinu og borgarstjóra en stjórn SSH hélt starfsdag í Höfða þar sem við fórum yfir verkefni næsta árs og aðgerðir í tengslum við sóknaráætlun 2023.
Að lokum vil ég nota tækifærið og óska Höllu Karenu formanni bæjarráðs innilega til hamingju með titilinn Mosfellingur ársins en tilkynnt var um val íbúa á Mosfellingi ársins í blaðinu Mosfellingi sem kom út í gær. Það eru forréttindi að fá tækifæri til að vinna með Höllu og öðrum bæjarfulltrúum að því að gera góðan bæ enn betri.
Góða helgi!
Regína Ásvaldsdóttir
Mynd 1: með Melkorku og Gunnhildi Gígju dóttur hennar
Mynd 2: Á Rotary fundi með Margréti forseta klúbbsins og Evu ritara
Mynd 3: Á fundi með fulltrúum í stjórn íbúasamtaka Leirvogstungu og fulltrúum Sorpu
Mynd 4: Yfirlit yfir magn úrgangs sem er urðaður í Álfsnesi
Mynd 5: Með bæjarstjórum og borgarstjóra á vinnudegi í Höfða