Núna er vorið komið – það getur ekki annað verið! Sólin skín í Mosfellsbænum og á fjarfundi í morgun, uppúr klukkan átta þá kom fram hjá einum fundargestanna sem var staddur í miðbænum í Reykjavík að þar væri svartaþoka á meðan að það var heiðskírt hér í bænum. Það létti þó til þar líka þegar leið á morguninn.
Mjög góð vika að baki, ekki síst að hitta nemendur í 5-10 bekk á Barna- og ungmennaþingi Mosfellsbæjar í gær sem ungmennaráð bæjarins undirbjó í samstarfi við nefnd um Barnvænt samfélag. Frábærir krakkar með sterkar skoðanir og ótrúlega gaman að rökræða við þau. Þingið var þannig uppsett að frá hádegi var unnið á borðum þar sem nemendur forgangsröðuðu áherslumálum undir stjórn borðstjóra frá framhaldsskólanum í Mosfellsbæ og frá ungmennaráði. Klukkan þrjú komu svo bæjarfulltrúar og settust á borðin hjá nemendum og fengu forgangsmálin beint í æð. Korteri síðar fengu nemendur tækifæri til að spyrja bæjarstjórann 20 spurninga sem var varpað á skjá. Spurningarnar voru mjög beinskeyttar og stundum snúið að svara! Nokkur dæmi: ,,Af hverju er það skylda fyrir börn að fara út þótt að það sé vont veður? Er hægt að hafa frítt í Strætó? Er hægt að gera Mosó umhverfisvænni? Hvernig er réttlátt að ungmenni 16-18 ára þurfi að borga skatt en fá ekki að kjósa?”
Fulltrúar framhaldsskólans eru einmitt á forsíðumynd þessa pistlis ásamt okkur Önnu Sigríði Guðnadóttur forseta bæjarstjórnar og formanns nefndar um Barnvænt samfélag í Mosfellsbæ. Verkefnisstjóri Barnvæna samfélagsins er Hugrún Ósk Ólafsdóttir og hún bar hitann og þungann af undirbúningi þingsins ásamt starfsfólki á fræðslu og frístundasviði og þjónustu-og samskiptadeild. Jón Jónsson söngvari var fundarstjóri og fór á kostum en stjórnandi vinnustofunnar kom frá ráðgjafafyrirtækinu KPMG.
Það voru fleiri mál í vikunni og þar ber hæst framlagning ársreiknings Mosfellsbæjar til fyrri umræðu í bæjarstjórn á miðvikudag. Hefðin er sú að bæjarstjóri flytji framsögu og fjalli um helstu stærðir í ársreikningnum og endurskoðendur komi í kjölfarið og kynni endurskoðunarskýrsluna. Seinni umræða um ársreikninginn fer fram þann 26 apríl.
Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2022 ber með sér erfitt efnahagsástand í yfirstandandi verðbólguskeiði með tilheyrandi áhrifum verðbóta á skuldir sveitafélagsins. Fjárhagsáætlun sem gerð var í árslok 2021 gerði ráð fyrir 3,5% verðbólgu á árinu 2022 en verðbólgan fór á flug og varð 9%. Verðbólga umfram áætlanir leiddi til þess að fjármagnskostnaður sveitarfélagsins varð um það bil 808 m.kr. hærri en áætlað var. Tekjur ársins námu alls 16 milljörðum og 446 milljónum sem er í samræmi við fjárhagsáætlun ársins og 7% hækkun frá fyrra ári. Af því var útsvar og fasteignaskattur 10 milljarðar og 366 milljónir, Jöfnunarsjóður 2 milljarðar og 749 milljónir og aðrar tekjur 3 milljarðar og 330 milljónir. Skatttekjur hækkuðu um 500 milljónir á milli ára en aðrar tekjur lækkuðu sem því nam, meðal annars vegna lægri tekna af byggingarréttargjöldum. Veltufé frá rekstri er mikilvæg stærð sem sýnir hversu mikið stendur eftir til að standa undir afborgunum lána og fjárfestingum. Þrátt fyrir að rekstrarniðurstaða ársins hafi verið neikvæð um 898 milljónir þá er veltufé frá rekstri 1 milljarður 233 milljónir eða 7,5% af tekjum. Í ljósi aðstæðna er þetta viðunandi, en þetta er samt sem áður ekki nægt til frambúðar. Á næstu árum þarf hlutfall veltufjár frá rekstri sem hlutfall af tekjum að hækka til að tryggja að sveitarfélagið geti staðið undir skuldbindingum og nauðsynlegri uppbyggingu. Skuldaviðmið í árslok 2022 er 104,4% og er innan þess 150% hámarks sem kveðið er á um í lögum. Eigið fé í árslok nam 6 milljörðum og 765 milljónum og eiginfjárhlutfallið er 23,5%.
Rekstur málaflokka gekk ágætlega og var á heildina séð í góðu samræmi við fjárhagsáætlun. Fræðslu- og uppeldismál eru umfangsmesti málaflokkurinn og til hans var varið 7 milljörðum og 320 milljónum eða 55% skatttekna. Til félagsþjónustu var veitt 2 milljörðum 843 milljónum eða 21% skatttekna og eru þar með talin framlög vegna málefna fatlaðs fólks. Loks eru íþrótta- og tómstundarmál þriðja umfangsmesta verkefni bæjarins og til þeirra var ráðstafað um 1 milljarði og 458 milljónum eða 11% skatttekna. Rekstur velferðar- og skólamála er í eðli sínu viðkvæmur, þar sem þjónustuþörf, svo sem í málaflokkum fatlaðs fólks og í öldrunarmálum og í sérstuðningi í skóla getur breyst með skömmum fyrirvara.
Árið 2022 einkenndist af miklum framkvæmdum bæði til þess að geta tekið við fjölgun íbúa og til að byggja frekar upp innviði sveitarfélagsins. Helstu framkvæmdir voru við gatnaframkvæmdir, endurbætur Kvíslarskóla auk byggingar íþróttahúss í Helgafellshverfi. Þá voru framkvæmdir við ýmsar stofnanir bæjarins, sér í lagi leik- og grunnskóla og við íþróttamannvirki.
Það eru blikur á lofti í efnahagsmálum, vegna verðbólgu sem ekki sér fyrir endann á. Ríkisvaldið kom til móts við sveitarfélög vegna kórónuveirufaraldursins með því að taka tímabundið úr sambandi fjármálareglur sveitarfélaga. Að óbreyttu verða þær reglur virkar að nýju árið 2026 og því er mikilvægt að ná tökum á verðbólgunni og tryggja að áform Mosfellsbæjar um rekstrarafgang næstu ára gangi eftir.
Í vikunni var skrifað undir nokkra samninga um verkefni. Undirritaðir voru verksamningar við Metatron ehf sem var lægstbjóðandi í nýtt gervigrasyfirborð og nýtt vökvunarkerfi við Varmárvelli. Með nýja gervigrasinu mun völlurinn uppfylla kröfur til keppni í efstu deildum í fótbolta. Áætlað er að framkvæmdir standi yfir út maí 2023.
Þá var undirritaður samningur við fyrirtækið Urð og grjót ehf sem var lægsbjóðandi í verkið Skarhólabraut – veitulagnir. Verkið fellst í lagnavinnu, að gera lóðina Skarhólabraut 3 byggingarhæfa og lagningu stofnlagnar vatnveitu frá Vesturlandsvegi að tengistað við Desjamýri.
Loks var undirritaður samningur við Jarðval sf sem var lægsbjóðandi í verkið Reykjavegur – umferðaröryggi, frá Bjargsvegi inn að Reykjum. Helstu framkvæmdir verða gerð gangstéttar norðan megin götu auk þess sem götulýsing verður endurnýjuð, strætóstöð færð og hellulögð hraðahindrun sett upp.
Í vikunni fyrir páska var haldinn stjórnarfundur í stjórn SSH og beint í kjölfarið stofnfundur Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins þar sem ég hélt stutt ávarp og hélt á atkvæðum sveitarfélaganna á fundinum. Sævar Birgisson bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ á sæti í nýju stjórninni en formaður er Þórdís Lóa Þórhallsdóttir borgarfulltrúi í Reykjavík. Markmið með stofnun markaðsstofu fyrir allt höfuðborgarsvæðið er að gera svæðið samkeppnishæfara gagnvart erlendum mörkuðum. Flestar borgir sem við berum okkur saman við eru með sambærilegt fyrirkomulag, markaðssetja svæði fremur en einstaka sveitarfélög.
Kynning á nýju flokkunarkerfi á höfðuborgarsvæðinu fór af stað fyrir páska og taka öll sveitarfélögin þátt í því ásamt Sorpu.
Sömu viku var haldið upp á nýtt húsnæði verslunarinnar Góða hirðisins að Köllunarklettsvegi 1 en verslunin gegnir lykilhlutverki í nýja hringrásarhagkerfinu og er komin með miklu stærra rými en eldri verslunin í Fellsmúla.
Við vonum að íbúar Mosfellsbæjar taki virkan þátt í þeirri flokkun sem er fyrirhuguð og stóraukinni endurnýtingu. Umhverfismálin voru unga fólkinu sannarlega ofarlega í huga á Barna-og ungmennaþinginu í gær og það er ekki annað hægt en að fyllast góðri trú á framtíðina með þessa ungu Mosfellinga við stjórnvölinn.
Góða helgi!