Hoppa í meginmál
mos.is - Forsíða
14. apríl 2023

Núna er vor­ið kom­ið – það get­ur ekki ann­að ver­ið! Sólin skín í Mos­fells­bæn­um og á fjar­fundi í morg­un, up­p­úr klukk­an átta þá kom fram hjá ein­um fund­ar­gest­anna sem var stadd­ur í mið­bæn­um í Reykja­vík að þar væri svarta­þoka á með­an að það var heið­skírt hér í bæn­um. Það létti þó til þar líka þeg­ar leið á morg­un­inn.

Mjög góð vika að baki, ekki síst að hitta nem­end­ur í 5-10 bekk á Barna- og ung­menna­þingi Mos­fells­bæj­ar í gær sem ung­mennaráð bæj­ar­ins und­ir­bjó í sam­starfi við nefnd um Barn­vænt sam­fé­lag. Frá­bær­ir krakk­ar með sterk­ar skoð­an­ir og ótrú­lega gam­an að rök­ræða við þau. Þing­ið var þann­ig upp­sett að frá há­degi var unn­ið á borð­um þar sem nem­end­ur for­gangs­röð­uðu áherslu­mál­um und­ir stjórn borð­stjóra frá fram­halds­skól­an­um í Mos­fells­bæ og frá ung­menna­ráði. Klukk­an þrjú komu svo bæj­ar­full­trú­ar og sett­ust á borð­in hjá nem­end­um og fengu for­gangs­málin beint í æð. Kort­eri síð­ar fengu nem­end­ur tæki­færi til að spyrja bæj­ar­stjór­ann 20 spurn­inga sem var varp­að á skjá. Spurn­ing­arn­ar voru mjög bein­skeytt­ar og stund­um snú­ið að svara! Nokk­ur dæmi: ,,Af hverju er það skylda fyr­ir börn að fara út þótt að það sé vont veð­ur? Er hægt að hafa frítt í Strætó? Er hægt að gera Mosó um­hverf­i­s­vænni? Hvern­ig er rétt­látt að ung­menni 16-18 ára þurfi að borga skatt en fá ekki að kjósa?”

Full­trú­ar fram­halds­skól­ans eru ein­mitt á for­síðu­mynd þessa pistl­is ásamt okk­ur Önnu Sig­ríði Guðna­dótt­ur for­seta bæj­ar­stjórn­ar og formanns nefnd­ar um Barn­vænt sam­fé­lag í Mos­fells­bæ. Verk­efn­is­stjóri Barn­væna sam­fé­lags­ins er Hug­rún Ósk Ólafs­dótt­ir og hún bar hit­ann og þung­ann af und­ir­bún­ingi þings­ins ásamt starfs­fólki á fræðslu og frí­stunda­sviði og þjón­ustu-og sam­skipta­deild. Jón Jóns­son söngv­ari var fund­ar­stjóri og fór á kost­um en stjórn­andi vinnu­stof­unn­ar kom frá ráð­gjafa­fyr­ir­tæk­inu KPMG.

Það voru fleiri mál í vik­unni og þar ber hæst fram­lagn­ing árs­reikn­ings Mos­fells­bæj­ar til fyrri um­ræðu í bæj­ar­stjórn  á mið­viku­dag. Hefð­in er sú að bæj­ar­stjóri flytji fram­sögu og fjalli um helstu stærð­ir í árs­reikn­ingn­um og end­ur­skoð­end­ur komi í kjöl­far­ið og kynni end­ur­skoð­un­ar­skýrsl­una. Seinni um­ræða um árs­reikn­ing­inn fer fram þann 26 apríl.

Árs­reikn­ing­ur Mos­fells­bæj­ar fyr­ir árið 2022 ber með sér erfitt efna­hags­ástand í yf­ir­stand­andi verð­bólgu­skeiði með til­heyr­andi áhrif­um verð­bóta á skuld­ir sveita­fé­lags­ins. Fjár­hags­áætlun sem gerð var í árslok 2021 gerði ráð fyr­ir 3,5% verð­bólgu á ár­inu 2022 en verð­bólg­an fór á flug og varð 9%. Verð­bólga um­fram áætlan­ir leiddi til þess að fjár­magns­kostn­að­ur sveit­ar­fé­lags­ins varð um það bil 808 m.kr. hærri en áætlað var. Tekj­ur árs­ins námu alls 16 millj­örð­um og 446 millj­ón­um sem er í sam­ræmi við fjár­hags­áætlun árs­ins og 7% hækk­un frá fyrra ári. Af því var út­svar og fast­eigna­skatt­ur 10 millj­arð­ar og 366 millj­ón­ir, Jöfn­un­ar­sjóð­ur 2 millj­arð­ar og 749 millj­ón­ir og að­r­ar tekj­ur 3 millj­arð­ar og 330 millj­ón­ir. Skatt­tekj­ur hækk­uðu um 500 millj­ón­ir á milli ára en að­r­ar tekj­ur lækk­uðu sem því nam, með­al ann­ars vegna lægri tekna af bygg­ing­ar­rétt­ar­gjöld­um. Veltufé frá rekstri er mik­il­væg stærð sem sýn­ir hversu mik­ið stend­ur eft­ir til að standa und­ir af­borg­un­um lána og fjár­fest­ing­um. Þrátt fyr­ir að rekstr­arnið­ur­staða árs­ins hafi ver­ið nei­kvæð um 898 millj­ón­ir þá er veltufé frá rekstri 1 millj­arð­ur 233 millj­ón­ir eða 7,5% af tekj­um. Í ljósi að­stæðna er þetta við­un­andi, en þetta er samt sem áður ekki nægt til fram­búð­ar. Á næstu árum þarf hlut­fall veltu­fjár frá rekstri sem hlut­fall af tekj­um að hækka til að tryggja að sveit­ar­fé­lag­ið geti stað­ið und­ir skuld­bind­ing­um og nauð­syn­legri upp­bygg­ingu.  Skulda­við­mið í árslok 2022 er 104,4% og er  inn­an þess 150% há­marks sem kveð­ið er á um í lög­um.  Eig­ið fé í árslok nam 6 millj­örð­um og 765 millj­ón­um og eig­in­fjár­hlut­fall­ið er 23,5%.

Rekst­ur mála­flokka gekk ágæt­lega og var á heild­ina séð í góðu sam­ræmi við fjár­hags­áætlun. Fræðslu- og upp­eld­is­mál eru um­fangs­mesti mála­flokk­ur­inn og til hans var var­ið 7 millj­örð­um og 320 millj­ón­um eða 55% skatt­tekna. Til fé­lags­þjón­ustu var veitt 2 millj­örð­um 843 millj­ón­um eða 21% skatt­tekna og eru þar með talin fram­lög vegna mál­efna fatl­aðs fólks. Loks eru íþrótta- og tóm­stund­ar­mál þriðja um­fangs­mesta verk­efni bæj­ar­ins og til þeirra var ráð­stafað um 1 millj­arði og 458 millj­ón­um eða 11% skatt­tekna. Rekst­ur vel­ferð­ar- og skóla­mála er í eðli sínu við­kvæm­ur, þar sem þjón­ustu­þörf, svo sem í mála­flokk­um fatl­aðs fólks og í öldrun­ar­mál­um og í sérstuðn­ingi í skóla get­ur breyst með skömm­um fyr­ir­vara.

Árið 2022 ein­kennd­ist af mikl­um fram­kvæmd­um bæði til þess að geta tek­ið við fjölg­un íbúa og til að byggja frek­ar upp inn­viði sveit­ar­fé­lags­ins. Helstu fram­kvæmd­ir voru við gatna­fram­kvæmd­ir, end­ur­bæt­ur Kvísl­ar­skóla auk bygg­ing­ar íþrótta­húss í Helga­fells­hverfi. Þá voru fram­kvæmd­ir við ýms­ar stofn­an­ir bæj­ar­ins, sér í lagi leik- og grunn­skóla og við íþrótta­mann­virki.

Það eru blik­ur á lofti í efna­hags­mál­um, vegna verð­bólgu sem ekki sér fyr­ir end­ann á. Rík­is­vald­ið kom til móts við sveit­ar­fé­lög vegna  kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins með því að taka tíma­bund­ið úr sam­bandi fjár­mála­regl­ur sveit­ar­fé­laga. Að óbreyttu verða þær regl­ur virk­ar að nýju árið 2026 og því er mik­il­vægt að ná tök­um á verð­bólg­unni og tryggja að áform Mos­fells­bæj­ar um rekstr­araf­gang næstu ára gangi eft­ir.

Í vik­unni var skrif­að und­ir nokkra samn­inga um verk­efni. Und­ir­rit­að­ir voru verk­samn­ing­ar við Metatron ehf sem var lægst­bjóð­andi í nýtt gervi­grasyf­ir­borð og  nýtt vökv­un­ar­kerfi við Varmár­velli.  Með nýja gervi­gras­inu mun völl­ur­inn upp­fylla kröf­ur til keppni í efstu deild­um í fót­bolta.  Áætlað er að fram­kvæmd­ir standi yfir út maí 2023.

Þá var und­ir­rit­að­ur samn­ing­ur við fyr­ir­tæk­ið Urð og grjót ehf sem var lægs­bjóð­andi í verk­ið Skar­hóla­braut – veitu­lagn­ir.  Verk­ið fellst í lagna­vinnu, að gera lóð­ina Skar­hóla­braut 3 bygg­ing­ar­hæfa og lagn­ingu stofn­lagn­ar vatn­veitu frá Vest­ur­lands­vegi að teng­istað við Desja­mýri.

Loks var und­ir­rit­að­ur samn­ing­ur við Jarð­val sf sem var lægs­bjóð­andi í verk­ið Reykja­veg­ur – um­ferðarör­yggi, frá Bjargsvegi inn að Reykj­um.  Helstu fram­kvæmd­ir verða gerð gang­stétt­ar norð­an meg­in götu auk þess sem götu­lýs­ing verð­ur end­ur­nýj­uð, strætó­stöð færð og hellu­lögð hraða­hindr­un sett upp.

Í vik­unni fyr­ir páska var hald­inn stjórn­ar­fund­ur í stjórn SSH og beint í kjöl­far­ið stofn­fund­ur Mark­aðs­stofu höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins þar sem ég hélt stutt ávarp og hélt á at­kvæð­um sveit­ar­fé­lag­anna á fund­in­um. Sæv­ar Birg­is­son bæj­ar­full­trúi í Mos­fells­bæ á sæti í nýju stjórn­inni en formað­ur er Þórdís Lóa Þór­halls­dótt­ir borg­ar­full­trúi í Reykja­vík. Markmið með stofn­un mark­aðs­stofu fyr­ir allt höf­uð­borg­ar­svæð­ið er að gera svæð­ið sam­keppn­is­hæf­ara gagn­vart er­lend­um mörk­uð­um. Flest­ar borg­ir sem við ber­um okk­ur sam­an við eru með sam­bæri­legt fyr­ir­komulag, mark­aðs­setja svæði frem­ur en ein­staka sveit­ar­fé­lög.

Kynn­ing á nýju flokk­un­ar­kerfi á höfðu­borg­ar­svæð­inu fór af stað fyr­ir páska og taka öll sveit­ar­fé­lög­in þátt í því ásamt Sorpu.

Sömu viku var hald­ið upp á nýtt hús­næði versl­un­ar­inn­ar Góða hirð­is­ins að Köll­un­ar­kletts­vegi 1 en versl­un­in gegn­ir lyk­il­hlut­verki í nýja hringrás­ar­hag­kerf­inu og er komin með miklu stærra rými en eldri versl­un­in í Fells­múla.

Við von­um að íbú­ar Mos­fells­bæj­ar taki virk­an þátt í þeirri flokk­un sem er fyr­ir­hug­uð og stór­auk­inni end­ur­nýt­ingu. Um­hverf­is­málin voru unga fólk­inu sann­ar­lega of­ar­lega í huga á Barna-og ung­menna­þing­inu í gær og það er ekki ann­að hægt en að fyll­ast góðri trú á fram­tíð­ina með þessa ungu Mos­fell­inga við stjórn­völ­inn.

Góða helgi!

Netspjall

Opið virka daga
mán., þri., fim. 8:00-16:00
mið. 8:00-18:00
fös. 8:00-14:00

Þjónustuver 525-6700

Opið virka daga
mán., þri., fim. 8:00-16:00
mið. 8:00-18:00
fös. 8:00-14:00