Enn ein fjölbreytt vinnuvikan að baki í Mosfellsbæ. Ég velti stundum fyrir mér hvort það sé alltaf gott veður Mosfellsbæ en september og það sem af er október hafa verið einstaklega sólríkir. Þegar ég horfi út um gluggann frá bæjarskrifstofunum í Kjarnanum þá blasa við grænar brekkur í Úlfarsfelli þó það sé komið töluvert langt inn í október.
Ég fylgdist með flugslysaæfingu á vegum Isavia og allra viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu síðasta laugardag, en bæjarstjórar og borgarstjóri skipa almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins. Æfingin gekk vel og það er varla hægt að vera nógsamlega þakklátur fyrir allt það flotta fólk sem vinnur í þágu almennings við skipulagningu og björgunarstörf, svo sem í slökkviliðinu og lögreglunni auk allra sjálfboðanna í Rauða Krossinum og björgunarsveitum.
Það verður að segjast eins og er flestir dagar einkennast af baráttu við fjárhags- og fjárfestingaáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2023 og til næstu fimm ára. Eins og hefur komið fram í pistlum áður og í almennri umræðu í samfélaginu þá glíma sveitarfélög landsins við mikinn rekstrarhalla, meðal annars vegna málaflokks fatlaðs fólks og vegna skuldastöðu og hækkun vaxta og verðbóta.
Ein mesta áskorunin í daglegu starfi snýr hinsvegar að Kvíslarskóla og þeim verkefnum sem þarf að takast á við þar. Í ljós hefur komið að byggingin er í verra ástandi en áætlað var í fyrstu og verkefnin tefjast vegna nýrra og nýrra áskorana. Við fórum og borðuðum með kennurum og öðru starfsfólki á þriðjudaginn – það var ótrúlega jákvæð stemning í hópnum þrátt fyrir erfiðleikana og fyrir það ber að þakka. Vinnuaðstaðan er krefjandi, bæði fyrir nemendur og starfsfólk og því miður verður það þannig áfram í vetur. En við fögnum hverjum áfanga, eins og þeim fjórum kennslustofum sem eru komnar í fulla notkun og bíðum spennt eftir þeim fjórum sem eiga að fara í öryggisúttekt í næstu viku.
Í vikunni fengum við heimsókn þingmanna Suðvesturkjördæmis og fórum yfir helstu þætti sem snúa að Mosfellsbæ og samskiptum við ríkið. Þar má nefna Sundabraut en hún verður mikil lyftistöng fyrir allt höfuðborgarsvæðið og mun breyta miklu hér í bænum, vegna þess umferðarþunga sem fer í gegnum Vesturlandsveg á hverjum degi.
Við fjölluðum einnig um Skálatún en viðræður standa yfir á milli Mosfellsbæjar, IOGT og félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins vegna áframhaldandi reksturs þar. Í þessu samhengi má nefna að Mosfellsbær hefur næsthæsta hlutfall fatlaðra íbúa af sveitarfélögum landsins, eða 0,63 á móti landsmeðaltali sem er 0,35.
Við ræddum einnig Álfsnes og þá lyktarmengun sem íbúar hafa mátt þola og í því samhengi ræddum við einnig framtíðarfyrirkomulag sorpbrennslu á Íslandi. Loks kynntum við áform um stórfellda uppbyggingu á Blikastaðalandinu og hvaða þýðingu sú uppbygging hefur á ýmsa innviði bæjarins og þann kostnað sem sveitarfélagið þarf að leggja í í upphafi.
Á föstudagseftirmiðdegi hittist svo allt sveitarstjórnarfólk á höfuðborgarsvæðinu með þingmönnum og ráðherrum og þar voru bara tvö mál á dagskrá; málaflokkur fatlaðs fólks og samgöngusáttmáli. Ég sat í pallborði ásamt ráðherrunum Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur og Bjarna Benediktssyni, bæjarstjórunum Ásdísi Kristjánsdóttur og Almari Guðmundssyni, Degi B Eggertssyni borgarstjóra og Þorsteini Hermannsyni hjá Betri samgöngum. Það sköpuðust góðar og hreinskiptnar umræður um þessa málaflokka, aðallega málaflokk fatlaðs fólks og við fórum mörg af fundinum með þá von að það verði betri samskipti á milli þessara stjórnsýslustiga, ríkis og sveitarfélaga og skilningur á stöðu einstakra verkefna og málaflokka.
Ég óska ykkur góðrar helgar!
Regína Ásvaldsdóttir