Bæjarblaðið Mosfellingur hefur staðið fyrir vali á Mosfellingi ársins síðan 2005. Blaðið kynnir Mosfelling ársins í fyrsta tölublaði hvers árs.
Mosfellingur ársins 2023
Mosfellingur ársins 2023 er skemmtikrafturinn og höfundurinn Halldór Laxness Halldórsson, betur þekktur sem Dóri DNA.
Dóri er annar tveggja höfunda sjónvarpsþáttaraðarinnar Afturelding sem sýnd var á RÚV á síðasta ári og fékk frábærar viðtökur. Serían hefur verið sýnd víðsvegar á Norðurlöndunum og var m.a. valin besta norræna sjónvarpssería ársins í Svíþjóð.
„Ég er djúpt snortinn, þetta eru fyrstu verðlaunin sem ég vinn á ævi minni og að þau komi úr þessari átt er þeim mun sætara,“ segir Dóri en samningar um aðra þáttaröð af Aftureldingarþáttunum hafa þegar verið undirritaðir.
„Í mínum huga er þetta einhvers konar fullnægja á öllu þessu Aftureldingarverkefni og gott veganesti í næstu seríu. Við erum að skila fyrstu drögum að seríu tvö í lok mánaðarins, við förum enn dýpra í bæjarlífið, hleypum smá pólitík inn í þetta og skemmtilegum karakterum. Við erum enn að velta upp hugmyndum en finnum að það eru allir spenntir fyrir þessu. Ég tel að þessir þættir hafi hreyft við bænum, það er einhver lenska að líta á okkur Mosfellinga sem sveitó en ef við horfum á listafólkið sem kemur héðan og hefur gert á undanförum áratugum þá erum við núna með Kaleo, Ólaf Arnalds og Sigur Rós á heimssviðinu. Það er þetta afslappaða viðmót sem við Mosfellingar höfum gagnvart listum sem er lykillinn að þessari velgengni listafólks héðan, við þurfum bara að halda áfram að hugsa stórt.“
Árið hefur verið stórt hjá Dóra því auk Aftureldingarþáttanna er hann einn aðalhöfundur kvikmyndarinnar Northern Comfort sem frumsýnd var í september en sýningarréttur hefur verið seldur til fjölmargra landa. Uppistandssýningin Dóri DNA, Engar takmarkanir, var sýnd um allt land og m.a. fyrir fullu húsi í Hlégarði.
„Í ár komst ég aftur á kreatíva sporið, við Haddi meðhöfundur minn í Afureldingu erum að skrifa saman tvær aðrar sjónvarpsseríur. Gerðum kvikmyndina Northern Comfort sem var stórt verkefni, Netflix, erlendir leikarar og allt á ensku. Við erum í sambandi við erlenda aðila sem vilja vinna með okkur en við vinnum rosalega vel saman og samstarfið algjör snilld.
Þegar við skrifuðum fyrstu Aftureldingarseríuna þá rýndum við vel í bæjarlífið, það er svo gott að spegla samfélagið í Mosfellsbæ því hér er allt. Tökuferlið var algjört ævintýri og samstarfið við alla sem komu að þáttagerðinni var frábært. Það voru margir starfsmenn Mosfellbæjar og Aftureldingar sem fóru langt fram úr sínum hlutverkum og gerðu svo miklu meira fyrir okkur en þeim bar og fyrir það erum við rosalega þakklát. Það er einn Mosfellingur sem verður að fá risa hrós en það er Ásgeir Jónsson sem sá um að þjálfa stelpurnar í handbolta og koma með handboltasýnina inn handritið. Við skilum handriti í vor og ef allt gengur að óskum þá hertökum við bæjarfélagið aftur næsta vor. Það eru margar hugmyndir í gangi. Mögulega verður einn leikmaður liðsins farinn að leita út í atvinnumennsku og okkur langar að sýna hvernig atriði eins og lóðarifrildi í bæjarstjórn getur haft áhrif eða afleiðingar í handboltanum hjá 3. flokki.
Ég er svolítið gjarn á að hugsa sjálfan mig í baksætinu, en árið 2025 verð ég fertugur og þá ætla ég að gefa út bók sem fjallar að miklu leyti um líkamsvitund og það að vera feitur en er samt skemmtisaga. Þá ætla ég líka að stefna á að vera með uppistand í 1.000 manna sal og halda upp á ferilinn.
Það er mér gríðalegur heiður að hljóta þennan titil, er alltaf sendiherra Mosfellsbæjar hvar sem ég er í heiminum. Mosfellsbær hefur breyst mikið frá því ég ólst hér upp en í allri minni sköpun leita ég í upprunann, yfirleitt er ég að lýsa Mosfellsbæ æsku minnar. Ég veit að þetta hljómar kannski lúðalega en Mosfellsbær gaf mér rödd, gaf mér afstöðu til að sjá hlutina í ákveðnu ljósi og þetta er það eina sem ég á sem listamaður,“ segir Dóri að lokum.
Fulltrúar fyrri ára
Halla Karen Kristjánsdóttir
2022Elva Björg Pálsdóttir
2021Sigmar Vilhjálmsson
2020Hilmar Elísson
2019Óskar Vídalín
2018Jón Kalman Stefánsson
2017Guðni Valur Guðnason
2016Sigrún Þ. Geirsdóttir
2015Jóhanna Elísa Engelhartsdóttir
2014KALEO
2013Greta Salóme
2012Hanna Símonardóttir
2011Steinþór Hróar Steinþórsson
2010Embla Ágústsdóttir
2009Albert Sigurður Rútsson
2008Jóhann Ingi Guðbergsson
2007Hjalti Úrsus Árnason
2006Sigsteinn Pálsson
2005