Mosfellingur ársins 2018
Óskar Vídalín hefur ásamt öflugum hópi stofnað Minningarsjóð Einars Darra og hrint að stað þjóðarátakinu Ég á bara eitt líf.
Óskar missti 18 ára gamlan son sinn Einar Darra í maí sl. eftir neyslu lyfseðilsskyldara lyfja. „Ég er ótrúlega þakklátur og tek á móti þessari viðurkenningu fyrir hönd okkar allra sem standa að Minningarsjóðnum. Við höfum fengið mikla hjálp og frábærar móttökur alls staðar, Mosfellingar hafa sýnt okkur mikinn stuðning og styrk og fyrir það erum við gríðarlega þakklát,“ segir Óskar.
Það eru foreldrar og systur Einars Darra, þau Óskar Vídalín, Bára Tómasdóttir, Andrea Ýr og Aníta Rún sem eru forsvarsmenn Minningarsjóðsins.
„Við ákváðum fljótlega eftir fráfall Einars Darra þegar við áttuðum okkur á hve neysla lyfseðilskyldra lyfja væri stórt vandamál meðal ungmenna að stofna minningarsjóð í hans nafni. Við vildum nálgast þetta verkefni í kærleika því það er alveg í anda Einars Darra. Markmiðið er að opna umræðuna og vekja athygli á vandamálinu því við uppgötvuðum hvað við vissum lítið og hvað þetta kom okkur mikið á óvart.“