Mosfellingur ársins 2005 og sá fyrsti til að hljóta þennan heiðurstitil er Sigsteinn Pálsson, fyrrverandi bóndi á Blikastöðum
Sigsteinn ásamt börnum og tengdabörnum. F.v. Grétar Hansson, Kristín Sigsteinsdóttir, Marta G. Sigurðardóttir og Magnús Sigsteinsson.
Sigsteinn fæddist þann 16. febrúar árið 1905 í Tungu í Fáskrúðsfirði en flutti í Mosfellssveitina árið 1936 og var þá til vinnu að Reykjum. Hann giftist síðar Helgu Jónínu Magnúsdóttur heitinni frá Blikastöðum. Þau tóku við búinu á Blikastöðum þegar faðir Helgu lést árið 1942. Þar voru hjónin aðallega með kýr og þegar mest var um búpeninginn voru þar í kringum 100 nautgripir. Arið 1973 var öllum búrekstri á Blikastöðum hætt og árið 1991 keypti Reykjavíkurborg Blikastaðalandið fyrir um 245 milljónir en þau kaup gengu til baka vegna þess að bæjaryfirvöld í Mosfellsbænum vildu ekki breyta lögsögumörkum. Um 10 árum seinna var það svo byggingarfyrirtækið Úlfarsfell sem keypti landið og þar er áætluð stór og mikil byggð fyrir um 5.000 manns. Sigsteinn telur landið vera gott fyrir byggð þar sem lítið er um úrkomu þar og fallegt útsýni allt um kring. Síðustu árin hefur heimili hans verið dvalarheimili aldraða að Hlaðhömrum.
Hjónin á Blikastöðum
Sigsteinn hefur látið mikið að sér kveða í bæjarfélaginu í gegnum tíðina. Hann var hreppstjóri frá árinu 1964 til ársins 1984. Störf hans í því embætti voru aðallega fólgin í bví að sinna innheimtumálum fyrir sýslumanninn. Helga Jónína, kona hans, var einnig í pólitíkinni. Hún var oddviti Mosfellshrepps í fjögur ár og einnig formaður kvenfélags Lágafellssóknar frá árinu 1951 til 1964. Sigsteinn var einnig sóknarnefndarformaður í Lágafellssókn árin 1973-1978. Þá hefur Sigsteinn verið duglegur í félags- starfsemi hér í bæ og var hann til að mynda einn af stofnendum Lionsklúbbs Kjalarnesþings sem var stofnaður þann 18. mars 1965. Þá hefur hann fengið viðurkenningu fyrir að vera elsti starfandi félagi Lionshreyfingarinnar í heiminum. Sigsteinn var einnig með fyrstu félögunum í karlakór Stefnis.
Námssjóður Sigsteins
Þau hjónin eignuðust saman tvö börn. Þau eru Magnús, fyrrverandi oddviti Mosfellshrepps líkt og móðir hans og svo Kristín sem hefur starfað sem kennari í Varmárskóla um árabil. Sigsteinn stofnaði ásamt fjölskyldu sinni Blikastaðasjóðinn árið 1999 til minningar um konu sína og Þ. Magnús Þorláksson og Kristínu Jónatansdóttur, fyrrverandi ábúendur á Blikastöðum. Þessi sjóður hefur veitt nemendum sem lokið hafa námi hjá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, styrk til áframhaldandi náms erlendis eða til rannsóknarverkefna í landbúnaðarvísindum.
Aldarafmælið
Sigsteinn hélt veglega veislu á 100 ára afmæli sínu þann 16. febrúar 2005 í Hlégarði. Þangað lögðu leið sína um 300 manns til þess að fagna þessum merka áfanga í lífi Sigsteins. Sigsteinn bað þar fólk um að gefa frekar í söfnunarbauka fyrir Rauða krossinn heldur en gjafir. Með þessu framtaki söfnuðust rúmlega 150 þúsund krónur sem Sigsteinn afhenti svo formanni Kjósarsýsludeildar Rauða krossins. Sigsteinn telur engan sérstakan galdur liggja á bak við háan aldur sinn en segist þó vita af langlífi í föðurætt sinni.