Mosfellingur ársins 2007
Jóhann Ingi, sundlaugarvörður í Lágafellslaug tekur við nafnbótinni Mosfellingur ársins úr höndum Hilmars Gunnarssonar ritstjóra Mosfellings.
Jóhann Ingi bjargaði lífi tveggja ára stúlku sem hafði verið á kafi í tæpar tvær mínútur áður en endulífgun hófst. Hann gafst ekki upp þrátt fyrir lítinn árangur í fyrstu en eftir ítrekaðar tilraunir komst hún til meðvitundar. Jóhann Ingi hafði nýlokið skyndihjálparnámskeiði og átti ekki von á því að þurfa nýta þessa kunnáttu eftir að hafa starfað í einungis viku við sundlaugina.
„Þetta er kraftaverki líkast og þessi atburður á seint eftir að líða mér úr minni. Það besta við þetta er að stúlkunni varð ekki meint af.” Jóhann Ingi er 18 ára gamall og mælir hiklaust með því að fólk læri skyndihjálp og kunni að nota hana.