Mosfellingur ársins 2015
Sigrún vann það þrekvirki á árinu 2015 að synda fyrst íslenskra kvenna yfir Ermarsundið. Sigrún sem hefur stundað sjósund undanfarin ár og hafði áður synt boðsund í tvígang yfir Ermarsundið sem varð kveikjan að því að hana langaði að gera þetta ein. Ermarsundið er stundum kallað „Mount Everest sundmanna,“ en að synda yfir sundið er eitt og sér mikið afrek, en þrekvirki Sigrúnar verður líklega seint leikið eftir. Bakgrunnur Sigrúnar í íþróttum er enginn og lærði hún skriðsund fyrir þremur árum síðan. Þetta afrek hennar er því ótrúlegt.
„Þetta er æðislegt, ég var tilnefnd sem maður ársins af ýmsum fjölmiðlum en það er ótrúlegur heiður að hljóta nafnbótina Mosfellingur ársins, það er svakalega skemmtilegt,“ segir Sigrún og bætir við að hún sé alltaf endurnærð þegar hún komi upp úr sjónum, skilji áreiti og áhyggjur eftir og finni fyrir meiri jarðtengingu.