Mosfellingur ársins 2016
Guðni Valur hefur tekið gríðarlegum framförum í greininni þau þrjú ár sem hann hefur stundað kringlukast af fullum krafti. Áður hafði Guðni æft aðrar greinar í frjálsum, golf, körfubolta og ýmsar íþróttir sem krakki. Guðni Valur æfði með Aftureldingu á sínum yngri árum en keppir nú fyrir hönd ÍR undir dyggri handleiðslu Péturs Guðmundssonar.
Guðni Valur setur markið hátt á árinu og ætlar sér að komast á Heimsmeistaramótið í sumar og vinna Evrópumeistaramótið í sínum aldurshópi. Lágmarkið fyrir HM er 65 m en besti árangur Guðna er 63,5 m. „Ég á nóg inni og ætla mér stóra hluti.“ Þá er stefnan tekin á Smáþjóðaleika og fjölda annarra móta og keppnisferða á árinu.
Guðni Valur var á dögunum útnefndur frjálsíþróttakarl ársins og hlaut einnig titilinn íþróttakarl ÍR 2016. „Það er hrikalega skemmtilegt að bæta nafnbótinni Mosfellingur ársins við í safnið og mun ég bera titilinn stoltur,“ segir þessi framúrskarandi íþróttamaður sem vert verður að fylgjast með í náinni framtíð.