Félagsstarfið í Mosfellsbæ fékk í dag Brúarland til afnota fyrir starf sitt. Þá mun félag aldraðra í Mosfellsbæ (FaMos) einnig fá aðstöðu í húsinu.
Í dag var Brúarland formlega afhent félagsstarfinu í Mosfellsbæ og FaMos við hátíðlega athöfn þar sem Ólafur Ingi Óskarsson formaður velferðarnefndar Mosfellsbæjar flutti ávarp og fór yfir sögu hússins. Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri, Jónas Sigurðsson formaður FaMos og Elva Björg Pálsdóttir forstöðumaður félagsstarfsins klipptu síðan á borða sem tákn um opnun hússins.
Brúarland hefur ávallt haft mikilvægt hlutverk í sögu bæjarins. Tilkomu þess má rekja til Kvenfélags Lágafellssóknar sem var með það sem baráttumál að byggt yrði nýtt samkomu- og skólahús í Mosfellssveit. Tíu árum eftir að hreyft var við hugmyndinni árið 1922 var húsið tekið í notkun.
Brúarland þótti eitt glæsilegasta barnaskólahús í sveit á Íslandi á sínum tíma og þar var einnig símstöð og félagsheimili. Árið 1929 var byggt ofan á húsið og var það rými hugsað sem skólastofa, heimavist og skólastjóraíbúð. Brúarland var ekki eingöngu skóli heldur miðstöð samkomuhalds í sveitarfélaginu allt þar til félagsheimilið Hlégarður var vígt árið 1951. Eftir að Varmárskóli var byggður og tekinn í notkun árið 1962 var Brúarland þó áfram notað til kennslu. Brúarland var tónlistarskóli allt til ársins 2000. Þá var Framhaldsskóli Mosfellsbæjar í húsinu frá 2009 til 2013. Frá árinu 2016 var útibú frá Varmárskóla og má segja að það hafi verið fyrstu skrefin að stofnun Helgafellsskóla sem var tekinn í notkun árið 2019.
Unnið hefur verið að endurbótum á Brúarlandi undanfarið ár og nú er það félagsstarfið sem fær afnot af Brúarlandi fyrir starfsemi sína sem mun vonandi efla enn frekar starfið og auka fjölbreytni þess. Áfram verður félagsstarf í Eirhömrum auk þess sem þar er veitt ýmiss þjónusta við íbúa og aðra bæjarbúa.