Fjallahjólabrautin „Flækjan“ var formlega opnuð í dag. Brautin er staðsett í Ævintýragarðinum í Mosfellsbæ og hófust framkvæmdir við hana í lok apríl.
Brautin er um eins kílómetra löng og hentar bæði byrjendum og lengra komnum þar sem hægt að er velja úr mörgum mismunandi leiðum. „Flækjan“ er samstarfsverkefni Mosfellsbæjar, Heilsueflandi samfélags, Icebike Adventures og Hjóladeildar Aftureldingar.
Magne Kvam frá Icebike Adventures hannaði og lagði brautina ásamt sjálfboðaliðum og Sindri Hauksson smíðaði stökkpallana í „Flækjunni“ en þess má geta að ungir iðkendur í Hjóladeild Aftureldingar eiga heiðurinn af nafngiftinni.
Á sama tíma var frisbígolfvöllur Mosfellsbæjar endurvígður eftir breytingar en framkvæmdir við hann hafa staðið yfir í sumar. Búið er að færa til brautir og leggja heilsárspalla þannig að nú er hægt að spila þessa fjölskylduvænu íþrótt allt árið um kring.
Við hönnun hjólabrautarinnar og endunýjunar frisbígolfvallarins var horft til bæði nútíðar og framtíðar og haft í huga að brautin og völlurinn myndu liggja saman, en ekki skarast og einnig að mögulegt væri að stækka bæði völlinn og hjólabrautina í framtíðinni.
Framkvæmdirnar í Ævintýragarðinum eru hluti af því að styrkja og efla Mosfellsbæ sem útivistarbæ og heilsueflandi samfélag.
Hjóladeild Aftureldingar og Fellahringurinn afhentu við þetta tækifæri Erlu Edvardsdóttur, formanni íþrótta- og tómstundanefndar Mosfellsbæjar, 500.000 kr. sem safnast höfðu til að styðja við áframhaldandi uppbyggingu á fjallahjólabrautum í Mosfellsbæ.
Ljósmyndari: Helga Dögg Reynisdóttir