Hátíðardagskrá var í Hlégarði fimmtudaginn 29. ágúst þar sem meðal annars voru veittar umhverfisviðurkenningar.
Umhverfisnefnd sá um valið og var það formaður nefndarinnar Örvar Jóhannsson ásamt Reyni Matthíassyni og Önnu Sigríði Guðnadóttur fulltrúum umhverfisnefndar sem veittu viðurkenningar meðal annars fyrir tré ársins, íbúaátak ársins og garð ársins.
Tré ársins 2024
Garðahlynur við Byggðarholt 33. Einstaklega fallegt einstofna tré með stórri krónu í einkagarði. Það að finna svona stóran og veglegan hlyn í einkagarði í Mosfellsbæ er einstakt. Almennt er garðahlynur einstofna tré með stóra krónu. Tréð getur orðið allt að 500 ára gamalt og á íslandi allt að 15 metra hátt. Þennan tiltekna garðahlyn fengu hjónin Guðrún Eiðsdóttir og Páll Reynisson í sængurgjöf fyrir 35 árum þegar sonur þeirra Hlynur fæddist. Hjónin gátu því miður ekki tekið á móti viðurkenningunni en sonur þeirra hann Hlynur kom og tók á móti henni.
Viðurkenning fyrir íbúaátak
Íbúar við Einiteig og Hamarsteig hafa tekið að sér umhirðu opins græns svæðis í miklu og góðu samstarfi við Garðyrkjudeild Mosfellsbæjar. Forsprakki íbúa er María Hákonardóttir sem hefur fengið aðra íbúa hverfisins með sér í þetta verkefni og öll taka þau þátt í að gróðursetja fallegar tegundir, slá gras og hirða og einnig hafa þau séð um að útrýma kerfli. Með mikilli vinnu hefur þeim tekist að ná tökum á kerflinum og búa til þetta fallega svæði. Íbúar eru sammála um að þau hjónin María Hákonardóttir og Erich Köppel eigi mestan heiður að þessu svæði en öllum þykir þeim vænt um það. Íbúar hafa komið með þá tillögu að svæðið verði hér eftir kallað Maríulundur. María og Eric tóku á móti viðurkenningu fyrir hönd íbúa.
Viðurkenningar fyrir fallega og vel hirta garða
Garður ársins
Garður ársins er garður Nahla Ratana Lampha í Áslandi 14 en hann er vel hirtur, fallegur og í anda austurlanda. Greinilegt er að mikil natni fer í umsjón garðarins en þar eru bæði falleg tré og plöntur inni í garðinum og sem vísa út á gangstétt þannig að aðrir fái líka að njóta.
Auk þess fengu þrír aðrir garðar umhverfisviðurkenningar:
- Hagaland 5: Garður Glicia Gomes og Jóhannesar B. Jóhannessonar. Flottur garður sem búið er að gera mikið fyrir síðustu ár.
- Hjarðaland 3: Garður Sigrúnar Ástu Gunnlaugsdóttur og Sveins Inga Sveinssonar. Margar fallegar umbætur á síðustu 7 árum á garði sem var í niðurníðslu.
- Dalatangi 19: Garður Fjólu Guðbjargar Ingþórsdóttur og Gunnars Hannesar Reynarssonar. Fjölbreyttur gróður og fallega uppsettur garður, eigendur hafa verið dugleg í fjölda mörg ár en þau fengu einnig viðurkenningu árið 1993.
Mikil vinna og áhugi felst í því að halda svona görðum fallegum. Það getur á köflum verið krefjandi á sumrum eins og því sem er að líða, en allir garðarnir eiga það sameiginlegt að vera einstaklega fallegir með fjölbreyttar tegundir og vel hirtir. Sú mikla vinna sem íbúar hafa lagt í garðana fer ekki milli mála.
Garður ársins Áslandi 14
Helgaland 5
Hjarðarland 3
Dalatangi 19
Tengt efni
Umhverfisviðurkenningar Mosfellsbæjar 2024
Umhverfisnefnd óskar eftir tilnefningum frá almenningi vegna umhverfisviðurkenninga Mosfellsbæjar fyrir árið 2024.
Umhverfisviðurkenningar Mosfellsbæjar 2023 afhentar á bæjarhátíð
Hátíðardagskrá var í Hlégarði sunnudaginn 27. ágúst í tengslum við bæjarhátíðina Í túninu heima þar sem meðal annars voru veittar umhverfisviðurkenningar.
Umhverfisviðurkenningar Mosfellsbæjar 2023 - Hægt að senda tilnefningar til og með 31. júlí
Umhverfisnefnd óskar eftir tilnefningum til umhverfisviðurkenninga Mosfellsbæjar fyrir árið 2023.