Birgir D. Sveinsson
Birgir D. Sveinsson kennari og fyrrum stjórnandi Skólahljómsveitar Mosfellsbæjar og fyrrum skólastjóri Varmárskóla var útnefndur heiðursborgari Mosfellsbæjar við hátíðlega athöfn við Varmárlaug þann 17. júní 2024.
Birgir var heiðraður fyrir hans mikla framlag til tónlistar- og menningarlífs sem og uppeldismála í Mosfellsbæ.
Birgir D. Sveinsson er fæddur 5. apríl 1939 í Neskaupstað. Hann lauk landsprófi í Vestmannaeyjum og kennaraprófi árið 1960. Samhliða námi stundaði Birgir tónlistarnám og lék á blásturhljóðfæri. Birgir fluttist til Mosfellsbæjar að afloknu kennaraprófi og var kennari við Varmárskóla árin 1960-1977. Hann var yfirkennari 1977-1983 og skólastjóri Varmárskóla 1983-2000.
Birgir var fenginn til að kenna drengjum á blásturshljóðfæri haustið 1963 og úr varð drengjahljómsveitin, síðar Skólahljómsveit Mosfellsbæjar, sem spilaði fyrst opinberlega við vígslu sundlaugarinnar að Varmá, þann 17. júní 1964. Skólahljómsveitin hefur starfað óslitið í 60 ár.
Þá stóð Birgir enn fremur að því að efna til tónlistarkennslu í Barnaskólanum sama haust og það starf þróaðist í að stofnaður var tónlistarskóli í Mosfellssveit haustið 1966.
Birgir var stjórnandi Skólahljómsveitar Mosfellsbæjar í 40 ár eða fram til ársins 2004. Hljómsveitin hefur þjónað tónlistarlegu uppeldi fjölda barna og ungmenna í Mosfellsbæ en jafnframt verið bæjarhljómsveit og komið fram við hin ýmsu hátíðlegu tækifæri.
Það eru þúsundir barna og ungmenna sem hafa notið leiðsagnar Birgis, sem kennara og tónlistarmanns og umsögn fyrrum nemenda er samhljóma um þau góðu áhrif sem Birgir hefur haft á þeirra þroskabraut. Birgir er sagður hafa verið einstakur kennari, þolinmóður, umhyggjusamur og hafa veitt sérhverju barni athygli sína.
Birgir var formaður Samtaka íslenskra skólahljómsveita í 20 ár en samtökin voru stofnuð í Mosfellsbæ. Hann var útnefndur heiðursfélagi samtakanna árið 2019. Birgir fékk viðurkenningu frá bæjarstjórn Mosfellsbæjar fyrir frábær störf árið 1994.
Árið 2005 var Birgir sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir tónlistarkennslu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.
Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs, Birgir D. Sveinsson og Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar
Mynd: Raggi Óla
Salóme Þorkelsdóttir
Á hátíðarfundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þann 9. ágúst 2007 var samþykkt að gera Salome Þorkelsdóttur að heiðursborgara Mosfellsbæjar.
Salome Þorkelsdóttir er fædd í Reykjavík 3. júlí 1927 og voru foreldrar hennar Þorkell Sigurðsson og Anna Þorbjörg Sigurðardóttir.
Salome Þorkelsdóttir lauk prófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1945.
Salome giftist þann 22. febrúar 1947 Jóel Kristni Jóelssyni (1921-2007), garðyrkjubónda. Þau eignuðust þrjú börn, Önnu, Jóel Kristinn og Þorkel.
Salóme var kjörin í hreppsnefnd Mosfellshrepps árið 1966 og sat þar til 1982. Hún var aðalgjaldkeri Mosfellshrepps 1972-1979, varaoddviti 1978-1981 og oddviti 1981-1982. Salóme var formaður stjórnar Tjaldanesheimilisins 1974-1980 og formaður samtaka sveitarfélaga í Reykjaneskjördæmi 1975-1979. Árið 1979 var hún kjörin á Alþingi og sat á þingi til ársins 1995.
Störf Salome Þorkelsdóttur fyrir sveitarfélagið Mosfellsbæ, sem og í þágu lands og þjóðar, skipa henni verðugan sess meðal forystukvenna íslensks samfélags.
Jón M. Guðmundsson (1920-2009)
Bæjarstjórn samþykkti einróma á fundi sínum 30. ágúst 2000 að Jón M. Guðmundsson yrði heiðursborgari Mosfellsbæjar.
Með þessum heiðri er lagt fram þakklæti sveitarfélagsins og viðurkennig á hinu mikilvæga framlagi Jóns til uppbyggingar sveitarfélagsins en Jón var oddviti Mosfellshrepps 1962-1981 og hreppstjóri 1984-1990.
Jón tók virkan þátt í félagsstarfi innan og utan sveitarfélagsins og sat í stjórnum fjölmargra félaga og samtaka.
Jón M. Guðmundsson fæddist í Reykjavík 19. september 1920. Foreldara Jóns voru hjónin Ingibjörg Pétursdóttir (1892-1980), húsfreyja, og Guðmundur Jónsson (1890-1946), skipstjóri og útgerðarmaður.
Þau festu kaup á jörðinni Reykjum í Mosfellssveit árið 1916 og fluttu þangað árið 1926, þegar Jón var fimm ára. Að loknu búfræðiprófi árið 1942 lagði hann stund á alifuglarækt við University of Wisconsin 1945-1947, í Svíþjóð 1949 og Washington 1961. Jón var bóndi á Reykjum í Mosfellssveit 1947-2000 og frumkvöðull í alifuglarækt.
Jón var mikill hugsjóna- og félagsmálamaður. Hann keppti í íþróttum og var virkur í íþróttahreyfingunni, var m.a. sæmdur gullmerki FRÍ, heiðursmerki Íþrótta- og ólympíusambands Íslands auk þess sem hann var heiðursfélagi í Ungmennafélaginu Aftureldingu.
Halldór Kiljan Laxness (1902-1998)
Nóbelsverðlaunaskáldið Halldór Laxness var heiðursborgari Mosfellsbæjar árið 1972 en hann bjó í Mosfellsbæ alla sína tíð og sótti efnivið í margar sögur sínar í Mosfellssveit.
Halldór Laxness er tengdur Mosfellssveit og -bæ órofa böndum. Hann ólst upp að Laxnesi í Mosfellsdal, kenndi sig alla tíð við bernskustöðvar sínar og settist að í dalnum sem fulltíða maður. Hann sá bernskuár sín í dalnum í hillingum og í nokkrum bóka sinna sækir hann efniviðinn í Mosfellssveit, einkum í Innansveitarkroniku og endurminningabókinni Í túninu heima.
Halldór Laxness fæddist 23. apríl 1902 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Sigríður Halldórsdóttir, húsmóðir, og Guðjón Helgi Helgason, vegaverkstjóri og bóndi í Laxnesi í Mosfellssveit.
Halldór lauk gagnfræðanámi 1918 og hóf nám í menntaskóla. Hann hætti námi 1919, sama ár og hann gaf út Barn náttúrunnar, fyrstu skáldsögu sína. Hann hélt til náms erlendis, fyrst til Lúxemborgar og síðan til London. Hann dvaldist langdvölum utan Íslands en átti fast heimili að Gljúfrasteini í Mosfellssveit frá 1945.
Halldór Laxness fékk Bókmenntaverðlaun Nóbels 1955 en hann hlaut einnig fjölda annarra viðurkenninga og verðlauna.
Gljúfrasteinn, heimili og vinnustaður Halldórs, var breytt í safn og opnað almenningi árið 2004.