Átta konur og ellefu karlar hafa verið tilnefnd af íþrótta- og tómstundanefnd Mosfellsbæjar til íþróttafólks Mosfellsbæjar 2023.
Eins og áður gefst bæjarbúum kostur á, ásamt íþrótta- og tómstundanefnd Mosfellsbæjar, að kjósa íþróttafólk ársins.
Netkosning stendur yfir frá 30. nóvember til og með 11. desember 2023.
Til að kjósa þarf að skrá sig inn á þjónustugátt Mosfellsbæjar með rafrænum skilríkjum og velja flipann „Kosningar“. Velja skal í 1., 2. og 3. sæti í kvenna- og karlaflokki. Kosning er ekki gild nema valið sé í öll sætin.
Íþrótta- og tómstundanefnd Mosfellsbæjar mun síðan velja á milli þeirra sem tilnefnd eru og styðjast við niðurstöðu vefkosningarinnar.
Tilkynnt verður um valið þann 11. janúar 2024.
Kjósa íþróttafólk Mosfellsbæjar:
Íþróttakona Mosfellsbæjar 2023
Amalía tók þátt á sínu fyrsta móti á jólamóti LSÍ og vann sér inn rétt á að taka þátt á HM 2021. Eftir það tók hún sér ársfrí frá keppnum og kom sterk inn í ár aftur, vann sér inn rétt á HM september og lenti þar í 30 sæti. Tók hún þátt á Norðurlandamóti fullorðinna í október og hafnaði þar í 3. sæti með 80 kg í snörun og 98 kg í jafnhendingu og þá 178 kg í samanlögðu. Amalía keppir í 64 kg flokki kvenna og á best 84 kg í snörun og 103 kg í jafnhendingu og 183 í samanlögðu. Amalía er mikil fyrirmynd, hörkudugleg og ósérhlífin.
Arna Karen hefur æft með Badmintondeild Aftureldingar og síðan TBR. 2018 fór hún á samning hjá Ikast FS í Danmörku og spilaði þar til ársins 2022. Þá skipti hún yfir í Viby Badminton Klub. 2023 varð hún tvöfaldur Íslandsmeistari í tvíliða- og tvenndarleik í úrvalsdeild. Hún varð Íslandsmeistari með TBR í deildarkeppni félagsliða í úrvalsdeild. Hún fékk gullverðlaun á Meistaramóti TBR í tvíliða- og tvenndarleik hún komst ásamt með spilara sínum í tvenndarleik lengst Íslendinga í 8 liða úrslit á alþjóðlega mótinu Iceland International. Hún var valin í landsliðið sem tók þátt í Smáþjóðaleikum í október þar náðu þær silfurverðlaunum. Síðasta tímabil vann hún 11 af 12 tvenndarleikum sínum og var valinn spilari ársins hjá klúbbnum.
Berglind Erla landsliðskylfingur átti frábært keppnissumar. Hún var í 11. sæti á Íslandsmótinu í höggleik, endaði efst allra Mosfellinga á kvennastigalista GSÍ (14. sæti), Hún var ein lykilmanna í sigurliði GM í Íslandsmóti golfklúbba annað árið í röð og var í kjölfarið valin í þriggja manna lið sem keppti á EM golfklúbba fyrir hönd Íslands í Búlgaríu. Einnig var hún valin í lið EM stúlkna í Frakklandi þriðja árið í röð. Eftir sumarið er hún skráð með 0,3 í forgjöf.
Björk Erlingsdóttir er margfaldur Íslandsmeistari í sínum aldursflokki, sem er frá 30 ára og eldri, og endurtók hún leikinn á þessu ári með fullu húsi stiga. Hún er frábær fyrirmynd fyrir aðra keppendur, hvort um sé að ræða í kvenna- eða karlaflokki því ófáir keppendur gefa eins mikið af sér til íþróttarinnar og Björk. Björk hefur verið einn stærsti bakhjarl og styrktaraðili íslenska landsliðsins í motocross sem hún aflaði með fjáröflun og bolasölu. Björk er jafnframt mjög virk í öllu félagsstarfi og sjálfboðavinnu er kemur að íþróttinni. Situr hún í stjórn tveggja félaga og hið fyrra er MotoMos hér í Mosfellsbæ og í MSÍ.
Hafrún Rakel er 21 árs Mosfellingur, uppalin í Aftureldingu en spilar í dag með Breiðablik í efstu deild og með íslenska kvennalandsliðinu. Hafrún átti gífurlega gott ár og var margsinnis valin í lið umferðar, leikmaður umferðar, leikmaður mánaðar auk þess að vera valin í lið ársins í Bestu deildinni. Hún spilaði með U23 og A landsliði Íslands á árinu, varð Pinatarcup meistari með A landsliðinu í byrjun árs, skoraði sigurmarkið gegn Austurríki í sumar og er nú í hluti af A landsliðshópnum sem spilar í Þjóðardeildinni. Líklegt þykir að hún haldi utan í atvinnumennsku á nýju ári. Hafrún Rakel er metnaðarfull, einbeitt og leggur mikið á sig til að ná markmiðum sínum.
Katrín Helga hefur æft og spilað handbolta með Aftureldingu allt frá 7. flokki og með meistaraflokki frá unglingsaldri. Hún hefur leikið stórt hlutverk í uppbyggingu liðsins síðustu ár, þar sem aðal markmiðið er að festa það í sessi í efstu deild. Katrín Helga er ósérhlífin og metnaðarfullur leikmaður sem leggur sig alltaf alla fram, bæði í mótlæti og meðbyr. Hún mætir 100% í öll verkefni, styður samherja og mætir mótherjum af háttvísi og er því góð fyrirmynd, innan liðsins og félagsins. Síðast liðið vor fékk Katrín Helga viðurkenninguna mikilvægasti leikmaður meistaraflokks kvenna og þá sinnir hún einnig þjálfun hjá Aftureldingu og er nú í vetur með fjölmennan hóp stelpna í 5. flokki.
Thelma Dögg spilar blak í Aftureldingu. Hún spilaði í sænsku úrvalsdeildinni 2022-2023 og spilaði um sænska meistaratitilinn í vor. Hún var oftast valin besti leikmaður liðsins og átti stóran þátt í að koma liðinu í úrslitakeppnina. Thelma var fyrirliði í A landsliði Íslands á Evrópumóti Smáþjóða í sumar þar sem Ísland vann til gullverðlauna og var Thelma valin besti leikmaður keppninnar. Thelma er stigahæst í íslensku úrvalsdeildinni og með bestu uppgjafirnar. Thelma er aðstoðarþjálfari karlaliðs Aftureldingar í blaki og aðstoðarþjálfari í U17 ára landsliði stúlkna. Thelma er er metnaðarfull og mikil fyrirmynd fyrir yngri iðkendur í Mosfellsbæ og á landinu öllu.
Viktoría Von er 20 ára og hefur stundað hestamennsku frá því að hún man eftir sér. Hún hefur sýnt fram á góðan árangur undanfarin ár og varð tvöfaldur Mosfellsbæjarmeistari í sumar. Hún hefur sótt keppins námskeið hjá hestamannafélaginu Herði og starfað við mótanefndina hjá Herði. Viktoría leggur mikinn metnað í hestamennsku og stundar hestamennskuna allt árið um kring. Hún er sem stendur við nám í Háskólanum á Hólum að læra BS í reiðmennsku og reiðkennslu.
Íþróttakarl Mosfellsbæjar 2023
Atli Fannar spilar blak með mfl karla hjá Aftureldingu. Atli leggur mikið á sig til að ná árangri og gefur liðinu mikið. Hann er metnaðarfullur bæði fyrir sína hönd, hönd liðsins og fyrir hönd þeirra sem hann er að þjálfa. Atli er lykilleikmaður í A landsliði Íslands í blaki sem vann til bronsverðlauna á EM Smáþjóða í sumar. Hann er aðstoðarþjálfari kvennaliðsins Aftureldingar, ásamt því að þjálfa yngri flokka. Atli er aðstoðarþjálfari íslenska U19 ára landsliðs kvenna á NEVZA. Atli meiddist í leik í október og sýnir iðkendum gott fordæmi með mikilli skynsemi og þrautseigju í meiðslum sínum. Atli er gríðarlega góð fyrirmynd fyrir ungu iðkendur okkar bæði stúlkur og drengi.
Benedikt Ólafsson hefur náð frábærum árangri á keppnisvellinum undanfarin ár sem hafa skilað honum mörgum Landsmóts, Íslands- og Reykjavíkurmeistaratitlum. Árið 2023 var engin undantekning, titlar á öllum ofan töldum mótum ásamt sigri í liðakeppni í Meistaradeild ungmenna. Hápunktur sumarsins var án efa þegar hann vann til tveggja gullverðlauna á Heimsleikum Íslenska hestsins í Hollandi og þar með eignuðumst við Mosfellingar tvöfaldan Heimsmeistara. Benedikt er tvítugur, alinn upp í Mosfellsdalnum og stoltur Harðarfélagi. Hann hefur verið vallinn i Landslið Íslands í hestaíþróttum í fimm ár hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir frábæra reiðmennsku. Vakti hann sérstaka eftirtekt fyrir prúða framkomu innan vallar sem utan í Hollandi og er frábær fyrirmynd í hestaheiminum.
Einar Óli er fæddur og uppalinn Mosfellingur. Hann er afreksmaður í badmintoni. Hann æfði með Aftureldingu badminton til 9 ára aldurs og er núna hjá TBR. Einar Óli er margfaldur íslandsmeistari í barna og unglingaflokkum landsins. Þrátt fyrir að Einar Óli sé ekki nema 17 ára spilar hann núna með fullorðnum og stefnir á það að verða íslandsmeistari fullorðinna. Hann var einnig valinn til að keppa fyrir hönd Íslands á heimsmeistaramóti U 19 í badmintoni sem haldið var í Bandaríkjunum nú fyrr á þessu ári. Hann hefur einnig tekið þá í landsliðsverkefnum. Einar Óli er góður drengur og fylginn sér og góð fyrirmynd.
Elmar Kári er 21 árs kantmaður sem vakti mikla athygli með Aftureldingu í Lengjudeildinni í sumar. Elmar Kári hefur æft með Aftureldingu síðan í 8. flokki. Undanfarin ár hefur hann tekið stórstígum framförum og með hverju tímabili orðið mikilvægari leikmaður fyrir Aftureldingu. Í sumar skoraði Elmar Kári 17 mörk þegar Afturelding endaði í 2. Sæti í Lengjudeildinni. Elmar var valinn besti leikmaðurinn hjá Aftureldingu sem og í lið ársins í deildinni. Elmar er frábær fyrirmynd fyrir yngri iðkendur en gríðarlega mikill dugnaður og eljusemi á æfingum og í aukaæfingum hefur hjálpað honum að bæta sig mikið ár frá ári.
Guðni Valur keppir á hæsta stigi sinnar greinar í heiminum og hefur árangurinn á árinu verið mjög góður. Hann er í 16 sæti inn á Ólympíuleikana 2024 Evrópumeistaramótið 2024. Guðni Valur keppti á 14 mótum 2023 með samtals meðaltal 62,90m af öllum mótunum og 63,67m af topp 10 mótunum hans. Þetta er besta tímabil sem Guðni Valur hefur átt. Hann keppti á HM í frjálsum, þar náði hann 22 sæti með kast upp á 62,28m, sem er lengsta kast á stórmóti. Guðni Valur er Íslandsmeistari í kringlukasti og kúluvarpi 2023, Norðurlanda meistari karla. Hann er í landsliðinu í kringlukasti og kúluvarpi. Hann æfir að meðaltali sex sinnum í viku, eða um 18 klst að meðaltali á viku.
Gunnar Karl er fæddur 1996. Hann varð á árinu Íslandsmeistari í rally fjórða árið í röð og sigraði auk þess í öllum fimm mótum Íslandsmótsins. Þá tók hann þátt í tveimur keppnum á Írlandi sem var frumraun hans í rally á malbiki. Hann sá jafnframt um keppnishald, undirbúning og kennslu fyrir ungling í Íslandsmótinu í Rallycrossi með góðum árangri. Gunnar Karl er mikill keppnismaður, leggur mikla áherslu á fagmennsku í sportinu og er frábær fyrirmynd bæði ungra íþróttamanna sem og ökumanna.
Ingvar Sverrir Einarsson lenti í 3 sæti til Íslandsmeistara í ár sem telst mjög góður árangur þar sem hann færði sig upp í fullorðins flokk en hann er eingöngu 17 ára gamall. Ingvar hefur stundað Motocross í fjölmörg ár og orðið Íslandsmeistari í sínum flokki, hann er einnig mikil fyrirmynd fyrir aðrar keppendur með sinni prúðu framkomu og alltaf tilbúin að rétta fram hjálparhönd eða taka þátt í sjálfboðastarfi fyrir sportið. Ingvar keppir einnig í Enduro með mjög góðum árangri. Hann er mikil fyrirmynd fyrir bæði yngri og eldri keppendur og hann lifir heilbrigðu líferni. Þessi ungi drengur á framtíðina fyrir sér í sportinu.
Kristján Þór landsliðskylfingur átti stórkostlegt golfsumar. Kristján sigraði á Hvaleyrarbikarnum með 5 högga mun, einnig lék hann stöðugt og gott golf í allt sumar og endaði í 2. sæti á karlastigalista GSÍ. Kristján var einn lykilmanna í sigri liðs GM á Íslandsmóti Golfklúbba. Í kjölfarið keppti Kristján í þriggja manna liði á EM golfklúbba í Portúgal. Einnig var Kristján valinn í lið Íslands sem keppti á EM liða í Slóvakíu. Í sumar sló Kristján vallarmet í Keili (-7) og jafnaði í Borgarnesi (-6).
1. sæti á Íslandsmóti U21 (-90 kg) 3. sæti á Íslandsmóti í fullorðins flokki (-90 kg) 2. sæti á Íslandsmóti í fullorðins flokki opnum flokki (allir þyngdarflokkar keppa saman) 1. sæti í fullorðins flokki í sveitaglímu JSÍ 1. sæti í U21 í sveitaglímu JSÍ Var valinn í landsliðið til að keppa á: Smáþjóðaleikunum á Möltu (A-landslið) Norðurlandamóti U21 og fullorðins Evrópumeistaramót U21 Skarphéðinn æfir 6-10x í viku með meistaraflokki Júdófélags Reykjavíkur. Hann mætir á allar æfingar og leggur sig alltaf 100% fram. Skarphéðinn er mjög góð fyrirmynd bæði innan vallar og utan. Markmið hans er að ná sem lengst í júdó.
Ýmir Snær er duglegur íþróttamaður sem æfir sund og frjálsar með Íþróttafélaginu Ösp. Hann náði öllum lágmörkum á mót ársins, meðal annars á Reykjavík International Games þar vann hann gull fyrir 100m skriðsund og brons fyrir 200m. Hann keppti á Íslandsmeistaramótinu í 50 metra laug þar fékk hann bronsverðlaun í 50m og 100m skriðsundi og fjórða sæti í 200m. Á Íslandsmeistaramótinu í 25m laug fékk hann brons fyrir 50m og 100m skriðsund. Hann fór fyrir Íslands hönd á Special Olympics í Berlín í júní þar var hann landi og þjóð til sóma og raðaði sér ávallt meðal þeirra fremstu. Ýmir er góður vinur og hvetur aðra áfram. Hann er duglegur og jákvæður á æfingum og alltaf er húmorinn með.
Þorsteinn Leó er ungur og efnilegur handknattleiksmaður í meistaraflokki karla í Aftureldingu sem hampaði bilarmeistaratitli 2023. Þorsteinn er burðarás í öflugu liði Aftureldingar þrátt fyrir ungan aldur og var valinn efnilegasti leikmaður efstu deildar. Þorsteinn Leó fór fyrir U21 ásrs landsliði Íslands sem vann til bronsverðlauna á Heimsmeistaramótinu 2023. Einnig lék Þorsteinn fyrstu A-landsleiki sína fyrir hönd Íslands 2023 Þorsteinn Leó hefur lagt mikið á sig við æfingar og aukaæfingar á síðustu árum með það að markmiði að koma sér í hóp þeirra bestu og hefur sú vinna skilað honum árangri og er hann frábær fyrirmynd fyrir ungt íþróttafólk í Mosfellsbæ sem ætlar sér stóra sigra. Þorsteinn Leó hefur samið við stórlið Porto í Portúgal um atvinnu og mun leika handknattleik þar á komandi tímabili.
Tengt efni
Kjör íþróttafólks Mosfellsbæjar 2024 - Hægt að kjósa til og með 12. desember
Tíu konur og tíu karlar hafa verið tilnefnd af íþrótta- og tómstundanefnd Mosfellsbæjar til íþróttafólks Mosfellsbæjar 2024.
Kjör íþróttafólks Mosfellsbæjar 2024
Tíu konur og tíu karlar hafa verið tilnefnd af íþrótta- og tómstundanefnd Mosfellsbæjar til íþróttafólks Mosfellsbæjar 2024.
Tilnefningar til íþróttafólks Mosfellsbæjar 2024
Hægt er að senda inn tilnefningar til 19. nóvember 2024.