Á fundi bæjarráðs þann 11. janúar var samþykkt áframhaldandi samstarf við verkefnið Römpum upp Ísland.
Í kjölfar úttektar á vegum verkefnisins á opinberum byggingum í Mosfellsbæ hefur verið ákveðið að setja upp 47 rampa við 17 byggingar. Römpum í Mosfellsbæ fjölgar ört og með þessari viðbót verða þeir orðnir rúmlega 130 talsins.
Bæjarráð Mosfellsbæjar lýsti yfir sérstakri ánægju sinni með frumkvæði verkefnisins Römpum upp Ísland varðandi aðgengi allra að opinberum stöðum á Íslandi. Í bókun bæjarráðs sagði meðal annars að ljóst væri að gríðarlegs átaks væri þörf í íslensku samfélagi og því fagni bæjarráð sérstaklega þeirri samfélagslegu sýn sem ábyrgðaraðilar verkefnisins hafa. Ennfremur þakkaði bæjarráð fyrir úttekt og fyrirhugaða rampa við opinberar byggingar í Mosfellsbæ.
Römpum upp Ísland stefnir að því að byggja 1.500 rampa á Íslandi fyrir 11. mars 2025 í þágu hreyfihamlaðra. Að verkefninu koma margir styrkaraðilar, þeirra á meðal: Ueno, Össur, Deloitte, Brandenburg, Aton.JL, Lex lögmannsstofa, BM Vallá, Icelandair, Orkan, ÞG Verk, Sjálfsbjörg, ÖBÍ, Reykjavíkurborg og Innviðaráðuneytið.
Hildur Hafbergsdóttir aðgengisfulltrúi Mosfellsbæjar er tengiliður við verkefnið og stofnanir Mosfellsbæjar varðandi aðgengismál. Athugasemdir og fyrirspurnir varðandi aðgengismál í Mosfellsbæ má senda á hana á hildurh@mos.is.