Stofnaður hefur verið stýrihópur með það að markmiði að endurskoða Varmársvæðið og móta skýra sýn á uppbyggingu á svæðinu til næstu 15 ára.
Markmiðið er að sú vinna nýtist til að styrkja almenningsíþróttir, íþróttastarf Aftureldingar, bæta útivistaraðstöðu fyrir nemendur í aðliggjandi skólum og almennt auka gæði svæðisins fyrir íbúa Mosfellsbæjar.
Stýrihópinn skipa kjörnir fulltrúar, embættismenn og fulltrúar Aftureldingar og þá verður samstarf og ráðgjöf fengin frá íþróttafélögum í Mosfellsbæ, ungmennaráði, notendaráði um málefni fatlaðs fólks, félagi eldri borgara í Mosfellsbæ, skólasamfélaginu í Varmárskóla og Kvíslarskóla og frá öðrum hagsmunaaðilum.
Stýrihópurinn hefur það hlutverk að kortleggja íþróttasvæðið að Varmá með tilliti til:
- Skipulagslegra þátta
- Þarfagreiningar vegna uppbyggingar til næstu 15 ára sem taki tillit til uppbyggingarþarfar íþróttastarfs, framtíðar uppbyggingar á íþróttastarfi í Blikastaðalandi
- Endurskoðun á þarfagreiningu Eflu frá árinu 2021 á á þjónustubyggingu og bæta við hana skoðun á sundlaugarbyggingu og öðrum rýmum sem þarfagreining Eflu tók ekki til
- Samráðs við helstu hagaðila þ.m.t. börn og ungmenni
- Kostnaðarmats á valkostum með tilliti til uppbyggingar svæðisins og fjármögnunar þar sem skoðaðar verði mögulegar leiðir til tekjuöflunar á svæðinu
Gert er ráð fyrir að fyrsti áfangi sem felur í sér endurskoðun á fyrirliggjandi þarfagreiningu hefjist strax og þeirri vinnu verði lokið1. apríl 2024. Í öðrum áfanga sem einnig hefst strax er unnið að framtíðarsýn vegna íþróttauppbyggingar í Mosfellsbæ og heildarsýn á uppbyggingu á Varmársvæðinu og er gert ráð fyrir að þeim áfangi verði lokið 1. október 2024.
Stýrihópinn skipa:
Bæjarfulltrúar: Halla Karen Kristjánsdóttir og Valdimar Birgisson og Erla Edvardsdóttir til vara. Ásgeir Sveinsson og Jana Katrín Knútsdóttir til vara.
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri, Arnar Jónsson sviðsstjóri menningar-, íþrótta- og lýðheilsumála, Jóhanna B. Hansen sviðsstjóri umhverfissviðs auk íþróttafulltrúa menningar-, íþrótta- og lýðheilsusviðs.
Fulltrúi Aftureldingar: Birna Kristín Jónsdóttir formaður og til vara Grétar Eggertsson framkvæmdastjóri.
Verkefnisstjórar eru: Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir skrifstofustjóri umbóta og þróunar og Sif Sturludóttir leiðtogi upplýsingastjórnunar.
Mynd frá hægri til vinstri: Jóhanna B. Hansen, Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir, Birna Kristín Jónsdóttir, Regína Ásvaldsdóttir, Halla Karen Kristjánsdóttir, Sif Sturludóttir, Ásgeir Sveinsson, Valdimar Birgisson og Arnar Jónsson.