Skipulagsauglýsingar
Mosfellsbær kynnir og auglýsir skipulagstillögur, breytingar og grenndarkynningar í samræmi við skipulagslög nr. 123/2012. Tillögur eru ýmist kynntar á vef, í Mosfellingi, Lögbirtingablaði eða með útsendum bréfum.
Gögn eru aðgengileg á vef sveitarfélagsins og í Skipulagsgátt. Athugasemdum og umsögnum skal skilað með rafrænum hætti.
Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins
Gildandi svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins, Höfuðborgarsvæðið 2040, var samþykkt í júní 2015 og er sameiginleg stefna sveitarfélaganna Garðabæjar, Hafnarfjarðarkaupstaðar, Kjósarhrepps, Kópavogsbæjar, Mosfellsbæjar, Reykjavíkurborgar og Seltjarnarnesbæjar um náið samstarf, skipulagsmál og hagkvæman vöxt svæðisins næstu 25 árin, enda er höfuðborgarsvæðið eitt búsetusvæði, einn atvinnu- og húsnæðismarkaður með sameiginleg grunnkerfi, útivistarsvæði, auðlindir og náttúru. Hryggjarstykkið í stefnunni er, nýtt hágæða almenningssamgöngukerfi sem tengir kjarna sveitarfélaganna og flytur farþega með skjótum og öruggum hætti um höfuðborgarsvæðið.
Aðalskipulag
Aðalskipulag er skipulagsáætlun sem nær til alls lands sveitarfélags. Í aðalskipulagi er sett fram stefna og ákvarðanir sveitarstjórnar um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar.
Deiliskipulag
Deiliskipulag tekur til heilla hverfa, hverfishluta eða einstakra reita og er nánari útfærsla á aðalskipulagi. Þar eru sett nánari ákvæði um notkun og nýtingu svæða og einstakra lóða, gerð og útlit byggðar og umhverfis, áfangaskiptingu, verndun o.fl.
Skipulagsnefnd
Skipulagsnefnd fer með málaflokkinn. Erindi til nefndarinnar skal senda í gegnum Mínar síður Mosfellsbæjar.
Skipulagsnefnd fundar á föstudagsmorgnum, að jafnaði á tveggja vikna fresti. Skipulagsfulltrúi og formaður skipulagsnefndar ákveða fundardagsskrá og yfirfara erindi og fyrirspurnir. Lagt er upp með að tilbúin mál séu tekin fyrir á næsta fasta fundi nefndarinnar. Erindi og öll gögn þurfa að hafa borist viku fyrir næsta boðaða fund.
janúar - 2025
Skipulagsnefnd innheimtir afgreiðslu- og fyrirspurnargjald, kr. 15.800 kr., vegna fyrirtöku nýrra mála og endurupptöku eldri mála.
Hvernig á að senda erindi til skipulagsnefndar?
- Skráir þig inn á Mínar síður með rafrænum skilríkjum
- Smellir á flokkinn „Umsóknir“
- Smellir á hlekkinn „Framkvæmd og skipulag“
- Smellir á hlekkinn „Erindi til skipulagsnefndar og skipulagsfulltrúa“
- Fyllir út formið og smellir á „Senda umsókn“
Framkvæmdaleyfi
Samkvæmt 13. gr. skipulagslaga skal afla framkvæmdaleyfis vegna meiri háttar framkvæmda sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar á landslagi með aðfluttum jarðvegi eða efnistöku, sem og vegna annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Þó þarf ekki að afla slíks leyfis vegna framkvæmda sem háðar eru byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki.
Umsókn um framkvæmdaleyfisskylda framkvæmd skal vera í samræmi við reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012.
Framkvæmdaleyfi er aðeins gefið út ef það er í samræmi við skipulag. Unnt er að veita framkvæmdaleyfi á grundvelli aðalskipulags án deiliskipulagsgerðar eða grenndarkynningar, ef gerð er grein fyrir framkvæmdinni og fjallað ítarlega um hana í aðalskipulagi sveitarfélagsins. Að öðrum kosti kallar veiting framkvæmdaleyfis á að jafnframt liggi fyrir deiliskipulag af viðkomandi svæði. Í þeim tilvikum sem veiting framkvæmdaleyfis kallar á gerð deiliskipulags getur sveitarstjórn þó veitt framkvæmdaleyfi án deiliskipulagsgerðar að undangenginni grenndarkynningu sé framkvæmdin í samræmi við aðalskipulag hvað varðar landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar.
Framkvæmdaaðili eða umsækjandi greiðir gjald fyrir framkvæmdaleyfi í samræmi við samþykkta gjaldskrá sveitarfélagsins hverju sinni.
Með umsókn skal fylgja lýsing á framkvæmd, gildandi skipulagsáætlun og staðháttum framkvæmdar auk tilgreiningar á framkvæmdatíma. Viðhengi og hönnunargögn framkvæmdar í samræmi við 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi.
Stofnun lóða og skráningar landa
Stofnun lóða getur verið flókið og tímafrekt ferli. Málsmeðferð er ólík eftir aðstæðum og í hverju máli fyrir sig þar sem gæði gagna og fyrirliggjandi upplýsingar geta haft áhrif. Landeigandi sækir um lóðastofnun hjá skipulagsfulltrúa, sem tryggir rétta málsmeðferð í gegnum stjórnsýsluna.
Staðfest hefur verið reglugerð um merki fasteigna sem sett er á grundvelli laga nr. 74/2022 um breytingu á lögum um skráningu, merki og mat fasteigna nr. 6/2001. Skyldar hún eigenda fasteigna til þess að láta gera merki um fasteignir sínar. Í því felst að liggi ekki fyrir þinglýst og glögg merki eða skýr afmörkun í samræmi við gildandi lög er afmörkun fór fram þá beri eigendum að gera merkjalýsingu um fasteignir sínar.
Lóðastofnun er alltaf sjálfstætt ferli – og oftast framkvæmt í kjölfar deiliskipulags. Löndum og lóðum er aðeins skipt upp í samræmi við samþykktar skipulagsáætlanir í samræmi við 48. gr. skipulagslaga nr. 132/2012.
Endurnýjun lóðaleigusamninga
Eigendur fasteigna og handhafar leigulóða í Mosfellsbæ geta sótt um endurnýjun lóðaleigusamninga á þeim svæðum þar sem samningar eru útrunnir.
Afnotareitir í Leirvogstunguhverfi
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar staðfesti skipulagsbreytingu Leirvogstunguhverfis þann 29. apríl 2022 þar sem samþykktar voru heimildir flestra lóðarhafa til afnota aðliggjandi bæjarlands í samræmi við uppdrætti og ákvæði afnotasvæða.
Umferðarmál
Í umferðaröryggisáætlunum er mörkuð stefna sveitarfélagsins til næstu ára. Með stefnu og markmiðum verður vinnan við umferðaröryggi markvissari, aðstoða við ákvörðunartöku og forgangsröðun.
Markmið umferðaröryggisáætlunarinnar er að:
- Greina stöðu umferðaröryggis og hvaða vandamál bærinn stendur frammi fyrir
- Skoða orsakir og umfang slysa og skapa grunn að aðgerðaáætlun
- Setja fram aðgerðaáætlun sem er liður í því að fækka slysum og auka lífsgæði bæjarbúa sem og annarra sem ferðast um bæinn
- Móta heildarsýn fyrir Mosfellsbæ varðandi umferðaröryggismál
Gjaldskrár
Fyrirspurn til skipulagsteymis
Fyrir almennar fyrirspurnir og/eða upplýsingar um mál í vinnslu.
Skipulagsfulltrúi Mosfellsbæjar er Kristinn Pálsson.