Staðfest hefur verið reglugerð um merki fasteigna sem sett er á grundvelli laga nr. 74/2022 um breytingu á lögum um skráningu, merki og mat fasteigna nr. 6/2001. Skyldar hún eigenda fasteigna til þess að láta gera merki um fasteignir sínar. Í því felst að liggi ekki fyrir þinglýst og glögg merki eða skýr afmörkun í samræmi við gildandi lög er afmörkun fór fram þá beri eigendum að gera merkjalýsingu um fasteignir sínar.
Með hugtakinu fasteign er átt við um öll lönd og lóðir hvort sem er í dreifbýli eða þéttbýli.
Eigendum ber að viðhalda merkjum fasteigna sinna og láta gera nýja merkjalýsingu í hvert sinn sem ný fasteign er stofnuð eða þegar breytingar verða á merkjum fasteignar s.s. með uppskiptingu eða þegar hún er sameinuð annarri. Í nýju reglugerðinni er fjallað um merkjalýsingar, tilgang þeirra, efni og hvernig þær skulu útbúnar. Þá kemur fram á hvaða gögnum þær skulu byggja og hvernig þær skulu samþykktar. Þar eru upplýsingar um hvernig skuli skrá stærð fasteigna á grundvelli merkjalýsinga, sérstaklega með tilliti til þess þegar eignir eiga land að vatni eða sjó eða þegar fasteign fylgir eignarhlutdeild í óskiptu landi. Er þar einnig fjallað um mælingar landa og lóða og hvaða kröfur merki þurfi að uppfylla til þess að teljast glögg í skilningi laganna.
Samkvæmt lögum mega þeir einir gera merkjalýsingar sem fengið hafa til þess leyfi ráðherra og staðist próf, þar til gerðir merkjalýsendur. Í reglugerðinni er nánar fjallað um þær kröfur sem gerðar eru til merkjalýsenda, námskeiðahald, útgáfu leyfis og afturköllun þess. Þá er fjallað um hlutverk merkjalýsenda og þóknun þeirra.
Merkjalýsing er því nákvæmari en það sem áður kallaðist “mæliblað” og/eða “stofnskjal lóðar”. Í samræmi við reglugerð gerir Mosfellsbær kröfu um að landeigendur láti skrá lönd sín og fasteignir með réttum hætti. Land og afmörkun þess skal rétt skráð áður en deiliskipulagsvinna hefst.
Vinsamlegast athugið að skv. 7. grein reglugerðar nr. 160/2024 er samþykkt sveitarfélags í samræmi við 48. gr. skipulagslaga er forsenda þess að merkjalýsing er staðfest.
Að vinna merkjalýsingu
Landeigandi hefur frumkvæði að því að fá merkjalýsanda til að vinna fyrir sig í hvert sinn sem ný fasteign er stofnuð eða þegar breytingar verða á merkjum fasteignar þ.e. við uppskiptingu eða sameiningu. Einnig er það í hag landeiganda að láta útbúa merkjalýsingu á eignum sem ekki eru með skýra og afmörkun nú þegar. Enda segir í 5 gr. Reglugerðar nr. 160/2024 að í þeim tilfellum þar sem fyrir liggja eldri merkjalýsingar en merki eru ekki hnitsett eða glögg frá náttúrunnar hendi er eigendum skylt að viðhalda eldri merkjum eða setja ný.
Merkjalýsing á sér sem sagt stað við eftirfarandi gjörninga:
- Stofnun nýrra lóða/lands við uppskipting lands
- Sameining lands við aðra eign
- Skýrari afmörkun á landi sem nú þegar er til í þinglýsingarbók
Landeigandi kostar gerð merkjalýsingarinnar og hafa arkitektar, verkfræðistofur eða sjálfstætt starfandi aðilar hingað til séð um gerð mæliblaða, nú merkjalýsingu.
Þeir aðilar sem koma að merkjalýsingu í stjórnsýslunni eru sveitarfélög, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) og loks sýslumaður með þinglýsingu.
Merkjalýsingu er skilað inn til Húsnæðis og mannvirkjastofnunar en að undangengnu hefur landeigandi og oftast einnig merkjalýsandi verið í sambandi við sveitarfélagið og þau samskipti halda áfram þangað til sveitarfélagið hefur samþykkt merkjalýsinguna að sinni hálfu.
Bestu leiðbeiningar fyrir merkjalýsingu er að finna í sjálfri reglugerðinni um Merkjalýsingu nr. 160/2024 en Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur einnig útbúið leiðbeiningar t.d. sniðmát að merkjalýsingu.
Fyrstu skref merkjalýsingar
Yfirleitt hefur landeigandi samband við sveitarfélagið til að kanna stöðu eignar sinnar, sækja upplýsingar um eignina með gagnaöflun og ef ætlunin er að breyta eigninni, fá upplýsingar um möguleika á breytingu eignar. Endar er óheimilt er að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarfélags komi til. Landi er aðeins skipt upp í samræmi samþykkt skipulagsáform, þá deiliskipulag, skv. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í rökstuddum tilfellum getur sveitarstjórn samþykkt uppskiptingu jarða og lands utan þéttbýlis í samræmi við aðalskipulag.
Umsækjandi þarf að sækja um rafrænt hjá Mosfellsbæ til að fá leiðbeiningar um gerð merkjalýsingar og upplýsingar um sína eign. Í framhaldi af því er útbúin merkjalýsing sem send er til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þá samþykkir sveitarfélagið merkjalýsinguna.
Stofnun lóða, uppskipting og sameining lands
Stofnun nýrra lóða er ferli sem getur allnokkurn tíma. Ferlið er mjög mismunandi eftir eignum og getur verið mjög einfalt þar sem allar upplýsingar liggja fyrir en einnig verið flókið þar sem sækja þarf ýmsar upplýsingar og jafn vel búa til upplýsingar með því að mæla upp lóðir og fá samþykktir eigenda.
Liggi fyrir merkjalýsing fyrir upprunaland, skal merkjalýsandi leggja fram merkjalýsingu sem sýnir afmörkun hinnar nýju landeignarinnar. Við uppskiptingu þarf að ákveða hvaða staðföng eiga að vera innan nýju landeignarinnar. Við sameiningu lands þarf að aðgreina ný og gömul eignarmörk.
Með umsókn um uppskiptingu lands mun Mosfellsbær stofna ný landeignanúmer í gegnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS). Landeigandi upprunalands greiðir fyrir hvert landnúmer í samræmi við gjaldskrá HMS hverju sinni. Landeignarnúmerin eru þó ekki stofnuð fyrr en búið er að skila merkjalýsingu inn til HMS.
Merkjalýsendur
Merkjalýsendur verða að hafa sótt námskeið og staðist próf til að fá úthlutað leyfi til að starfa sem merkjalýsandi. Merkjalýsendur mæla merki fasteigna, gera merkjalýsingar og skrá merki í fasteignaskrá.
Staðföng á uppdráttum og í merkjalýsingu
Öll lönd og lóðir þ.e. hvert landeignarnúmer skal hafa tengingu við að minnsta kosti eitt staðfang óháð fjölda mannvirkja í samræmi við reglugerð um skráningu staðfanga nr. 577/2017. Heiti landeignar ræðst svo af þeim staðföngum sem henni tengjast. Staðfang lýsir landfræðilegri staðsetningu, svo sem aðkomu að mannvirki, lóð eða áfangastað. Í staðfangi eru fólgnar upplýsingar um nafn (staðvísir), númer (staðgreinir) og hnit (staðsetning). Staðfang er tegund örnefnis. Heimilisfang er tegund staðfangs.
Heiti staðfanga á nýrri landeign og fjöldi þeirra á alltaf að byggja á fyrirhugaðri notkun landeignarinnar, þ.e. hvort reisa á þar mannvirki, hversu mörg mannvirki og hversu margir inngangar verða að hverju þeirra.
Sveitarfélög annast nafngiftir, hafa umsjón með og bera ábyrgð á skráningu staðfanga innan staðarmarka sveitarfélaga. Hljóta þarf samþykki sveitarfélagsins fyrir skráningu staðfangs, götuheiti eða örnefni fyrir lönd og lóðir.