Bæjarstjórn Mosfellsbæjar staðfesti skipulagsbreytingu Leirvogstunguhverfis þann 29. apríl 2022 þar sem samþykktar voru heimildir flestra lóðarhafa til afnota aðliggjandi bæjarlands í samræmi við uppdrætti og ákvæði afnotasvæða.
Markmið afnotareita
Mikið er af óskilgreindu opnu svæði sem raskast hefur á framkvæmdatíma Leirvogstunguhverfis. Nú hafa verið skilgreind sérstök svæði á bæjarlandinu, sem íbúar aðliggjandi lóða geta nýtt sem viðbót sinna lóða og garða. Heimilt er að rækta reitina, en ekki er heimilt að reisa mannvirki á þessum reitum sem eru óafturkræf. Að öðru leiti gilda skilmálar um frágang lóða í skipulags og byggingarskilmálum hverfisins ásamt byggingarreglugerð nr. 112/2012. Afnotareitum fylgja ekki auknar byggingarheimildir eða nýtingarhlutfall íbúðarhúsalóða.
Mögulegir afnotareitir lóða má sjá á uppdrætti deiliskipulags Leirvogstungu (brúnn litur). Þeir tengjast alltaf aðliggjandi lóð.
Samningar
Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur samþykkt forsendur samninga fasteignaeigenda og lóðarhafa við sveitarfélagið um afnot bæjarlands.
Sótt er um með rafrænum hætti og gögn vistuð í skjalakerfi sveitarfélagsins. Staðfesting mun berast í tölvupósti auk þess sem greiðsluseðill verður sendur í heimabanka. Ekki þarf að þinglýsa samningum.
Umsækjandi þarf að vera þinglýstur eigandi aðliggjandi fasteignar. Ekki er hægt að sækja um aðra reiti en þá sem liggja að fasteign umsækjanda samkvæmt tillögu deiliskipulags og lista hér að neðan. Reitur er leigður í heild sinni og samningar gerðir í samræmi við þær stærðir sem skipulagið gerir ráð fyrir. Ekki er hægt að óska eftir breyttri stærð reita.
Leigutími afnotasamninga gildir að hámarki til 1. janúar 2080, en þó aldrei lengur en til þess dags sem lóðaleigusamningur lóðar gildir til, sem getur verið til allt að 75 ára.
Afnotagjald samnings er eingreiðsla og er um tvo gjaldflokka að ræða, fyrir smærri reiti, undir 50 m² skv. deiliskipulagi er gjaldið kr. 80.000,- en fyrir reiti sem eru stærri en 50 m² er gjaldið kr. 100.000,-. Innifalið í afnotagjaldi og leigu er þjónustugjald og gjald vegna skipulagsvinnu.