Á hverju ári velur Mosfellsbær íþróttakonu og íþróttakarl ársins og heiðrar sitt besta og efnilegasta íþróttafólk.
Íþróttafólk Mosfellsbæjar 2023 var heiðrað við hátíðlega athöfn í Hlégarði fimmtudaginn 11. janúar.
Íþróttafólk Mosfellsbæjar 2023
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri, Hafrún Rakel Halldórsdóttir knattspyrnukona úr Breiðablik, Þorsteinn Leó Gunnarsson handknattleiksmaður í meistaraflokki karla í Aftureldingu og Erla Edvardsdóttir formaður íþrótta- og tómstundanefndar.
Íþróttakona Mosfellsbæjar 2023
Hafrún Rakel Halldórsdóttir knattspyrnukona
Hafrún Rakel er uppalin í Aftureldingu en spilaði með knattspyrnuliði Breiðabliks í efstu deild þar til nýlega og með íslenska kvennalandsliðinu. Hafrún átti gífurlega gott ár og hefur verið lykilmanneskja með liði sínu, margsinnis verið valin í lið umferðar, leikmaður umferðar, leikmaður mánaðar auk þess að vera valin í lið ársins í Bestu deildinni. Hún spilaði með U23 og A landsliði Íslands á árinu, varð Pinatar Cup meistari með A landsliðinu í byrjun árs, skoraði sigurmarkið í landsleik gegn Austurríki í sumar og er nú í A landsliðshópnum sem spilar í Þjóðardeildinni. Á nýju ári hélt Hafrún Rakel út í atvinnumennsku og gekk í raðir danska stórliðsins Bröndby.
Íþróttakarl Mosfellsbæjar 2023
Þorsteinn Leó Gunnarsson handknattleiksmaður
Þorsteinn Leó er handknattleiksmaður í meistaraflokki karla í Aftureldingu sem hampaði bikarmeistaratitli 2023. Hann er burðarás í öflugu liði Aftureldingar og var valinn efnilegasti leikmaður efstu deildar. Þorsteinn Leó fór fyrir U21 árs landsliði Íslands sem vann til bronsverðlauna á Heimsmeistaramótinu 2023. Einnig lék hann fyrstu A-landsleiki sína fyrir hönd Íslands árið 2023. Þorsteinn Leó hefur samið við stórlið Porto í Portúgal og mun leika handknattleik þar á komandi tímabili. Þorsteinn Leó var kjörinn íþróttamaður Aftureldingar 2023.
Þjálfari ársins 2023
Magnús Már Einarsson, þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu hjá Aftureldingu
Magnús sem kláraði sitt fjórða tímabil í sumar sem þjálfari liðsins er uppalinn hjá félaginu og spilaði með því upp alla yngri flokka ásamt meistaraflokki.
Liðið hefur bætt sig frá ári til árs og var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í efstu deild í fyrsta sinn í sögunni á Laugardalsvelli í úrslitum á síðastliðnu tímabili. Einnig bætti liðið markamet deildarinnar og stigamet félagsins í deildinni.
Magnús er metnaðarfullur þjálfari sem er til í að leggja hart að sér til að ná árangri, hann kemur að öllum störfum við rekstur meistaraflokksins og telur ekki eftir sér að aðstoða við viðburði og safna styrkjum.
Afrekslið Mosfellsbæjar 2023
Meistaraflokkur karla í handbolta hjá Aftureldingu
Árangur liðsins á árinu 2023 er stórkostlegur og var mikil lyftistöng fyrir bæjarfélagið þegar liðið varð bikarmeistari í Laugardalshöll með glæsilegum hætti og með miklum stuðningi Mosfellinga sem fylltu höllina.
Stór hluti liðsins eru Mosfellingar sem hafa þroskast og þróast sem íþróttamenn í Aftureldingu. Bikarmeistaratitillinn, sem var sá fyrsti síðan 1999, færði liðinu þátttökurétt í Evrópukeppni bikarhafa. Á Íslandsmótinu hafnaði liðið í 4. sæti deildarkeppninnar og spilaði til undanúrslita á Íslandsmótinu, þar sem liðið féll úr leik eftir hetjulega baráttu fyrir framan 1.500 áhorfendur að Varmá.
Meistaraflokkur karla í handknattleiksdeild Aftureldingar er frábær fyrirmynd fyrir ungt íþróttafólk í Mosfellsbæ.
Sjálfboðaliði ársins 2023
Birna Kristín Jónsdóttir, formaður Aftureldingar
Birna Kristín hefur verið í stjórn Aftureldingar síðan 2015 og setið í formannsstóli frá árinu 2019. Hún lifir og hrærist í íþróttalífinu, þekkir allar deildir innan félagsins vel, er dugleg að mæta á viðburði og hvetjandi fyrir alla. Hún tekur ekki bara þátt sem formaður heldur einnig sem iðkandi og á hliðarlínunni sem móðir iðkanda.
Mikill uppgangur hefur verið hjá Aftureldingu síðan Birna tók við stólnum enda hefur hún ávallt verið til staðar fyrir félagið sitt og haft það leiðarljós að það fái að njóta sín í okkar samfélagi. Hún hefur verið stórhuga og haft mikinn metnað fyrir félaginu í heild og er sannarlega vel að titlinum komin.
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri, Birna Kristín Jónsdóttir formaður Aftureldingar og Erla Edvardsdóttir formaður íþrótta- og tómstundanefndar.
Íþróttafólk fyrri ára
Thelma Dögg Grétarsdóttir, Anton Ari Einarsson og Davíð Gunnlaugsson
2022Thelma Dögg Grétarsdóttir og Guðni Valur Guðnason
2021Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Kristófer Karl Karlsson og Alexander Sigurðsson
2020Erna Sóley Gunnarsdóttir og Ingvar Ómarsson
2019María Guðrún Sveinbjörnsdóttir og Andri Freyr Jónasson
2018Thelma Dögg Grétarsdóttir og Guðmundur Ágúst Thoroddsen
2017Telma Rut Frímannsdóttir og Árni Bragi Eyjólfsson
2016Íris Eva Einarsdóttir og Reynir Örn Pálmason
2015Brynja Hlíf Hjaltadóttir og Kristján Þór Einarsson
2014Telma Rut Frímannsdóttir og Kjartan Gunnarsson
2013Lára Kristín Pedersen og Wentzel Steinarr Ragnarsson Kamban
2012Telma Rut Frímannsdóttir og Kristján Þór Einarsson
2011Nína Björk Geirsdóttir, Sigríður Þóra Birgisdóttir og Kristján Helgi Carrasco
2010Linda Rún Pétursdóttir og Kristján Þór Einarsson
2009