Á hverju ári velur Mosfellsbær íþróttakonu og íþróttakarl ársins og heiðrar sitt besta og efnilegasta íþróttafólk.
Íþróttafólk Mosfellsbæjar 2024 var heiðrað við hátíðlega athöfn í Hlégarði fimmtudaginn 9. janúar.
Íþróttakona Mosfellsbæjar 2024
Erna Sóley Gunnarsdóttir, kúluvarpari
Árið 2024 varð Erna Sóley fyrsta íslenska konan til að keppa í kúluvarpi á Ólympíuleikum, þegar hún tók þátt í leikunum í París. Þar kastaði hún lengst 17,39 metra og endaði í 20. sæti af 31 keppanda. Aðeins fjórir aðrir Íslendingar unnu sér rétt til þátttöku á Ólympíuleikunum í ár. Áður hafði hún keppt á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum innanhúss í Glasgow í mars 2024, þar sem hún varð í 14. sæti.
Erna Sóley setti Íslandsmet í kúluvarpi kvenna sumarið 2024 þegar hún kastaði 17,91 metra á Meistaramóti Íslands og bætti þar með eigið Íslandsmet sem hún setti árið 2021. Erna á einnig Íslandsmetið í kúluvarpi innanhúss. Það setti hún þegar hún kastaði kúlunni 17,92 metra í febrúar 2023.
Erna var í desember valin frjálsíþróttakona ársins 2024 af Frjálsíþróttasambandi Íslands.
Erna hefur lýst yfir metnaði sínum til að vera meðal þeirra bestu í heiminum og stefnir á að keppa á Ólympíuleikunum í Los Angeles árið 2028.
Erna Sóley Gunnarsdóttir.
Íþróttakarl Mosfellsbæjar 2024
Skarphéðinn Hjaltason júdómaður
Skarphéðinn hóf að æfa júdó hjá Júdófélagi Reykjavíkur ellefu ára gamall og er nú, níu árum síðar, orðinn einn besti og öflugasti júdómaður landsins. Hann náði mjög góðum árangri á árinu, varð Íslandsmeistari bæði í -90 kg flokki karla og opnum flokki karla.
Skarphéðinn fékk silfurverðlaun á Norðurlandameistaramótinu í Svíþjóð, bæði í karlaflokki og í U-21 árs flokki karla, og á alþjóðlegu móti í Danmörku, Copenhagen Open, vann hann einnig til silfurverðlauna.
Skarphéðinn var valinn júdómaður ársins 2024 af Júdófélagi Reykjavíkur. Hann er þekktur fyrir mikla vinnusemi og metnað, sem hefur skilað sér í stöðugum framförum og árangri á bæði innlendum og alþjóðlegum vettvangi.
Skarphéðinn Hjaltason.
Þjálfari ársins 2024
Magnús Már Einarsson, þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu hjá Aftureldingu
Magnús tók við sem aðalþjálfari liðsins í nóvember 2019, eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari tvö ár þar á undan.
Undir hans stjórn hefur Afturelding bætt sig ár frá ári og náði hann í september síðastliðnum sögulegum árangri þegar liðið tryggði sér í fyrsta sinn í sögu félagsins sæti í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu karla, eftir sigur gegn Keflavík í úrslitaleik umspilsins. Það þótti mjög viðeigandi að ná þeim árangri á 50 ára afmæli knattspyrnudeildarinnar að komast í Bestu deild karla í fyrsta sinn.
Magnús Már er þekktur fyrir metnað og elju, bæði innan vallar og utan, sem hefur skilað sér í framförum hjá Aftureldingu á undanförnum árum.
Magnús Már Einarsson og Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri.
Afrekslið Mosfellsbæjar 2024
Meistaraflokkur karla í knattspyrnu hjá Aftureldingu
Meistaraflokkur karla í knattspyrnu hjá Aftureldingu er lið ársins í Mosfellsbæ árið 2024 en liðið braut blað í sögu félagsins með því að tryggja sér sæti í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu karla í fyrsta skipti í sögu þess.
Afturelding sigraði Keflavík í úrslitaleik umspilsins í september 2024 og tryggði sér þar með sæti í Bestu deildinni fyrir árið 2025. Liðinu var fyrir mót spáð mikilli velgengni, en úrslitin féllu ekki með liðinu til að byrja með og þegar mótið var hálfnað var Afturelding í neðri hluta deildarinnar.
Liðið og teymið í kringum það missti aldrei trúna og tryggði sér með dugnaði, krafti og góðri spilamennsku sæti í umspili Lengjudeildarinnar. Þar lagði Afturelding fyrst nágrannana í Fjölni áður en liðið vann Keflavík í úrslitaleiknum á Laugardalsvelli.
Árangur liðsins hefur haft jákvæð áhrif á íþróttalíf Mosfellsbæjar og hefur hvatt bæði ungt fólk og aðra íbúa bæjarins til að taka þátt í íþróttum og styðja við knattspyrnuliðið. Þessi árangur var ekki aðeins sögulegur heldur einnig merki um vaxandi getu og metnað hjá Aftureldingu sem íþróttafélagi.
Meistaraflokkur karla í knattspyrnu hjá Aftureldingu.
Sjálfboðaliði ársins 2024
Hanna Símonardóttir
Hanna Símonardóttir, betur þekkt sem Hanna Sím, er mjög mikilvægur hlekkur í því frábæra starfi sem unnið er innan knattspyrnudeildar Aftureldingar. Deildin og félagið allt á henni mikið að þakka og er hún vel kunnug fótboltaáhugafólki á Íslandi fyrir sitt óeigingjarna starf fyrir Ungmennafélagið.
Hanna hefur verið ötull sjálfboðaliði innan Ungmennafélagsins Aftureldingar í næstum þrjá áratugi. Það má segja að hún hafi strax byrjað að láta að sér kveða innan félagsins með dugnaði og hjálpsemi þegar drengirnir hennar hófu að æfa fótbolta hjá félaginu fyrir nær 30 árum, fyrst sem foreldri og seinna meir sem félagsmaður og stjórnarmaður hjá félaginu. Hún var til að mynda meðal forsprakka í að setja Þorrablót Aftureldingar af stað í þeirri mynd sem það er í í dag.
Hanna hefur af mikilli þrautseigju stjórnað Liverpool-skólanum sem haldinn er á sumrin þar sem fleiri en 400 krakkar af landinu öllu koma og æfa undir handleiðslu þjálfara frá Liverpool. Hanna hefur haldið utan um skólann frá upphafi og þeyst um borg og bæ til þess að sækja aðbúnað fyrir skólann og þjálfarana sjálfa. Í fjölda ára hýsti hún þjálfarana undir eigin þaki.
Hanna á stóran þátt í sögulegum árangri meistaraflokks karla í sumar með frumkvæði sínu og eljusemi.
Íþróttafólk fyrri ára
Hafrún Rakel Halldórsdóttir, Þorsteinn Leó Gunnarsson og Magnús Már Einarsson
2023Thelma Dögg Grétarsdóttir, Anton Ari Einarsson og Davíð Gunnlaugsson
2022Thelma Dögg Grétarsdóttir og Guðni Valur Guðnason
2021Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Kristófer Karl Karlsson og Alexander Sigurðsson
2020Erna Sóley Gunnarsdóttir og Ingvar Ómarsson
2019María Guðrún Sveinbjörnsdóttir og Andri Freyr Jónasson
2018Thelma Dögg Grétarsdóttir og Guðmundur Ágúst Thoroddsen
2017Telma Rut Frímannsdóttir og Árni Bragi Eyjólfsson
2016Íris Eva Einarsdóttir og Reynir Örn Pálmason
2015Brynja Hlíf Hjaltadóttir og Kristján Þór Einarsson
2014Telma Rut Frímannsdóttir og Kjartan Gunnarsson
2013Lára Kristín Pedersen og Wentzel Steinarr Ragnarsson Kamban
2012Telma Rut Frímannsdóttir og Kristján Þór Einarsson
2011Nína Björk Geirsdóttir, Sigríður Þóra Birgisdóttir og Kristján Helgi Carrasco
2010Linda Rún Pétursdóttir og Kristján Þór Einarsson
2009