Íþróttafólk Mosfellsbæjar 2022
Anton Ari Einarsson ásamt Andreu og syni þeirra, Grétar og Guðrún, foreldrar Thelmu Daggar, Erla og Leifur úr stjórn íþrótta- og tómstundanefndar, Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri og Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs.
Thelma Dögg Grétarsdóttir
Blakkona var kjörin íþróttakona Mosfellsbæjar 2022.
Thelma Dögg er uppalin í Aftureldingu og var valin íþróttakona Aftureldingar 2021 og 2022. Í nóvember sneri Telma út í atvinnumennsku, til Svíþjóðar þar spilar hún í efstu deild með liði Hylte/Halmstad. Á síðasta leikári var Thelma yfirburðar leikmaður á blakvellinum og var burðarás í liði Aftureldingar sem komst í úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn. Hún vann viðurkenningar fyrir stigahæsti leikmaðurinn í sókn, stigahæsti leikmaðurinn í uppgjöf, hún var besti Díó-inn á leiktíðinni og í draumaliði leiktíðarinnar. Þar að auki var Thelma valin besti leikmaður leiktíðarinnar. Í sumar spilaði Thelma sem fyrirliði íslenska landsliðsins í blaki í undankeppni Evrópumótsins. Thelma er frábær fyrirmynd.
Anton Ari Einarsson
Knattspyrnumaður var kjörinn íþróttakarl Mosfellsbæjar 2022.
Anton býr í Mosfellsbæ og spilaði upp alla yngri flokka Aftureldingar. Árið 2022 varð hann Íslandsmeistari með Breiðablik í Bestu deild karla. Anton hlaut gull hanskann og komst með liðinu í þriðju umferð Evrópukeppninnar. Í haust var Anton valinn í A landslið karla í fjórða skipti. Anton hefur alltaf verið sérlega samviskusamur og duglegur við æfingar og hefur það skilað tveimur bikarmeistaratitlum og þremur íslandsmeistaratitlum á síðustu átta árum. Hann er góð fyrirmynd bæði innan og utan vallar.
Davíð Gunnlaugsson, Golfklúbbi Mosfellsbæjar
Þjálfari ársins 2022.
Davíð Gunnlaugsson, Golfklúbbi Mosfellsbæjar og Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs.
Golfklúbbur Mosfellsbæjar var virkilega sigursæll á liðnu ári undir handleiðslu Davíðs. Klúbburinn eignaðist fjölmarga Íslandsmeistara í öllum aldursflokkum, m.a. Íslandsmeistara karla í höggleik auk þess sem kvennalið GM varð Íslandsmeistari golfklúbba. Davíð hefur leitt þá miklu uppbyggingu sem hefur átt sér stað hjá GM undanfarin ár og á stóran þátt í þeim frábæra árangri sem kylfingar klúbbsins náðu árið 2022 sem og árin á undan.
Meistaraflokkur kvenna hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar
Afrekslið Mosfellsbæjar 2022.
Mynd 1: Eydís Róbertsdóttir, Gabríella Neema Stefánsdóttir, Auður Bergrún Snorradóttir, Heiða Rakel Rafnsdóttir og Arna Rún Kristjánsdóttir.
Mynd 2: Meistaraflokkur kvenna úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar
- Arna Rún Kristjánsdóttir
- Auður Bergrún Snorradóttir
- Berglind Erla Baldursdóttir
- Birna Rut Snorradóttir
- Eva Kristinsdóttir
- Eydís Róbertsdóttir
- Gabríella Neema Stefánsdóttir
- Heiða Rakel Rafnsdóttir
- Hekla Daðadóttir
- Katrín Sól Davíðsdóttir
- Kristín Sól Guðmundsdóttir
- María Eir Guðjónsdóttir
- Nína Björk Geirsdóttir
- Pamela Ósk Hjaltadóttir
- Sara Kristinsdóttir
Meistaraflokkur kvenna hjá GM átti frábært keppnisár. Ungt lið GM varð Íslandsmeistari golfklúbba í efstu deild en 5 af 8 leikmönnum voru undir 18 ára aldri. Með sigrinum fékk GM þátttökurétt á Evrópumóti golfklúbba, þar sem liðið hafnaði í 7. sæti af 18 golfklúbbum. Í stúlknalandsliði Íslands á Evrópumótinu voru 5 stúlkur af 6 sem skipuðu liðið, úr meistaraflokki GM.
Leikmenn úr meistaraflokki GM unnu eftirfarandi Íslandsmeistaratitla árið 2022:
- Íslandsmeistari í höggleik 13-14 ára og Íslandsmeistari í holukeppni 13-14 ára var Pamela Ósk Hjaltadóttir.
- Íslandsmeistari í höggleik 17-18 ára var Berglind Erla Baldursdóttir.
- Íslandsmeistari í holukeppni 17-18 ára var Katrín Sól Davíðsdóttir.
- Stigameistari 17-18 ára var Sara Kristinsdóttir.
- Þá urðu þær Íslandsmeistarar golfklúbba 15-16 ára og Íslandsmeistarar golfklúbba í meistaraflokki.
Í kvennalandsliði Íslands, sem valið var í haust, eru 7 stúlkur úr meistaraflokki GM og er það um 40% af liðinu en þess má geta næsti golfklúbbur á eftir GM á 4 stúlkur í liðinu.
Guðrún Kristín Einarsdóttir, formaður Blakdeildar Aftureldingar
Sjálfboðaliði ársins 2022.
Guðrún Kristín Einarsdóttir, formaður Blakdeildar Aftureldingar og Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri.
Gunna Stína er einn af þeim eldhugum sem Afturelding á og hefur hún staðið vaktina í kringum blakið í Mosfellsbæ. Hún er guðmóðir blaks hér í bæ og hefur með óþreytandi seiglu og elju haldið utan um starfsemina frá byrjun. Án hennar væri deildin ekki að blómstra eins og hún hefur gert.
Frá upphafi hefur markmið Gunnu Stínu verið að kynna blakið fyrir yngri jafnt sem eldri iðkendum. Þetta er verkefni sem hún brennur fyrir og hún er ávallt tilbúin að koma til aðstoðar í hin ýmsu verkefni, stór sem smá. Auk þess að vinna óeigingjarnt starf fyrir blakíþróttina í Mosfellsbæ hefur Gunna Stína unnið fyrir blakið á landsvísu, þar sem hún hefur setið í yngri flokka ráði Blaksambands Íslands og komið þar að uppbyggingu blaks á Íslandi.
Gunna Stína er mikil Aftureldingarkona, ber hag félagsins í heild sinni fyrir brjósti og er óhrædd við að koma skoðunum sínum á framfæri. Hún er fylgin sér og er fyrsta manneskjan á staðinn þegar á þarf að halda og síðust heim. Gunna Stína hefur staðið fyrir, skipulagt og haldið utan um ýmis stór verkefni s.s. hæfileikabúðir Blaksambands Íslands sem haldnar eru á hverju ári í Mosfellsbæ, Öldungamót í Mosfellsbæ, skipulagt æfingabúðir landsliða, haldið utan um Íslandsmót yngri flokka og neðri deilda svo fátt eitt sé nefnt. Öllum þessum verkefnum hefur hún, ásamt sínu fólki í blakdeild Aftureldingar, skilað með miklum sóma og með það að markmiði að allir fari glaðir heim eftir velheppnaðan viðburð. Skólablak er einn af þeim viðburðum sem Gunna Stína hefur átt stóran þátt í að þróa en hugmyndin byrjaði hjá henni og snérist um það hvernig hægt væri að vekja áhuga grunnskólabarna á blaki og búa í leiðinni til skemmtilegan viðburð. Í dag er Skólablakið einn stærsti viðburður blaks á Íslandi, unninn í samvinnu við evrópska blaksambandið, og haldinn út um allt land. Þetta lýsir Gunnu Stínu mjög vel, hún lætur hugmyndir verða að veruleika og fylgir þeim eftir.
Nær alla daga er Gunna Stína að vinna fyrir blakið og stöðugt að leita nýrra leiða til þess að efla íþróttina og sýnileika hennar. Hún krefst einskis fyrir sjálfa sig og er ávallt tilbúin að aðstoða og hjálpa, hvort sem um er að ræða að aðstoða einstaklinginn, liðið eða íþróttina. Hún er drifkrafturinn á bak við árangur Blakdeildar Aftureldingar og óhætt er að segja að fáir, ef nokkrir, hafi unnið eins mikið starf í jafn langan tíma fyrir sitt félag, sína deild og íþróttina í heild. Það er aðdáunarvert að sjá að eldmóðurinn er sá sami og þegar hún kom að verkefninu í fyrsta skipti. Hún hefur haft mikil áhrif á framgöngu íþróttarinnar sem seint verður þakkað nógsamlega fyrir. Guðrún Kristín Einarsdóttir er eldhugi og verðug þess að fá viðurkenningu sem slíkur.