Það var mikið um dýrðir þegar Mosfellsbær bauð íbúa og starfsfólk Skálatúns velkomið í þjónustu Mosfellsbæjar í blíðskaparveðri í Skálahlíðinni þann 3. júlí.
Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri, ávarpaði starfsfólk og íbúa og færði af þessu tilefni fráfarandi framkvæmdastjóra Skálatúns, Þóreyju I. Guðmundsdóttur, blómvönd. Bæjarstjórinn naut liðsinnis bæjarfulltrúa og starfsfólks við að grilla pylsur ofan í gesti og Jógvan Hansen skemmti af sinni alkunnu snilld.
Í Skálahlíð búa 32 íbúar og starfsfólk er rúmlega 100 og því starfa nú vel yfir 900 manns í sveitarfélaginu öllu eftir sameininguna. Búseta og dagþjónusta Skálatúns bætast í hóp annarra starfsstaða á velferðarsviði Mosfellsbæjar sem eru nú orðnir 14. Skálatún hóf starfsemi sína 1954 og starfsfólkið þar býr yfir mikilli þekkingu og reynslu á sviði þjónustu við fatlað fólk. Sigurbjörg Fjölnisdóttir, framkvæmdastjóri velferðarsviðs, segist vera einstaklega ánægð með að fá þennan öfluga hóp starfsfólks yfir til Mosfellsbæjar og hlakkar til samstarfsins á komandi árum. Þá segir hún að með sameiningunni skapist mörg skemmtileg og spennandi tækifæri til áframhaldandi þróunar á þjónustu á komandi árum.
Mikil undirbúningur liggur að baki sameiningunni, enda að mörgu að hyggja við að sameiningu tveggja stofnana. Sigríður Indriðadóttir var fengin til að stýra breytingaferlinu og segir hún ferlið hafa verið einstaklega skemmtilegt samvinnuverkefni stjórnenda og starfsfólks Skálatúns og Mosfellsbæjar. Mosfellsbær leggur mikla áherslu á að halda vel utan um bæði starfsfólk og íbúa í sameiningarferlinu og meðal annars hafa verið haldnir upplýsinga- og vinnufundir með öllu starfsfólki og stjórnendum sem og íbúum og aðstandendum. Á næstu vikum verður unnið áfram í að móta sameiginlega vinnustaðarmenningu á velferðarsviði og má sem dæmi nefna að í lok ágúst er áætlaður sameiginlegur starfsdagur alls starfsfólks á velferðarsviði í Hlégarði.
1. Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri, Ásgeir Sveinsson bæjarfulltrúi, Sigurbjörg Fjölnisdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs og Þóra Hjaltested stóðu vaktina við grillin.
2. Sigurbjörg Fjölnisdóttir og Ólafur Ingi Óskarsson formaður velferðarnefndar.
3. Jógvan og Ólafur Þormar.
4. Undirbúningshópurinn að störfum. Frá vinstri: Þóra Hjaltested bæjarlgmaður, Anna María Axelsdóttir fjármáladeild, Sigurbjörg Fjölnisdóttir framkvæmdastjóri velferðarsviðs, Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri, Sigríður Indriðadóttir breytingastjóri, Hrafnhildur Sigurhansdóttir deildarstjóri launadeildar og Þórey I. Guðmundsdóttir fráfarandi framkvæmdastjóri Skálatúns.
5. - 7. Stemningin í Skálatúni.
Tengt efni
Aukin vetraropnun kaffistofu Samhjálpar
Neyðarkallinn til styrktar björgunarsveitinni Kyndli
Mosfellsbær styrkir Björgunarsveitina Kyndil með því að kaupa Neyðarkallinn 2024.
Bókun samtala hjá velferðarsviði