Fimmtudaginn 25. maí var undirritaður samningur um að Mosfellsbær taki alfarið að sér að annast og þróa áfram þjónustu við íbúa Skálatúns en í dag búa þar 33 einstaklingar.
Skálatún er rekið af IOGT á Íslandi sem hefur ákveðið að ánafna fasteignir og lóð Skálatúns til nýtingar í málefnum barna og fjölskyldna.
Stofnuð verður sjálfseignarstofnun um fasteignir Skálatúns og verður framsal lóðaréttinda til sjálfseignarstofnunarinnar bundið þeirri kvöð að framtíðaruppbygging á svæðinu verði einungis í þágu hagsmuna barna og fjölskyldna auk þess sem frekari takmarkanir eru á framsali landsins.
Þá var skrifað undir viljayfirlýsingu milli mennta- og barnamálaráðuneytis og Mosfellsbæjar sem lýtur að því að stofnanir ríkisins sem sinna málefnum barna, samtök sem vinna í þágu barna og þjónustuaðilar barna, verði staðsett að Skálatúni í nokkurs konar miðstöð barna.
Loks var ritað undir samkomulag um að jöfnunarsjóður yfirtaki skammtímaskuldir Skálatúns og greiði Mosfellsbæ 240 m.kr. viðbótarframlag árlega næstu 10 árin.
,,Við í bæjarstjórn Mosfellsbæjar fögnum því að niðurstaða sé komin í viðræður um framtíðarskipan á rekstri Skálatúns en sú uppbygging sem er ráðgerð á svæðinu mun opna spennandi möguleika á þróun og nýsköpun í þjónustu við börn og fjölskyldur á Íslandi. Í þeim samningum sem hér liggja fyrir er sérstaklega gætt að hagsmunum íbúa Skálatúns og tryggt að þeir njóti þeirrar þjónustu og aðbúnaðar sem þeir eiga rétt á. Öllu starfsfólki Skálatúns verður boðið áframhaldandi starf og er boðið velkomið í starfsmannahóp Mosfellsbæjar“ segir Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar.
Góð samvinna hefur verið um þessi verkefni í bæjarstjórn Mosfellsbæjar sem hélt aukafund í gær og veitti bæjarstjóra einróma heimild til þess að undirrita ofangreinda samninga og viljayfirlýsingu.
Uppbygging fyrir börn og fjölskyldur
Sú uppbygging sem stefnt er að felur í sér að aðilar sem veita börnum og fjölskyldum þjónustu, stofnanir ríkisins, félagasamtök og aðrir aðilar verði staðsettir á sama svæðinu. Markmiðið með því er að auka samstarf og samtal milli aðila, samnýta yfirbyggingu, lækka rekstrarkostnað og bæta aðgengi fyrir börn og fjölskyldur að þjónustu mismunandi aðila á sama stað. Þá stendur einnig til að leita leiða til þess að veita aukna og samþætta þjónustu til þeirra barna sem glíma við fjölþættan vanda og þurfa á miklum stuðningi að halda.
Að sögn Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra, sem hélt fundi með starfsfólki Skálatúns, íbúum og aðstandenum í kjölfar bæjarstjórnarfundarins þá er mikilvægt að vanda sig mjög vel í yfirfærslu þjónustunnar þar sem margir íbúar Skálatúns hafa búið þar nánast alla sína ævi. Það verður verkefni næstu vikna og mánuða að fara yfir einstaklingsbundna þjónustuáætlun fyrir hvern einstakling og vinna að samhæfingu á þjónustu Skálatúns og velferðarsviðs Mosfellsbæjar.
- ibuagatt.mos.isTillaga - þjónusta við íbúa Skálatúns til framtíðar og samningar um nýtingu lands að Skálatúni
- ibuagatt.mos.isSamkomulag milli Skálatúns, Mosfellsbæjar og Jöfnunarsjóðs um yfirtöku Mosfellsbæjar á þjónustu við íbúa Skálatúns - undirritað eintak
- ibuagatt.mos.isSamkomulag milli Skálatúns-ses í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna, Mosfellsbæjar og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga - undirritað eintak
- ibuagatt.mos.isViljayfirlýsing um uppbyggingu í málefnum barna - undirritað eintak
- ibuagatt.mos.isSkipulagsskrá Skálatún - ekki undirrituð 25. maí bíður skipan stjórnarmanna
- ibuagatt.mos.isSamkomulag ses í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna og Skálatúns
Tengt efni
Aukin vetraropnun kaffistofu Samhjálpar
Neyðarkallinn til styrktar björgunarsveitinni Kyndli
Mosfellsbær styrkir Björgunarsveitina Kyndil með því að kaupa Neyðarkallinn 2024.
Bókun samtala hjá velferðarsviði