Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs og Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar, ásamt þeim Sturlu Sigurðssyni, Guðlaugi Hlyni Búasyni, Söndru Björt Pétursdóttur og Katrínu Róbertsdóttur, væntanlegum íbúum, tóku í dag fyrstu skóflustunguna að nýjum sérhönnuðum búsetukjarna fyrir fimm fatlaða íbúa Mosfellsbæjar.
Kjarninn er samvinnuverkefni Mosfellsbæjar, sem mun sjá um rekstur hans, og Landssamtakanna Þroskahjálpar, sem mun byggja íbúðakjarnann. Um er að ræða byggingu upp á tæpa 400m2 þar sem hver íbúð er rétt tæpir 70m2 og verða þær sérhannaðar með þarfir einstaklinganna í huga. Gert er ráð fyrir að byggingin verði tilbúin fyrir árslok 2024 og gætu þá fyrstu íbúar flutt inn fyrir jól.
„Landssamtökin Þroskahjálp fagna í dag, enda tilefni til, á þessum fallega degi og þakka Mosfellsbæ fyrir mjög gott samstarf sem verði vonandi öðrum sveitarfélögum gott fordæmi. Það er okkar einlæga von að komandi íbúum muni líða vel hér og njóti þess að eignast brátt heimili.“ Sagði Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar við þetta tilefni. Í sama streng tók Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar og sagði: „Það er sérstaklega ánægjulegt að eiga í þessu samstarfi við Þorskahjálp sem eru með góða reynslu af sambærilegum verkefnum og hjartað á réttum stað. Það sem gerir þetta enn ánægjulegra er að finna jákvæðnina hjá væntanlegum íbúum og aðstandendum sem taka þátt í þessari skóflustungu með okkur í dag.“
Á myndinni eru: Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar, Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar, og tilvonandi íbúarnir Guðlaugur Hlynur Búason, Katrín Róbertsdóttir, Sturla Sigurðsson og Sandra Björt Pétursdóttir ásamt aðstandendum.
Myndataka: Thule Photo