Mánudaginn 13. janúar var haldinn opinn íbúafundur á vegum Mosfellsbæjar þar sem vinnslutillaga deiliskipulags 1. áfanga Blikastaðalands var kynnt fyrir fullum sal áhugasamra íbúa. Markmið fundarins var að upplýsa íbúa og aðra hagsmunaaðila um þá uppbyggingu sem er í mótun á landi Blikastaða og sóttu tæplega 200 manns fundinn.
Áhersla er lögð á náttúrumiðaða hönnun og er rík áhersla lögð á að styrkja núverandi umhverfi og tryggja gott aðgengi íbúa og gesta að aðliggjandi útivistarsvæðum.
Á fundinum kynnti Jóhanna Helgadóttir, arkitekt hjá Nordic arkitektum, tillöguna ásamt drögum að umhverfismati. Berglind Hallgrímsdóttir, samgönguverkfræðingur hjá Eflu, fór stuttlega yfir samgöngur Blikastaðalandsins, ásamt áhrifum bættra almenningsamganga og tilkomu fyrirhugaðrar Sundabrautar.
Blikastaðaland er eitt stærsta óbyggða land innan höfuðborgarsvæðisins eða um 90 ha að stærð. Samkvæmt áætlunum um uppbyggingu Borgarlínu er gert ráð fyrir að hún liggi um Blikastaðaland með stoppi við Blikastaðabæinn. Bærinn mun öðlast nýtt hlutverk verslunar- og þjónustu á miðsvæði byggðarinnar.
Á fundinum var einnig áþreifanlegt módel af tillögunni kynnt sem gestir gátu rýnt frá öllum sjónarhornum.
Eigandi Blikastaðalandsins er Arion banki sem gerði samkomulag um uppbyggingu landsins við Mosfellsbæ árið 2022. Greiningar, undirbúningur og tillögugerð hefur staðið yfir allt frá árinu 2018. Fjöldi fagaðila hafa komið að vinnu verkefnisins, þar á meðal Alta ráðgjöf, COWI verkfræðistofa, Nordic arkitektar, Efla þekkingarfyrirtæki og landslagsarkitektastofa SLA í Kaupmannahöfn.
Stefnt er að því að klára deiliskipulagið næsta haust og þá verður aftur boðað til íbúafundar og opnað verður fyrir athugasemdir um deiliskipulagið á ný. Íbúar og aðrir áhugasamir eru hvattir til að senda inn ábendingar um vinnslutillöguna en opið er fyrir athugasemdir í skipulagsgáttinni til 10. febrúar nk.