Átta konur og tíu karlar hafa verið tilnefnd af íþrótta- og tómstundanefnd Mosfellsbæjar til íþróttafólks Mosfellsbæjar 2022.
Eins og áður gefst bæjarbúum kostur á, ásamt íþrótta- og tómstundanefnd Mosfellsbæjar, að kjósa íþróttafólk ársins.
Netkosning stendur yfir frá 12. janúar til og með 16. janúar 2023.
Til að kjósa þarf að skrá sig inn á þjónustugátt Mosfellsbæjar með rafrænum skilríkjum og velja flipann „Kosningar“. Velja skal í 1., 2. og 3. sæti í kvenna- og karlaflokki. Kosning er ekki gild nema valið sé í öll sætin.
Íþrótta- og tómstundanefnd Mosfellsbæjar mun síðan velja á milli þeirra sem tilnefnd eru og styðjast við niðurstöðu vefkosningarinnar.
Tilkynnt verður um valið þann 19. janúar 2023.
Aþena hefur orðið Íslandsmeistari í báðum greinum Taekwondo, áður í yngri flokkum en er núna á fyrsta ári í fullorðins flokki. Hún keppti ekki fyrri hluta ársins vegna meiðsla en keppti á Íslandsmeistaramótinu í Poomsae þar sem hún keppti alls í 3 greinum. Hún varð Íslandsmeistari í sínum flokki í einstaklingskeppni kvenna og vann parakeppni í svartabeltisflokki ásamt félaga sínum og varð síðan í öðru sæti í hópakeppninni ásamt félögum sínum í Aftureldingu.
Aþena á framtíðina fyrir sér og það verður spennandi að fylgjast með henni.
Björk er margfaldur Íslandsmeistari í sínum aldursflokki og endurtók leikinn á þessu ári með fullu húsi stiga. Hún er frábær fyrirmynd fyrir aðra keppendur, hvort um sé að ræða í kvenna- eða karlaflokki því ófáir keppendur gefa eins mikið af sér til íþróttarinnar og Björk.
Björk er einn stærsti bakhjarl og styrktaraðili íslenska landsliðsins í íþróttinni sem hún aflar með fjáröflunum og bolasölu.
Björk er jafnframt mjög virk í öllu félagsstarfi og sjálfboðavinnu er kemur að íþróttinni. Situr hún í stjórn tveggja félaga, MotoMos hér í Mosfellsbæ og MSÍ.
Cecilía Rán 19 ára er landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu og var í landsliði Íslands á EM 2021 á Englandi í sumar (spilað 2022).
Þýska stórliðið Bayern Munchen keypti Cecilíu Rán af Everton á Englandi í byrjun ársins, þar sem hún spilaði fyrstu leiki sína bæði í Bundesliga (efsta deild í Þýskalandi) og DFB-Pokal Frauen (bikarkeppnin í Þýskalandi) 18 ára að aldri.
Cecilía er mjög mikil fyrirmynd og setur allt sitt í íþróttina. Hún var íþróttakona Mosfellsbæjar árið 2020.
Rakel tók þátt á Íslandsmóti Aspar 20. febrúar 2022 og lenti þá í 6. sæti af 6 stelpum. Byrjaði hún eftir mótið að leggja meira á sig, æfa heima og horfa á myndbönd af dönsunum til þess að standa sig betur á næsta móti.
Næst keppti hún á Norðurlandamóti Special Olympics þann 21. maí í Danmörku og lenti í 2. sæti í báðum greinum. Þarna sjáum við hversu miklum framförum hún hefur náð á þessu ári.
Rakel er með mjög góða nærveru og samgleðst með öðrum sem er afar mikilvægt í íþróttum.
Sara er öflugur afrekskylfingur úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar og er í landsliðshóp Golfsambands Íslands. Sumarið var sterkt hjá Söru en hún varð stigameistari í flokki 18 ára og yngri og keppti fyrir hönd Íslands á Evrópumóti liða í Oddi. Einnig var Sara hluti af sigurliði þegar sveit Golfklúbbs Mosfellsbæjar sigraði á Íslandsmóti golfklúbba í sumar. Var hún þá valin til að leika fyrir hönd Íslands á Evrópumóti golfklúbba í Slóveníu og náði góðum árangri.
Handboltakona Aftureldingar er Susan Barinas en hún gekk til liðs við Aftureldingu fyrir þremur árum. Susan er mikil fyrirmynd, hún er metnaðargjörn og dugleg að æfa aukalega, góður liðsmaður og félagi, auk þess sem hún er mikill baraáttujaxl og gefst aldrei upp. Hún hefur spilað nánast allar stöður á handboltavellinum síðustu þrjú árin og er alltaf til í gera það sem hún getur til að hjálpa liðinu.
Susan er einstakur karakter sem Afturelding er ríkari af að hafa í sínum röðum.
Susan hefur spilað alla leiki Aftureldingar á þessari leiktíð.
Thelma Dögg er uppalin í Aftureldingu og var valin íþróttakona Aftureldingar 2021 og 2022. Í nóvember sneri Telma út í atvinnumennsku, til Svíþjóðar þar spilar hún í efstu deild með liði Hylte/Halmstad.
Á síðasta leikári var Thelma yfirburðar leikmaður á blakvellinum og var burðarás í liði Aftureldingar sem komst í úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn. Hún vann viðurkenningar fyrir stigahæsti leikmaðurinn í sókn, stigahæsti leikmaðurinn í uppgjöf, hún var besti Díó-inn á leiktíðinni og í draumalið leiktíðarinnar. Þar að auki var Thelma valin besti leikmaður leiktíðarinnar.
Í sumar spilaði Thelma sem fyrirliði íslenska landsliðsins í blaki í undankeppni Evrópumótsins.
Thelma er frábær fyrirmynd.
Viktoría Von er 19 ára og stundar hestamennsku alla daga, allan ársins hring. Árangurinn hjá henni í ár er frábær! Hún varð þrefaldur Mosfellsbæjarmeistari á íþróttamóti Harðar í sumar og sigraði þar af 2 greinar. Hún sigraði A-flokk ungmenna á Gæðingamóti Harðar, var önnur inn á Landsmót hestamanna fyrir hönd Harðar í ungmennaflokki og 5. inn á Landsmót í A-flokki meistara fyrir hönd Harðar. Viktoría Von sótti um 10 mót og komst í úrslit á 8 mótum, alltaf með fleiri en 3 hesta á hverju móti.
Íþróttakarl Mosfellsbæjar 2022
Anton Ari Einarsson knattspyrnumarkmaður býr í Mosfellsbæ og spilaði upp alla yngri flokka Aftureldingar. Árið 2022 varð hann Íslandsmeistari með Breiðablik í Bestu deild karla. Anton hlaut gull hanskann og komst með liðinu í þriðju umferð Evrópukeppninnar. Í haust var Anton valinn í A landslið karla í fjórða skipti.
Anton hefur alltaf verið sérlega samviskusamur og duglegur við æfingar og hefur það skilað tveimur bikarmeistaratitlum og þremur íslandsmeistaratitlum á síðustu átta árum. Hann er góð fyrirmynd bæði innan og utan vallar.
Benedikt er 19 ára gamall og stoltur Harðarfélagi. Hann átti frábæru gengi að fagna á líðandi keppnisári í hestaíþróttum. Hann sigraði Landsmót hestamanna annað skiptið í röð í ungmennaflokki, varð Íslandsmeistari í gæðingaskeiði og vann sigur í tveimur greinum á Reykjavíkurmeistaramótinu. Hann stóð á verðlaunapalli á öllum mótum ársins. Benedikt er fjölhæfur hestamaður og jafnvígur í öllum greinum með frábæra hesta sem ræktaðir eru í Mosfellsdalnum. Benedikt var valinn í U21 landsliðið fjórða árið í röð, hann var sæmdur FT fjöðrinni (reiðmennskuverðlaun Félags tamningamanna). Benedikt var valinn efnilegasti knapi landsins þetta árið af Landssambandi hestamannafélaga. Hann þjálfar tíu hross með vinnu og skóla og fer allur hans tími í hestamennskuna.
Einar varð Íslandsmeistari í motocrossi í ár í MX1 flokk og er þetta í þriðja sinn sem hann verður Íslandsmeistari í þessum flokki. Einar var einn af þremur sem var valin í fyrsta landslið Íslands í motocrossi þegar það var myndað árið 2007 til að taka þátt í Motocross of Nations (MXON). Einar var valinn aftur í íslenska landsliðið árið 2008 og árið 2009. Einari var boðin þátttaka í ár en varð að sitja heima vegna meiðsla.
Einar leggur mikið til íþróttarinnar og hefur hann lyft Grettistaki í að endurvekja enduro og starfar mikið með íþróttaklúbbum á suðvesturhorninu. Hann er góð fyrirmynd og kappsamur.
Emil Þór er að keppa í akstri í Rallycrossi á vegum AÍH og Akstursíþróttafélagi Hafnarfjarðar. Emil varð Íslandsmeistari annað árið í röð, á þessu ári í flokki 1400cc bíla en í flokki unglinga í fyrra. Íslandsmeistaramótaröðin taldi 4 keppnir og sigraði hann þær allar með yfirburðum. Hver keppni eru fjórar lotur og af 16 lotum sumarsins varð hann 15 sinnum í 1. sæti. Hann varð einnig Bikarmeistari í sínum flokki, 1400cc vélarstærð, í 2ja daga bikarmóti í haust, og sigraði hann þar 7 af 8 lotum. Í öllum keppnum ársins hefur hann verið með bestu brautartímana í tímatökum í sínum flokki. Emil er frábær fyrirmynd bæði inni á braut sem utan.
Hafþór hefur verið virkur í mótum á árinu og náð frábærum árangri bæði persónulega og með liði sínu ÍR-PLS. Hafþór varð á árinu Íslandsmeistari einstaklinga, Reykjavíkurmeistari og lenti í 2. sæti á Reykjavík International Games. Í deildinni átti Hafþór hæsta leikinn í karlaflokki með 290 pinna, hann átti hæsta meðaltal 219,33 ásamt því að vera fellukóngur með að meðaltali 6,64 fellur í leik. ÍR-PLS urðu bikar- og deildarmeistarar með hæsta meðaltal í deildinni ásamt því að hljóta Stjörnuskjöldinn.
Ingvar kom til liðs við Aftureldingu í haust og var valinn sundmaður Aftureldingar 2022. Eftir komu hans til Aftureldingar hefur hann æft vel, unnið fyrir sínu og hefur náð frábærum árangri. Á Íslandsmeistaramótinu í 25 metra laug, sem fram fór í nóvember, var hann með 80% bætingu sem er virkilega vel gert fyrir 18 ára sundmann. Hann nældi sér í þrenn verðlaun, 3. sæti í unglingaflokki í 200 metra bringusundi, 2. sæti í opnum flokki í 200 metra bringusundi og var í 3. sæti í boðsundliði Aftureldingar sem náði í brons í 4×50 skriðsund boðsundi blandað.
Kristján Þór er 34 ára gamall kylfingur úr GM. Kristján átti stórkostlegt tímabil 2022 og sýndi að hann er á meðal allra bestu kylfinga landsins. Kristján vann glæsilegan sigur á Íslandsmótinu í golfi í Vestmannaeyjum. Kristján sigraði einnig á lokamóti ársins, Korpubikarnum, á lægsta skori sögunnar á mótaröð GSÍ. Með þeim sigri tryggði Kristján sér stigameistaratitil GSÍ. Kristján er lykilmaður í sterku liði GM sem varð í 3. sæti á Íslandsmóti golfklúbba í efstu deild. Kristján var í haust valinn í karlalandslið Íslands.
Oliver Ormar Ingvarsson átti frábært ár og vann Íslandsmeistaratitilinn utandyra á árinu. Hann var einnig valinn í nokkur landsliðsverkefni og keppti meðal annars í úrslitum á EM innandyra í Slóveníu þar sem hann endaði í 9. sæti með sveigboga karla liðinu en þeir voru slegnir út af Úkraínu í 16 liða úrslitum. Oliver er í 180. sæti á Evrópulista og í 496. sæti á heimslista. Oliver vann einnig gull í sveigboga parakeppni. Hann er jafnframt formaður stærsta bogfimifélags á Norðurlöndum og mjög virkur í að skipuleggja starf félagsins.
Sebastian bjó í Mosfellsbæ og stundaði íþróttir, þar á meðal blak, sem barn í Aftureldingu. Hann kom aftur til félagsins þegar karlaliðið Aftureldingar fór að spila í úrvalsdeild og hefur verið lykilmaður, auk þess sem hann hefur verið fyrirliði liðsins undanfarin ár. Sebastian er ákaflega hollur sínu félagi og er alltaf hægt að treyst á hann.
Á síðasta leikári náði hann þeim árangri að vera valinn í æfingahóp A landslið karla. Sebastian er einstaklega geðgóður maður og hefur lagt mikið á sig fyrir íþrótt sína samhliða námi sínu og vinnu.
Wiktor er aðeins 17 ára að aldri en er þegar meðal sterkustu keppenda Íslands í báðum greinum Taekwondo, poomsae (formum) og sparring (bardaga) en hann er í landsliðinu í bardaga. Það er sjaldgæft að keppendur komnir í unglingaflokk í taekwondo séu jafn framarlega í báðum hlutum íþróttarinnar, bardaga og poomsae, en Wiktor er einn þeirra hæfileikaríku einstaklinga sem hefur afrekað það. Wiktor tók þátt á Norðurlandamóti í sumar en komst ekki á pall þótt hann hafi staðið sig mjög vel. Hann er jafnframt margfaldur Íslands- og bikarmeistari í báðum greinum taekwondo. Wiktor var nýlega valinn taekwondomaður Aftureldingar 2022.
Mynd 1: Aþena Rún Kolbeins
Mynd 2: Björk Erlingsdóttir
Mynd 3: Cecilía Rán Rúnarsdóttir
Mynd 4: Rakel Aradóttir
Mynd 5: Sara Kristinsdóttir
Mynd 6: Susan Barinas
Mynd 7: Thelma Dögg Grétarsdóttir
Mynd 8: Viktoría Von Ragnarsdóttir
Mynd 1: Anton Ari Einarsson
Mynd 2: Benedikt Ólafsson
Mynd 3: Einar Sverrir Sigurðsson
Mynd 4: Emil Þór Reynisson
Mynd 5: Hafþór Harðarson
Mynd 6: Ingvar Orri Jóhannesson
Mynd 7: Kristján Þór Einarsson
Mynd 8: Oliver Ormar Ingvarsson
Mynd 9: Sebastian Sævarsson
Mynd 10: Wiktor Sobczynski
Tilnefningar voru 21 og eins og áður gafst bæjarbúum kostur á, ásamt íþrótta- og tómstundanefnd, að kjósa úr hópi tilnefndra íþróttafólk ársins 2023. Á sama tíma var þjálfari, lið og sjálfboðaliði ársins heiðruð.