Fimmtudagur 19. desember
Rjómalagað lambagúllas með kartöflumús og hrásalati. Kaldur jarðarberjagrautur.
Föstudagur 20. desember
Hægelduð grísasteik með brúnuðum kartöflum, grænum baunum og rjómasósu. Rjómalöguð blómkálssúpa.
Laugardagur 21. desember
Soðin ýsa með soðnum kartöflum, gulrótum og feiti. Grjónagrautur með kanilsykri.
Sunnudagur 22. desember
Ofnsteikt kjúklingasnitsel með steiktum kartöflum, maísbaunum og rjómasósu. Sveppasúpa.
Mánudagur 23. desember
Soðin skata með kartöflum, rófuteningum og hamsatólg. Grjónagrautur.
Þriðjudagur 24. desember
Rjómalöguð gúllassúpa. Brauðbollur og skinkusalat.
Miðvikudagur 25. desember
Kalt hangikjöt með kartöflum, rauðkál, grænar baunir, jafningur og laufabrauð. Eftirréttur.
Fimmtudagur 26. desember
Appelsínugrísasteik með brúnuðum krtöflum, rauðkáli og sinnepssósu. Blandaðir ávextir með rjóma.
Föstudagur 27. desember
Ofnsteiktar farsbollur með kartöflum, soðnu grænmeti og rjómasósu. Brokkolísúpa.
Laugardagur 28. desember
Gufusoðinn lax með soðnum kartöflum, soðnu grænmeti og kaldri sósu. Rjómalagaður grjónagrautur.
Sunnudagur 29. desember
Ofnsteikt grísasnitsel með brúnuðum kartöflum, rauðkáli og rjómasósu. Ís og sósa.
Matseðillinn getur breyst án fyrirvara.
Gott að eldast – ráðgjafaviðtöl
Guðleif Leifsdóttir tengiráðgjafi í verkefninu Gott að eldast verður með fasta viðtalstíma í Brúarlandi á mánudögum kl. 14:00-15:00, einstaklingum að kostnaðarlausu.
Boðið er upp á ráðgjöf um farsæla öldrun, upplýsingar um úrræði í nærsamfélaginu, mikilvægi virkni og þátttöku og markmiðssetningu á efri árum. Einnig boðið upp á fræðslu og ráðgjöf varðandi áskoranir sem fylgja hækkandi aldri, og leiðum til að draga úr einmanaleika og einangrun.
Guðleif er félagsráðgjafi og markþjálfi, hún hefur margra ára reynslu af ráðgjöf til einstaklinga. Hægt er að panta tíma með því að senda tölvupóst á gudleifl@mos.is eða hringja í síma 525-6700.
Í Mosfellsbæ er þjónustuklasi fyrir eldri borgara að Hlaðhömrum 2 við Langatanga. Þar er að finna Eirhamra, 54 öryggisíbúðir reknar af Eir hjúkrunarheimili. Við hlið Eirhamra rekur Eir einnig Hamra hjúkrunarheimili en þar eru 30 rými með fyrsta flokks aðstöðu.
Forstöðumaður Þjónustumiðstöðvar Eirhamra veitir upplýsingar um þjónustuna í síma 566-8060 frá kl. 10:00 – 12:00 alla virka daga.
Eldra fólk sem býr heima en þarf reglulega umönnun eða stuðning getur sótt um að komast í dagdvöl, einn eða fleiri daga vikunnar. Markmið með dagdvöl er að styðja fólk til þess að geta búið sem lengst heima, viðhalda og/eða auka færni, rjúfa félaglega einangrun.
Í dagdvöl er boðið upp á ýmis konar félagsstarf, tómstundariðju og virkni, auk aðstoðar við athafnir daglegs lífs.
Í dagdvölinni er boðið upp á morgunmat, hádegismat og miðdagskaffi.
Greitt er fyrir þjónustuna samkvæmt gjaldskrá.
Að Eirhömrum eru öryggisíbúðir á vegum Eirar þar sem er veitt stuðningsþjónusta og heimahjúkrun. Einnig er þar miðstöð stuðningsþjónustu Mosfellsbæjar, matarþjónusta, félagsstarf og dagdvöl.
Þegar þjónusta frá sveitarfélaginu og heilsugæslunni er fullnýtt og dugar ekki til, er hægt að sækja um færni- og heilsumat sem er forsenda fyrir því að komast inn á hjúkrunarheimili.
Umsókn þarf að berast skriflega frá heilbrigðisstarfsfólki.
Að Hömrum eru 33 hjúkrunarrými.
Eldri borgurum stendur til boða að kaupa máltíðir í þjónustumiðstöðinni Eirhömrum í hádeginu alla virka daga en panta þarf slíkt fyrirfram í síma 566-8060.
Víða á hjúkrunarheimilum og heilbrigðisstofnunum eru í boði tímabundnar hvíldar- eða endurhæfingarinnlagnir fyrir eldra fólk og er hægt að sækja um slíkt í gegnum heilbrigðisstarfsfólk.
Þjónusta
Þjónusta við eldri borgara í Mosfellsbæ miðar að því að þeir geti búið við eðlilegt heimilislíf eins lengi og unnt er. Eldri borgarar eiga rétt á almennri þjónustu sem veitt er á velferðarsviði, í samræmi við lög um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og lög um málefni aldraða nr. 125/1999.
Velferðarnefnd fer með málefni félagsþjónustu í umboði bæjarstjórnar.
Ýmis einkafyrirtæki veita einstaklingum velferðarþjónustu gegn gjaldi. Upplýsingar um þá þjónustu má nálgast hjá þeim fyrirtækjum og hjá velferðarsviði Mosfellsbæjar.
Upplýsingar um hvaðeina sem tengist þjónustu við eldra fólk, réttindum þess og heilsueflingu má nú í fyrsta sinn nálgast á einum stað á vefnum island.is, undir heitinu „Að eldast“.
Þar má nálgast yfirgripsmikla umfjöllun um fjölbreytta þætti er tengjast því að eldast.
Mosfellsbær veitir tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum afslátt af fasteignagjöldum og fráveitugjaldi sem reiknast sjálfkrafa frá skattstjóra.
Akstursþjónustan er ætluð íbúum sem eru 67 ára og eldri, búa í heimahúsi, hafa ekki aðgang að eigin farartæki og eru ófærir um að nota almenningssamgöngur vegna langvarandi hreyfihömlunar.
Greitt er fyrir þjónustuna samkvæmt gjaldskrá.
Upphæð frístundaávísunar fyrir árið 2024 er kr. 11.000.- og er tímabilið frá 1. janúar til 31. desember ár hvert.
Umsækjandi þarf að vera með lögheimili í Mosfellsbæ. Sótt er um frístundaávísunina á Mínum síðum Mosfellsbæjar. Skila þarf inn kvittun fyrir útlögðum kostnaði vegna þátttökugjalda með umsókninni eða í Þjónustuver Mosfellsbæjar, Þverholti 2.
Greiðslur eru lagðar inn á reikning umsækjanda eftir að umsókn og gildri kvittun hefur verið skilað inn. Kvittun skal ekki vera eldri en 6 mánaða. Greitt er út fyrir 15. hvers mánaðar, alla mánuði ársins nema júlí.
Hreyfi- og tómstundatilboð eða námskeið skulu að lágmarki vara í 4 vikur og vera stýrt af viðurkenndum leiðbeinendum eða kennurum.
Skrá sig inn með rafrænum skilríkjum eða Íslykli.
Velja flokkinn „Umsóknir“.
Velja „Aðrar umsóknir“.
Velja „Frístundaávísun 67 ára og eldri“.
Fylla út umsóknina.
Setja greiðslukvittun sem viðhengi við umsóknina. Ef kvittunin er bara til á pappír þarf að fara í Þjónustuver Mosfellsbæjar, Þverholti 2, 2. hæð, og afhenda kvittunina þar.
Smella á hnappinn „Senda umsókn“.
Á Heilsugæslunni í Mosfellsbæ er m.a. í boði sérhæfð ráðgjöf vegna öldrunarmála.
Heilsugæslan að Sunnukrika 3 er opin frá kl. 8–16 virka daga, svarað er í síma 513-6050 á opnunartíma.
Fyrir ráðgjöf og erindi utan opnunartíma má hafa samband við Heilsuveru í síma 1700, opið allan sólarhringinn.
Hlutverk heimahjúkrunar er að styrkja og viðhalda andlegu og líkamlegu heilbrigði fólks og draga úr einangrun, einkennum og afleiðingum sjúkdóma, eins og kostur er.
Umsókn þarf að berast skriflega frá heilbrigðisstarfsfólki.
Hægt er að sækja um heimsendan mat fyrir þá einstaklinga sem ekki eru færir um að annast matseld sjálfir og eru ófærir um að sækja sækja matarþjónustu að Eirhömrum.
Heimsending á matarbökkum er í boði alla daga vikunnar og bætist sendingargjald við máltíðina.
Afpöntun á heimsendingu þarf að berast með a.m.k. dags fyrirvara í s. 897-9561 til að koma í veg fyrir matarsóun og rukkun.
Hægt er að óska eftir lyfjaskömmtun þar sem lyf eru skömmtuð í poka. Pokarnir eru merktir með dagsetningu og tíma. Lyfjaverslanir bjóða þjónustuna gegn gjaldi.
Sótt er um til lyfjaverslunar og læknir sendir lyfseðla þangað. Einnig er hægt að óska eftir að fá lyfin send heim.
Starfsfólk velferðarsviðs Mosfellsbæjar veitir upplýsingar og leiðbeiningar um ýmiss konar réttindamál og félagslegan stuðning.
Þau sem ekki geta séð hjálparlaust um persónulega umhirðu eða heimilishald geta sótt um stuðningsþjónustu. Þjónustan miðast við einstaklingsbundið mat á þjónustuþörf. Leitast er við að veita þá þjónustu, sem viðkomandi er ófær um að annast.
Hlutverk öldungaráðs Mosfellsbæjar er að vera formlegur og milliliðalaus vettvangur samráðs og samstarfs við bæjaryfirvöld um hagsmuni eldri borgara í sveitarfélaginu. Ráðið stuðlar þannig að skoðanaskiptum og miðlun upplýsinga milli eldri borgara og stjórnvalda bæjarins um stefnu og framkvæmd í málefnum sem varða eldri borgara og er bæjarráði, bæjarstjórn og fastanefndum til ráðgjafar í þeim efnum.
Markmið starfsins er að koma í veg fyrir félagslega einangrun og finna þekkingu, reynslu og hæfileikum þátttakenda farveg.
Listsköpun, handmennt, spilamennska, kórstarf, leikfimi, sund og ferðalög eru dæmi um starfsemina.
Opnunartími
Mánudagar kl. 11:00-16:00
Þriðjudagar kl. 11:00-16:00
Miðvikudagar kl. 11:00-16:00
Fimmtudagar kl. 11:00-16:00
Föstudagar kl. 13:00-16:00
Handavinnuleiðbeinandi verður á staðnum alla daga nema föstudaga.
Opnunartími gæti breyst þegar sumarfrí starfsfólks standa yfir.
Nánari upplýsingar
Elva Björg Pálsdóttir (gsm: 698-0090), forstöðumaður félagsstarfs eldri borgara, veitir allar upplýsingar um félagsstarfið og skráningar á námskeið og í ferðir.
Elva er með símatíma alla virka daga frá kl. 13:00-16:00, í síma 586-8014
Félag aldraðra í Mosfellsbæ og nágrenni (FaMos)
Þau sem eru 60 ára og eldri geta sótt um aðild að félaginu. Tilgangur þess er að gæta hagsmuna félaga sinna, sinna tómstunda-, fræðslu- og menningarmálum og vinna að því að tryggja félagslegt og efnahagslegt öryggi eldra fólks.
„Karlar í skúrum“ er staðsett í Skálahlíð 7a og er tómstunda- og handverksstarf fyrir karla. Í boði eru ýmis námskeið auk þess sem opið hús er fyrir alla karla á þriðjudögum frá kl. 10-12.
Mosfellsbær, Kjalarnes og Kjós eru þátttakendur í þróunarverkefni sem er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda „Gott að eldast“ og mun verkefnið standa til ársins 2027.
Í verkefninu er m.a. lögð áhersla á að auka félagslega virkni eldra fólks og draga úr félagslegri einangrun og einmanaleika í gegnum samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu.
Í tengslum við verkefnið hefur verið ráðinn tengiráðgjafi á velferðarsviði Mosfellsbæjar. Hlutverk hans er m.a. að eiga samtal milli félagsþjónustu, heilsugæslu, trúfélaga, sjálfboðaliðasamtaka o.s.frv., að virkja nærumhverfið til að taka betur utan um fólk sem er félagslega einangrað eða einmana og að stíga inn í og finna lausn sem hentar hverjum og einum.
Fyrir akstursþjónustu eldri borgara á vegum Mosfellsbæjar skv. reglum þar um skal einstaklingur greiða 702 kr. fyrir hverja ferð. Fari ferðafjöldi yfir 16 ferðir á mánuði greiðast 1.404 kr. fyrir hverja ferð. Sé þörf fyrir fylgdarmann innheimtir akstursaðili sama gjald fyrir hann og þann sem þjónustunnar nýtur.
2. gr.
Gjaldskráin skal taka breytingum 1. janúar ár hvert í samræmi við breytingu á neysluvísitölu.
Samþykkt á 661. fundi bæjarstjórnar 28. desember 2018.
Upphæð í gjaldskrá þessari gildir frá 1. janúar 2024.
Dagdvöl fyrir eldri borgara
1. gr.
Í samræmi við reglugerð nr. 1216/2008 um daggjöld stofnana sem ekki eru á föstum fjárlögum, sem sett er með stoð í 19. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra með síðari breytingum, skulu þeir sem dagdvalar njóta í Mosfellsbæ greiða:
1.020 krónur á dag skv. 3. mgr. 1. gr. rlg. 1185/2014.
2. gr.
Gjaldskrá þessi er samþykkt á 615. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þann 20. nóvember 2013.
Gjaldskráin tekur breytingum í samræmi við breytingu á reglugerð um daggjöld stofnana og gildir frá 1. janúar 2022.
Heimsending á mat
1. gr.
Gjald vegna heimsendingar fæðis frá íbúða- og þjónustuhúsi að Hlaðhömrum á vegum Mosfellsbæjar er sem hér segir: Heimsending á fæði kr. 327.
2. gr.
Gjaldskrá þessi skal taka breytingum 1. janúar ár hvert í samræmi við breytingu á neysluvísitölu.
3. gr.
Gjaldskrá þessi er samþykkt á 594. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar.
Upphæð í gjaldskrá þessari gildir frá 1. janúar 2024.
Húsaleiga í íbúðum aldraðra
1. gr.
Mánaðarleg húsaleiga í íbúðum aldraðra á vegum Mosfellsbæjar er sem hér segir:
Húsaleiga einstaklingsíbúða kr. 63.089.
2. gr.
Húsaleiga sbr. 1. gr. tekur mánaðarlegum breytingum í samræmi við vísitölu neysluverðs.
3. gr.
Gjaldskrá þessi er samþykkt á 571. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 21. desember 2011.
Gjaldskrá þessi gildir frá 1. janúar 2024.
Námskeiðsgjöld í félagsstarfi aldraðra
1. gr.
Gjald vegna námskeiða í félagsstarfi aldraðra á vegum Mosfellsbæjar er sem hér segir: námskeiðsgjald á kennslustund er 347 kr.
2. gr.
Gjald vegna ljósritunar er 43 kr. á A4 og 86 kr. A3 á blað.
Gjaldskrá þessi skal taka breytingum 1. janúar ár hvert í samræmi við breytingu á neysluvísitölu.
3. gr.
Gjaldskrá þessi er samþykkt á 594. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 22. nóvember 2012 og gildir frá og með 1. janúar 2013.
Upphæð í gjaldskrá þessari gildir frá 1. janúar 2024.
Stuðningsþjónusta
1. gr.
Fyrir stuðningsþjónustu á vegum Mosfellsbæjar skal greiða gjald, sem nemur 2.305 kr. á klukkustund. Elli- og örorkulífeyrisþegar greiði gjald sem nemur 1.062 kr. á klukkustund.
Gjaldskráin skal taka breytingum 1. janúar ár hvert í samræmi við breytingu á neysluvísitölu.
2. gr.
Undanþegnir gjaldskyldu vegna stuðningsþjónustu skulu þeir sem ekki hafa aðrar tekjur en ellilífeyri/örorkulífeyri og óskerta tekjutryggingu.
Lífeyrisþegar greiða aldrei hærra gjald fyrir félagslega heimaþjónustu en sem nemur 75% af tekjum umfram lífeyri, eins og hann er skilgreindur hér að framan.
3. gr.
Fjölskyldunefnd er heimilt að gefa eftir hluta greiðslu fyrir veitta stuðningsþjónustu eða fella greiðslu alveg niður. Skal þá tekið tillit til efnahags og annarra aðstæðna.
4. gr.
Gjaldskrá þessi er sett samkvæmt lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga og gildir frá 1. janúar 2012.
Upphæðir í gjaldskrá þessari, sem er samþykkt af bæjarstjórn Mosfellsbæjar, gildir frá 1. janúar 2024.
Þjónustugjald í leiguíbúðum aldraðra
1. gr.
Leigjendur í leiguíbúðum aldraðra á vegum Mosfellsbæjar greiði mánaðarlega 5.698 kr. þjónustugjald sem mæti kostnaði við þrif á sameign, umhirðu lóðar, hita og rafmagns í sameign, hita í íbúð, öryggiskallkerfis og lyftu.
2. gr.
Gjaldskráin skal taka breytingum 1. janúar ár hvert í samræmi við breytingu á neysluvísitölu.
3. gr.
Gjaldskrá þessi er samþykkt af bæjarstjórn Mosfellsbæjar 3. desember 2014, með heimild í 20. gr. nr 125/1999 um málefni aldraðra, og gildir frá og með 1. janúar 2015.
Upphæð í gjaldskrá þessari gildir frá 1. janúar 2024.