Í apríl 2018 var haldinn opinn nefndarfundur fjölskyldunefndar í Framhaldsskóla Mosfellsbæjar um mótun stefnu í málefnum eldri borgara í Mosfellsbæ og hafa hugmyndir frá þeim fundi varðað gerð stefnu í málaflokknum.
Fengnir voru utanaðkomandi ráðgjafar til að halda utan um fundinn en starfsfólk Mosfellsbæjar tók að sér að vinna úr niðurstöðum fundarins.
Fjölskyldunefnd er ráðgefandi í málaflokknum gagnvart bæjarstjórn og hefur nefndin unnið með stefnuna í drögum og jafnframt falið öldungaráði að veita sitt álit.
Mótun stefnu í málefnum eldri borgara í Mosfellsbæ hefur jafnframt skírskotun til þeirrar stefnumótunar sem fram fór hjá Mosfellsbæ árið 2017 og gildir til ársins 2027. Að þeirri vinnu kom starfsfólk Mosfellsbæjar og kjörnir fulltrúar.
Framtíðarsýn
Mosfellsbær er fjölskylduvænt, heilsueflandi og framsækið bæjarfélag sem setur umhverfið í öndvegi og hefur þarfir og velferð íbúa að leiðarljósi.
Áhersluflokkar í stefnu Mosfellsbæjar eru rétt þjónusta, flott fólk og stolt samfélag.
Undir hverjum áhersluflokki eru þrjár áherslur.
- veitum þjónustu sem mætir þörfum
- erum til staðar fyrir fólk
- þróum samfélagið í rétta átt
Rétt þjónusta – Persónuleg / Skilvirk / Snjöll
Við veitum markvissa og persónulega þjónustu og leitumst við að sjá fyrir þarfir þeirra sem til okkar leita. Skilvirkni einkennir vinnubrögð og við höfum ætíð í huga með hvaða hætti megi spara íbúum og öðrum viðskiptavinum sporin.
Flott fólk – Samstarfsfús / Framsækin / Meðvituð
Við vinnum í þágu samfélagsins og stærstu verkefni næstu ára felast í að auka lífsgæði bæjarbúa og ánægju starfsmanna í stækkandi bæjarfélagi. Það gerum við með því að vera framsækin og nýta félagsauðinn í þágu samfélagsins.
Stolt samfélag – Eftirsótt / Heilbrigð / Sjálfbær
Við styðjum við aðgerðir sem auka heilbrigði, samheldni og samvinnu milli starfsmanna og íbúa. Mosfellsbær er sveit í borg og það viljum við varðveita og búa þannig um hnútana að almenn sátt ríki um þjónustu og verkefni sveitarfélagsins.
Meginhluti starfsemi Mosfellsbæjar snýst um þarfir og velferð íbúa og á það við um öll svið mannlífsins í Mosfellsbæ.
Þannig vill Mosfellsbær vera persónulegur, skilvirkur og snjall þegar kemur að því að veita rétta þjónustu. Í áhersluflokknum flott fólk vill Mosfellsbær vera samstarfsfús, framsækinn og meðvitaður. Þegar kemur að stoltu samfélagi vill Mosfellsbær vera eftirsóttur, heilbrigður og sjálfbær.
Stefna Mosfellsbæjar tekur fyrst og fremst á því hvernig þjónusta er veitt og þegar kemur að þeim þjónustuþáttum sem varða eldri borgara beint skiptir máli að þjónustan sé persónuleg, t.d. þannig að þörfum sé mætt. Þegar kemur að skilvirkni skiptir máli að ákvarðanir séu teknar eins hratt og mögulegt er og segja má að margt í velferðartækni hljóti að mæta áherslum bæjarins um að vera snjall í sinni þjónustuveitingu. Þá skiptir máli þegar kemur að íbúum að bærinn sé samstarfsfús og nýti öll tækifæri til þess að bæta og styrkja samtal við íbúa. Loks skiptir máli að bærinn leggi áherslu á heilbrigði með því að standa vel að heilsueflingu allra aldurshópa svo dæmi séu tekin um áherslur Mosfellsbæjar sem falla vel að þeim aðgerðum sem leiða af stefnu Mosfellsbæjar í málefnum eldri borgara.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Við mótun stefnu eldri borgara voru höfð til hliðsjónar heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og þau verkefni sem falla undir þau.
Heimsmarkmiðin eru 17 talsins með 169 undirmarkmið. Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa skuldbundið sig við að vinna skipulega að innleiðingu markmiðanna. Aðalinntak heimsmarkmiðanna er að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir. Í því felst að markmiðin ná til allra samfélagshópa, á öllum aldri.
Heimsmarkmiðin nálgast málefni aldraðra með margvíslegum hætti og geta þannig stuðlað bæði að virkni og þátttöku aldraðra í samfélaginu. Heimsmarkmiðin eru víðfeðm og ná yfir flest svið opinbers rekstrar. Í júní 2018 samþykkti ríkisstjórn Íslands að forgangsraða 65 af 169 undirmarkmiðum Heimsmarkmiðanna við innleiðingu þeirra hér á landi.
Í framkvæmd hvíla Heimsmarkmiðin á stoðum beggja stjórnsýslustiga á Íslandi, þ.e. ríkis og sveitarstjórnar. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur bent á að 65% af undirmarkmiðum heimsmarkmiðanna verði ekki innleidd án aðkomu sveitarfélaga.
Í ljósi þess að heimsmarkmiðin eru dæmi um langtímastefnumótun þar sem sammælst er um stór meginmarkmið til lengri tíma er æskilegt að taka mið af þeim við mótun langtímastefnu á sveitarstjórnarstiginu.
Markmið
Í stefnu Mosfellsbæjar í málefnum eldri borgara eru fjögur meginmarkmið. Þau eru heilbrigt líf, eflandi umhverfi, virk þátttaka og örugg búseta. Undir hverju markmiði eru nokkrar aðgerðir og eru þær settar fram í forgangsröð.
Við framkvæmd stefnunnar er mikilvægt að á hverjum tíma verði unnið jafnt og þétt að framkvæmd þeirra aðgerða sem styðja við þau markmið sem stefnan snýst um. Framkvæmd stefnunnar er á ábyrgð fjölskyldusviðs og fjölskyldunefnd ber ábyrgð á eftirliti með framkvæmd hennar og kemur með ábendingar á því sviði. Loks ber fjölskyldunefnd ábyrgð á því að endurmeta aðgerðir ef þörf krefur. Öldungaráð fær stefnu í málefnum eldri borgara til umsagnar og er til ráðgjafar við mótun hennar.
Með stefnunni er leitast við að skapa umgjörð í málaflokknum sem er til þess fallin að styðja við málefnasvið eldri borgara og mæta þannig þörfum og tryggja velferð eldri borgara í Mosfellsbæ. Allt eru þetta viðfangsefni og eiginleikar sem þarf að vakta og viðhalda í góðri samvinnu við íbúa á hverjum tíma undir forystu fjölskyldunefndar og starfsfólks fjölskyldusviðs.
1. Heilbrigt líf
Markmið
Eldra fólk hafi góð tækifæri til að stunda heilsusamlegan lífsstíl og hreyfingu og með gott aðgengi að útivistarsvæðum og íþróttamannvirkjum. Unnið verði markvisst að því að efla aðstöðu og hvetja til þátttöku og samveru eldra og yngra fólks í heilsueflingu.
Aðgerðir
- Að víkka út og auka þátttöku eldri borgara í verkefnum á vegum heilsueflandi
samfélags. - Að auka þátttöku eldri borgara í skipulagðri heilsueflingu.
- Að koma á heilsufarsmælingum í samvinnu við heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í Mosfellsbæ.
- Að auka námskeiðahald og efla samvinnu Mosfellsbæjar við FAMOS.
- Að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu.
- Að bjóða upp á úrræði fyrir aldraða með heilabilun.
2. Eflandi umhverfi
Markmið
Í allri stefnumótun Mosfellsbæjar er tekið mið af þörfum eldri borgara, virðing borin fyrir þekkingu, reynslu, skoðunum og sjálfsákvörðunarrétti þeirra og þannig stuðlað að heildrænni þjónustu. Eldra fólk hafi greiðan aðgang að byggingum og samgöngum í Mosfellsbæ þannig að umhverfið takmarki ekki möguleika þeirra sem eru með færniskerðingu.
Aðgerðir
- Að vinna að fjölgun íbúða sem henta þeim sem búa við færniskerðingu, bæði á
almennum markaði og í samvinnu við fyrirtæki í velferðarþjónustu svo sem í gegnum skipulag og með áherslum í húsnæðisstefnu. - Að vinna að verkefnum þar sem tekið verði mið af hugmynda- og aðferðarfræði verkefnisins „aldursvænar borgir“ sem byggir á stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
- Að framkvæma reglulega viðhorfskönnun um óskir 60 ára og eldri fyrir framtíðarbúsetu og þjónustu.
- Að fjölskyldusvið og umhverfissviðs vinni reglulega úttekt á ferlimálum og á þeim grunni framkvæmdaáætlun á sviði ferlimála.
- Að almenningssamgöngur og akstursþjónusta mæti þörfum eldri borgara.
3. Virk þátttaka
Markmið
Eldra fólk eru virkir þátttakendur í samfélaginu og fá tækifæri til að efla tengsl sín á milli, sem og við fjölskyldu, stunda fjölbreytt félagsstarf og með gott aðgengi að upplýsingum og margvíslegri þjónustu, óháð efnahag. Upplýsingum um félagsstarf eldri borgara er miðlað með markvissum hætti til að ná megi til flestra.
Aðgerðir
- Að vinna að verkefnum sem eru til þess fallin að ná til þeirra eldri borgara sem eru félagslega einangraðir.
- Að stuðla að þátttöku eldri borgara í hóptímum tengdum félagsstarfi og auka þátttöku í námskeiðum.
- Að könnun á áhugasviði og þörfum fari fram með reglubundnum hætti.
- Að stuðla að því að frístundaávísanir verði nýttar sem hvati til aukinnar virkni.
- Að hafa frumkvæði að og þróa samstarf við stofnanir, félög og fyrirtæki um heilsueflingu og félagsstarf.
4. Örugg búseta
Markmið
Eldra fólki er gert kleift að búa við öryggi og sem lengst í heimahúsi með því að veita viðeigandi stuðning og einstaklingamiðaða þjónustu með áherslu á forvarnir, endurhæfingu og að nýta velferðartækni til að leggja grunn að virkni eldri borgara og lífsgæðum. Eldri borgarar ráða sér sjálfir og öll aðstoð skal taka mið af því að fólk fái tækifæri til að viðhalda færni sinni og lifa því lífi sem það kýs.
Aðgerðir
- Að mæta þörfum á grundvelli formlegs mats og styðja við búsetu í heimahúsi með því að veita samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu.
- Að nýta stafræn samskipti til að auðvelda og styðja við virka þátttöku og sjálfstæði.
- Að nýta velferðartækni til að þróa þjónustuna og stuðla að umbótum.
- Að endurhæfing verði í auknum mæli veitt í heimahúsi.
- Að leggja áherslu á fræðslu starfsfólks sem sinnir þjónustu við eldri borgara og þar á meðal í samskiptum við heilabilaða.