Reglur Mosfellsbæjar um stuðningsþjónustu.
I. kafli – Almennt um stuðningsþjónustu
1. gr. Lagagrundvöllur
Í reglum þessum er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita, sbr. 25.- 27. gr. og X. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga um málefni aldraðra nr. 125/1999.
2. gr. Markmið
Markmið stuðningsþjónustu er að leiðbeina, styðja og þjálfa notendur sem þurfa, aðstæðna sinna vegna, á stuðningi að halda við athafnir daglegs lífs og heimilishald og til þess að geta búið heima, bjargað sér sjálfir og verið félagslega virkir. Stuðningurinn byggist fyrst og fremst á þeim markmiðum sem notandi setur sér til að ráða við daglegt líf.
3. gr. Stuðningur
Stuðningsþjónusta samkvæmt reglum þessum er veitt á grundvelli 1. mgr. 26. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.
Stuðningsþjónusta er til handa þeim sem búa á eigin heimili og þurfa stuðning vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags eða veikinda. Stuðningsþjónusta samkvæmt reglum þessum er veitt bæði innan heimilis og utan.
Með stuðningsþjónustu í reglum þessum er átt við eftirfarandi stuðning:
a) Stuðningur við athafnir daglegs lífs, svo sem við að sinna persónulegu hreinlæti, klæðast/hátta og hafa eftirlit með næringu og lyfjainntöku. Auk þess getur stuðningur verið veittur með símtölum og/eða skjáheimsóknum.
b) Félagslegur stuðningur sem miðar einkum að því að rjúfa félagslega einangrun og hefur það markmið að styðja og hvetja notanda til félagslegrar þátttöku svo sem í félagsstarfi.
c) Þjálfun endurhæfingarteymis, í tengslum við samþætta heimaþjónustu, í heimahúsi sem veitt er tímabundið og byggir á markmiðum sem notandi setur sér og eru honum mikilvæg til að ráða við daglegt líf.
d) Stuðningur við heimilishald er stuðningur við þau verk sem þarf að leysa af hendi á heimili notanda, svo sem aðstoð við létt heimilisþrif skv. mati, svo hann geti búið heima. Auk þess er veittur stuðningur við að nýta velferðartækni sem auðveldar notanda heimilishald og starfsfólki að veita þjónustuna.
e) Heimsending á mat er fyrir þá notendur sem hafa ekki tök á að borða í þjónustumiðstöðinni að Eirhömrum og/eða geta ekki annast matseld sjálfir.
Leitast er við að koma til móts við einstaklingsbundnar þarfir hvers og eins. Notandi skal vera á heimilinu þegar stuðningur er veittur og taka þátt í þeim verkum sem leysa þarf af hendi, eftir því sem kostur er. Ef aðstæður eru með þeim hætti að notandi getur ekki verið til staðar getur stuðningur við heimilishald farið fram gegn skriflegu samþykki notanda.
Við veitingu stuðnings skal leitast við að nýta stafrænar og tæknilegar lausnir. Skal það háð samráði við viðkomandi einstakling.
II. kafli – Skilyrði fyrir stuðningsþjónustu
4. gr.
Skilyrði fyrir því að umsókn um stuðningsþjónustu verði samþykkt
Umsækjandi skal uppfylla öll eftirtalin skilyrði til að fá stuðningsþjónustu samkvæmt reglum þessum.
a) Umsækjandi skal vera orðinn 18 ára. Ef umsækjandi er fatlaður og hefur mjög sértækar stuðningsþarfir vísast til reglna sveitarfélags um stoð- og stuðningsþjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og geta þær komið til viðbótar við reglur þessar.
b) Umsækjandi skal eiga lögheimili í Mosfellsbæ þegar sótt er um og meðan þjónusta er veitt.
c) Umsækjandi skal vera metinn í þörf fyrir stuðningsþjónustu samkvæmt 7. gr. reglna þessara.
d) Umsækjandi skal búa í sjálfstæðri búsetu. Einstaklingar, sem dveljast á sjúkrahúsi/eru innlagðir á spítala, búa á hjúkrunarheimili eða stofnun þar sem greidd eru daggjöld frá ríkinu, eiga ekki rétt á þjónustu samkvæmt reglum þessum.
III. kafli – Umsóknir og mat
5. gr. Umsókn
Sækja skal um stuðningsþjónustu með rafrænum hætti á mínum síðum Mosfellsbæjar eða í gegnum þjónustugátt island.is. Einnig er hægt að sækja um í gegnum pappírsform ef ekki er möguleiki að sækja um rafrænt og fást eyðublöð hjá þjónustuveri Mosfellsbæjar.
Beiðnir um stuðning geta einnig borist rafrænt frá starfsfólki heilbrigðisþjónustu og endurhæfingaraðilum.
Þegar beiðni berst skal starfsfólk sveitarfélags hafa samband við viðkomandi og meta þörf fyrir stuðning.
6. gr. Fylgigögn með umsókn
Með undirritun á umsókn er umsækjandi upplýstur um heimild sveitarfélags til að kalla eftir nauðsynlegum gögnum frá starfsfólki heilbrigðisþjónustu svo hægt sé að afgreiða umsóknina.
Ef umsækjandi sækir um undanþágu frá gjaldskyldu vegna stuðnings við heimilishald er hann upplýstur um heimild sveitarfélags til að afla gagna frá Tryggingastofnun ríkisins og skattyfirvöldum.
7. gr. Mat á stuðningsþörf
Umsóknir um stuðningsþjónustu eru metnar og þeim forgangsraðað, skv. fylgiskjali 1, af móttöku- og matsteymi að teknu tilliti til niðurstöðu samræmds skimunartækis á landsvísu, liggi þær fyrir.
Haft er samband við umsækjanda að jafnaði innan fimm virkra daga frá því að umsókn berst.
Mat á stuðningsþörf fer fram í samvinnu við umsækjanda og er það framkvæmt á heimili umsækjanda. Við matið er tekið tillit til markmiða og þarfa umsækjanda fyrir stuðning, líkamlegs og andlegs heilsufars, félagslegrar virkni, styrkleika, félags- og fjölskylduaðstæðna og færni hans til að sinna athöfnum daglegs lífs.
Þegar aðstoð við heimilishald er metin og fleiri fullorðnir einstaklingar búa á heimilinu skal metið hvort þeir séu færir um að annast heimilishaldið. Mat á stuðningsþörf nær einnig til möguleika á að nýta tækni, hjálpartæki og/eða þess að breyta verklagi í athöfnum daglegs lífs með tilliti til nýrrar tækni kjósi umsækjandi það. Við mat á stuðningsþörf skal taka mið af fyrirliggjandi matstæki.
Við mat á stuðningsþörf er horft til heildaraðstæðna umsækjanda og skipulags daglegs lífs. Markmiðið er að þjálfa og styðja umsækjanda til að leita bestu mögulegu lausna við heimilishald og athafnir daglegs lífs, til þess að hann geti búið heima, bjargað sér sjálfur og verið félagslega virkur. Stuðningur byggist fyrst og fremst á þeim markmiðum sem notandi setur sér til að ráða við daglegt líf. Við forgangsröðun umsókna skal líta til flokkunar á fylgiskjali 1 með reglum þessum.
Þegar mat á stuðningsþörf hefur verið framkvæmt er umsóknin tekin fyrir á fundi móttöku- og matsteymis og þar er tekin ákvörðun um innihald, umfang og eðli þess stuðnings sem veittur er.
Umsækjandi fær svar þar sem fram kemur hvernig umsókn hans hefur verið afgreidd. Þegar umsókn um stuðningsþjónustu hefur verið samþykkt af móttöku- og matsteymi er gerð stuðningsáætlun og stuðningur getur hafist.
Þegar sérstakar aðstæður krefjast þess, s.s. við útskrift af spítala með skömmum fyrirvara, getur verið heimilt að hefja stuðning þótt formlegu samþykktarferli sé ekki lokið.
Þegar um er að ræða alvarleg veikindi skal stuðningurinn ætíð metinn, skipulagður og samhæfður með fagaðilum heimahjúkrunar í samræmi við þarfir notanda.
Sé niðurstaða mats sú að aðstæður umsækjanda séu ekki með þeim hætti að þörf sé á stuðningi eða umsækjandi sé í þörf fyrir umfangsmeiri stuðning en reglur þessar kveða á um, ber að synja umsókninni.
8. gr. Stuðningsáætlun
Áður en stuðningurinn hefst skal gert samkomulag um stuðning, þ.e. stuðningsáætlun, með notanda. Stuðningur byggir ætíð á skýrum markmiðum og árangur er metinn reglulega.
Í stuðningsáætlun kemur eftirfarandi fram:
- Markmið notanda með stuðningi og hvernig honum skuli náð.
- Hvaða stuðning er um að ræða og hvernig hann skuli veittur.
- Gildistími samþykktar.
- Notkun lykla.
Stuðningsáætlun skal unnin í samvinnu við notanda. Náist ekki samkomulag um umfang og fyrirkomulag stuðnings skal málinu vísað aftur til móttöku- og matsteymis sem leggur faglegt mat á viðkomandi stuðningsáætlun með hliðsjón af mati á stuðningsþörf umsækjanda. Tryggja skal að notandi geti komið sínum sjónarmiðum á framfæri á þann hátt sem hentar viðkomandi.
Móttöku- og matsteymi er skipað þverfaglegum hópi sérfræðinga/fulltrúa félags- og heilbrigðis frá endurhæfingarteymi, heimahjúkrun og stuðningsþjónustu.
9. gr. Forgangsröðun umsókna
Fullnægi umsækjandi skilyrðum 4. gr. reglna þessara raðast umsóknir í forgangsröð með hliðsjón af mati á stuðningsþörf umsækjanda, sbr. fylgiskjal 1 með reglum þessum um forgangsröðun á stuðningsþjónustu.
Sé ekki unnt að hefja stuðning um leið og umsókn er samþykkt skal tilkynna umsækjanda um ástæður þess, forgangsröðun umsóknar hans og hvenær áætlað er að stuðningur geti hafist, með hliðsjón af forgangsröðun.
IV. kafli – Framkvæmd
10. gr. Gjaldtaka
Greitt er fyrir stuðningsþjónustu, þ.e. stuðning við heimilishald, sbr. d. liður 3. gr. og heimsendan mat samkvæmt gildandi gjaldskrá Mosfellsbæjar um stuðningsþjónustu.
Heimilt er að sækja um undanþágu frá gjaldskyldu hvað varðar aðstoð við heimilishald ef umsækjandi fær aðeins tekjur samkvæmt framfærsluviðmiði Tryggingastofnunar ríkisins eða þar undir og skal í slíkum tilfellum skila inn staðfestu skattframtali umsækjanda.
11. gr. Hvenær stuðningurinn er veittur
Almennt er stuðningsþjónusta veitt á dagvinnutíma á virkum dögum. Um kvöld og helgar er veittur stuðningur við nauðsynlegar athafnir dagslegs lífs.
12. gr. Umfang stuðnings
Stuðningur samkvæmt reglum þessum er veittur í samræmi við einstaklingsbundnar þarfir. Ákvörðun um stuðningsþjónustu felur í sér að stuðningur sé að jafnaði veittur í tiltekinn fjölda skipta í mánuði eða í viku hverri á grundvelli mats á stuðningsþörfum í samræmi við 5. mgr. 26. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.
Þegar um er að ræða þjálfun eða endurhæfingu getur stuðningur verið umfangsmeiri og veittur þéttar í skemmri tíma.
13. gr. Endurmat
Þegar færni notanda til að sinna athöfnum daglegs lífs eða félags- og fjölskylduaðstæður breytast skal endurmeta stuðningsþörf. Almennt skal endurmeta þörf fyrir stuðning eigi sjaldnar en á 12 mánaða fresti. Þar sem fyrirsjáanlegt er að þörf fyrir stuðning verði langvarandi, skal fara fram endurmat á 24 mánaða fresti. Þegar um þjálfun eða endurhæfingu er að ræða fer fram símat á árangri endurhæfingar.
14. gr. Breyttar aðstæður
Notanda ber að upplýsa sveitarfélag um breytingar á högum sínum sem áhrif kunna að hafa á fyrirliggjandi mat á þeim. Ef um er að ræða verulegar breytingar eftir að umsókn hefur verið samþykkt er Mosfellsbæ heimilt að endurskoða gildistíma samþykkis og stuðningsáætlun.
V. kafli – Ýmis ákvæði
15. gr. Kostnaður
Notanda ber að greiða fyrir sjálfan sig allan þann kostnað sem hlýst af því þegar félagslegur stuðningur er veittur utan heimilis. Sveitarfélag endurgreiðir starfsmanni útlagðan kostnað hans vegna félagslegs stuðnings. Útlagður kostnaður starfsmanns skal tengdur þeim markmiðum sem sett eru í stuðningsáætlun.
16. gr. Ferðir
Meginreglan er sú að almenningssamgöngur séu notaðar þegar félagslegur stuðningur er veittur utan heimilis.
17. gr. Lyklar notenda
Ef starfsmaður þarf lykil að heimili notanda skal lykill geymdur á starfsstöð stuðningsþjónustu. Kveðið skal á um það í stuðningsáætlun og haldin skal skrá yfir notkun lykilsins. Sama gildir um raflása.
18. gr. Fjármunir notenda
Starfsmönnum er óheimilt að fara með fjármuni notenda. Starfsmanni er hins vegar heimilt að styðja notanda til þess að panta nauðsynjavörur frá netverslunum án þess að fara með fjármuni hans.
19. gr. Vinnuaðstæður
Aðstæður á heimilum skulu vera í samræmi við lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 og skal því gætt fyllsta öryggis og góður aðbúnaður tryggður.
Skapist þær aðstæður inni á heimili notanda að aðbúnaði og/eða öryggi starfsfólks sé ógnað, t.d. vegna, áreitni, ógnandi hegðunar, óreglu eða dýrahalds, þarf tafarlaust að gera viðeigandi ráðstafanir og getur þurft að fresta stuðningi á meðan unnið er í málinu og úrbætur gerðar. Heimilt er að fella niður þjónustu þar til viðeigandi lausn finnst. Starfsmönnum er óheimilt að reykja inni á heimilum notenda og skal notandi ekki reykja á meðan starfsmenn eru inni á heimilinu. Sama á við um notkun á rafrettum.
VI. kafli – Málsmeðferð
Um málsmeðferð gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ákvæði XVI. og XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.
20. gr. Könnun á aðstæðum
Kanna skal aðstæður umsækjanda svo fljótt sem unnt er eftir að umsókn hans um stuðningsþjónustu hefur borist. Sama á við ef sveitarfélagi berast upplýsingar um nauðsyn á aðstoð með öðrum hætti. Sveitarfélag skal taka ákvörðun í máli svo fljótt sem unnt er og tryggja að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin.
21. gr. Samvinna við umsækjanda
Við meðferð umsóknar, öflun gagna og ákvarðanatöku skal leitast við að hafa samvinnu og samráð við umsækjanda eftir því sem unnt er en að öðrum kosti við aðstandendur hans eftir því sem við á.
22. gr. Endurskoðun
Rétt til stuðningsþjónustu má endurskoða hvenær sem er. Meta skal hvort umsækjandi stuðningsþjónustu fullnægi skilyrðum reglna þessara og hvort breytingar sem orðið hafa á aðstæðum umsækjanda og/eða annarra heimilismanna hafi áhrif á rétt hans og umfang þjónustu.
23. gr. Rangar eða villandi upplýsingar
Ef sannreynt er við meðferð máls að upplýsingar sem umsækjandi hefur veitt eru rangar eða villandi, stöðvast afgreiðsla umsóknarinnar á meðan umsækjanda er gefið tækifæri á að leiðrétta eða bæta úr annmörkum. Ef umsókn um stuðningsþjónustu hefur verið samþykkt og í ljós kemur síðar að hún var byggð á röngum eða villandi upplýsingum af hálfu umsækjanda getur það leitt til afturköllunar ákvörðunar.
24. gr. Varðveisla gagna, trúnaður og aðgangur að gögnum
Málsgögn er varða persónulega hagi einstaklinga skulu varðveitt á öruggan hátt í samræmi við lög um opinber skjalasöfn, nr. 77/2014, skjalavistunaráætlanir og reglur sveitarfélags
Starfsmenn eru bundnir þagnarskyldu um málefni er leynt eiga að fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Starfsmönnum er óheimilt að rjúfa trúnað nema að fengnu samþykki viðkomandi. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
Umsækjandi getur óskað eftir aðgangi að fyrirliggjandi gögnum er varða hann sjálfan. Við mat á því hvaða gögnum verður miðlað skal meðal annars litið til ákvæða persónuverndarlaga, upplýsingalaga auk annarra laga og reglna sem kunna að eiga við hverju sinni. Vinnsla mála og varðveisla gagna byggist á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018. Upplýsingar um vinnslu persónuupplýsinga má finna í persónuverndarstefnu sveitarfélagsins.
25. gr. Leiðbeiningar til umsækjanda
Við afgreiðslu umsóknar skal starfsfólk velferðarsviðs Mosfellsbæjar bjóða umsækjanda ráðgjöf ef þörf er á og veita upplýsingar og leiðbeiningar um réttindi sem hann kann að eiga annars staðar. Þá skal starfsmaður einnig upplýsa umsækjanda um þær skyldur sem kunna að hvíla á honum vegna framkvæmdar samkvæmt reglum þessum.
26. gr. Heimildir til ákvarðana samkvæmt reglum þessum
Starfsfólk velferðarsviðs Mosfellsbæjar tekur ákvarðanir samkvæmt reglum þessum í umboði sveitarfélagsins.
27. gr. Niðurstaða og rökstuðningur synjunar
Kynna skal niðurstöðu umsóknar skriflega svo fljótt sem unnt er. Sé umsókn synjað skal umsækjandi fá svar þar sem vísað er með skýrum hætti til viðeigandi lagaákvæða og/eða ákvæða í reglum þessum og honum leiðbeint um heimild til að óska rökstuðnings fyrir synjun.
Upplýsa skal umsækjanda um rétt hans til að fara fram á að velferðarnefnd Mosfellsbæjar taki umsóknina til meðferðar en slík beiðni skal berast nefndinni innan fjögurra vikna frá því að umsækjanda barst vitneskja um ákvörðun.
28. gr. Heimild velferðarnefndar til að veita undanþágu frá reglum þessum
Velferðarnefnd hefur heimild til að veita undanþágu frá reglum þessum skv. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga ef sérstakar málefnalegar ástæður liggja fyrir. Aðstoð í formi stuðningsþjónustu getur hafist á grundvelli ákvörðunar velferðarsviðs þó að mál sé til meðferðar hjá velferðarnefnd.
Ákvörðun velferðarnefndar skal kynnt umsækjanda svo fljótt sem unnt er og um leið skal honum kynntur réttur hans til málskots til úrskurðarnefndar velferðarmála.
29. gr. Kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála
Umsækjandi getur kært ákvörðun velferðarnefndar til úrskurðarnefndar velferðarmála, sé um synjun að ræða. Skal það gert innan þriggja mánaða frá því að umsækjanda var kunngerð ákvörðun velferðarnefndar.
30. gr. Gildistaka
Reglur þessar, sem voru samþykktar í velferðarnefnd 10.12.2024 og staðfestar í bæjarstjórn 8.1.2025, taka gildi við birtingu í Stjórnartíðindum. Jafnframt falla úr gildi reglur Mosfellsbæjar um stuðningsþjónustu frá 9.5.2022 sem birtar voru í Stjórnartíðindum.
Bráðabirgðaákvæði I
Umsóknir sem samþykktar voru í gildistíð eldri reglna halda gildi sínu í allt að 12 mánuði eftir gildistöku reglna þessara, eða þar til ákvörðun liggur fyrir. Á þeim tíma fer, eftir atvikum, fram endurmat á umsóknum eða þær falla úr gildi ef ekki er lengur þörf fyrir stuðninginn.
Fylgiskjal 1
Forgangsröðun samkvæmt reglum Mosfellsbæjar um stuðningsþjónustu
Við mat á forgangi er byggt á eftirfarandi matsviðmiðum og litið til eftirfarandi atriða þegar metið er hversu brýn þörf er fyrir stuðning:
- Færni, getu og heilsufar
- Félagslegra aðstæðna og félagslegs tengslanet
- Samfélagsþátttöku og virkni
- Hvaða afleiðingar töf á veitingu á stuðningi hefur fyrir umsækjanda
- Annars stuðnings sem viðkomandi nýtur
Skilgreiningar á þjónustuþáttum:
Stuðningur við athafnir daglegs lífs, sem tekur mið af þörfum notanda. Auk þess er um að ræða stuðning við að útvega hjálpartæki, nýta velferðartækni o.fl.
Stuðningur við heimilishald er stuðningur við þau verk sem þarf að leysa af hendi á heimili notanda svo hann geti búið heima. Auk þess er veittur stuðningur við nýta velferðartækni sem auðveldar notanda heimilishald og starfsfólki að veita þjónustuna.
Félagslegur stuðningur sem miðar einkum að því að rjúfa félagslega einangrun og hefur það markmið að styðja og hvetja notanda til félagslegrar þátttöku. Félagslegur stuðningur er einnig veittur þegar um er að ræða alvarleg veikindi og aðstæður eru með þeim hætti að viðkomandi getur búið heima en markmiðið er að létta álagi af heimilinu.
Flokkur 1
Þjónusta hefst strax og hefur forgang. Má ekki falla niður. Aðstæður einstaklings eru með þeim hætti að veita þarf stuðning tafarlaust, ýmist vegna langvarandi stuðningsþarfa eða þegar einstaklingi er hætta búin, alvarleg áföll verða eða veikindi koma upp.
Forsendur:
- Þau sem þurfa daglega aðstoð og eftirlit við athafnir daglegs lífs, heimilishald og félagslegan stuðning.
- Þau sem þurfa aðstoð og eftirlit með inntöku lyfja.
- Þau sem hafa fengið samþykkt færni- og heilsumat.
Flokkur 2
Mikilvæg þjónusta, ef þjónusta fellur niður þarf að bæta viðkomandi það upp sem allra fyrst. Aðstæður einstaklings eru með þeim hætti að töf á veitingu stuðnings hefur miklar afleiðingar í för með sér eða grípa þarf inn í aðstæður sem fyrst í forvarnarskyni. Viðeigandi stuðningur er til staðar og mikilvægt er að viðhalda honum.
Forsendur:
- Þau sem þurfa á reglulegri þjónustu að halda.
- Þau sem þurfa eftirlit, aðstoð og mikla hvatningu við athafnir daglegs lífs eða heimilishald.
- Þau sem eru félagslega einangruð.
Flokkur 3
Reglubundin þjónusta. Bið getur orðið á að þjónusta hefjist. Ekki er æskilegt að þjónustan falli niður oftar en í tvö skipti samfellt. Einstaklingur þarf stuðning við heimilishald og/eða er í þörf fyrir félagslegan stuðning, innan eða utan heimilis vegna félagslegrar einangrunar eða í forvarnarskyni. Markmiðið er að styðja notanda til sjálfhjálpar og félagslegrar þátttöku. Einnig getur markmið þjónustunnar verið að létta álagi af aðstandendum.
Forsendur:
- Þau sem þurfa aðstoð, hvatningu og félagslegan stuðning.
- Þau sem þurfa aðeins aðstoð við heimilishald.
Flokkur 4
Bið getur orðið á að þjónusta hefjist. Ekki er æskilegt að þjónustan falli niður oftar en í tvö skipti samfellt. Aðstæður einstaklings eru ekki með þeim hætti að veita þurfi stuðninginn strax, m.a. með hliðsjón af félagslegum aðstæðum og öðrum veittum stuðningi. Töf á veitingu stuðnings hefur óverulegar afleiðingar.
Forsendur:
- Þau sem eru sjálfbjarga og félagslega vel sett en þurfa leiðbeiningar, þjálfun eða stuðning.
- Þau sem eingöngu þurfa aðstoð við heimilisþrif eða óverulegan félagslegan stuðning.