Reglur Mosfellsbæjar um akstursþjónustu fyrir eldri borgara.
I. kafli – Markmið og réttur til þjónustu
1. gr. Markmið
Markmiðið með akstursþjónustu fyrir eldri borgara í Mosfellsbæ er að gera þeim kleift að búa í heimahúsi sem lengst við eins eðlilegar aðstæður og auðið er, sbr. X. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.
2. gr. Réttur til þjónustu
Akstursþjónustan er ætluð íbúum sem eru 67 ára og eldri, búa í heimahúsi, hafa ekki aðgang að eigin farartæki og eru ófærir um að nota almenningssamgöngur vegna langvarandi hreyfihömlunar.
Með langvarandi hreyfihömlun er átt við að hún hafi varað að lágmarki í þrjá mánuði og að svo komnu megi ætla að kostnaður vegna ferða sé farinn að hafa áhrif á fjárhag þess sem í hlut á.
Akstursþjónusta er því ekki veitt þegar um er að ræða tímabundna hreyfihömlun, svo sem vegna sjúkdóma eða slysa, t.d. beinbrota eða liðskiptaaðgerða. Heimilt er þó að veita akstursþjónustu, enda þótt um skemmri hreyfihömlun sé að ræða, hafi einstaklingur einungis lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, sé félagslega einangraður og hafi litla aðstoð af hálfu fjölskyldu sinnar.
Hafi einstaklingur sem orðinn er 67 ára talist fatlaður samkvæmt lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum, og notað ferðaþjónustu fram að þeim aldri á grundvelli reglna um ferðaþjónustu fatlaðs fólks, á hann rétt á að halda þeirri þjónustu samkvæmt þeim reglum meðan þörf krefur.
Reglur þessar gilda ekki um þá sem dvelja á stofnun, svo sem hjúkrunarheimili, og þurfa að leita þjónustu utan stofnunar, t.d. sérfræðilæknishjálpar, rannsókna eða sjúkraþjálfunar, sbr. ákvæði 14. gr. laga um málefni aldraðra nr. 125/1999 um að slíkum stofnunum beri að tryggja að þar sé veitt hjúkrunar- og læknisþjónusta, auk endurhæfingar.
Um akstur í dagdvöl fyrir aldraða fer samkvæmt 13. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999, og reglugerð nr. 45/1990 um dagvist aldraðra er kveður á um skyldur rekstraraðila til að annast og bera kostnað af flutningsþjónustu fyrir þá sem dagdvölina sækja, til og frá heimili sínu.
3. gr. Fjöldi ferða
Ferð er skilgreind í reglum þessum sem akstur milli tveggja staða en ekki fram og til baka. Hámarksfjöldi ferða er 16 ferðir í mánuði. Í undantekningartilvikum er heimilt að veita fleiri ferðir að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
- Læknismeðferð eða endurhæfing á sjúkrahúsi eða endurhæfingarstofnun í allt að þrjá mánuði á ári.
- Akstur í dagdvöl utan Mosfellsbæjar ef fyrir liggur að hlutaðeigandi geti ekki nýtt sér dagdvöl í bæjarfélaginu, sem og akstur í skipulegt félagsstarf á vegum bæjarins.
II. kafli – Framkvæmd
4. gr. Umsókn
Umsókn um akstursþjónustu skal berast Mosfellsbæ á skriflegu eða rafrænu formi sem nálgast má í Íbúagátt bæjarins. Í umsókn skal veita almennar upplýsingar um umsækjanda, óskir um fjölda ferða og í hvaða tilgangi þær verða farnar. Þá skal tilgreina hreyfihömlun umsækjanda og hvort hann hafi umráð yfir bifreið. Þegar sótt er um akstursþjónustu í fyrsta sinn skal leggja fram staðfestingu sérfræðings um þörf fyrir þjónustuna og fjölda ferða.
Umsókn er metin á grundvelli möguleika umsækjanda til að nýta sér þjónustu almenningsfarartækja eða aðra ferðamöguleika.
5. gr. Þjónustutími
Þjónustutími akstursþjónustu eldri borgara miðast við þjónustutíma almenningsvagna Strætó bs. Miðað er við að ferðir hefjist innan þjónustutíma.
Akstur á stórhátíðardögum er eins og á sunnudögum.
6. gr. Pantanir og afpantanir
Notendur skrá pantanir á netinu eða í síma þjónustuvers Strætó bs. Ferð skal pöntuð með að minnsta kosti tveggja klukkustunda fyrirvara, en reynt er að öðrum kosti að bregðast við pöntunum eins fljótt og auðið er.
Notendur skulu veita upplýsingar um fastar ferðir til að þjónustuaðilar geti leitað hagræðis við skipulagningu ferða.
Afpöntun reglubundinna ferða skal fara fram með sem mestum fyrirvara, helst deginum áður, en í undantekningartilvikum með tveggja klukkustunda fyrirvara. Að öðrum kosti telst ferðin með í uppgjöri.
7. gr. Tilhögun ferða
Miðað er við akstur að og frá anddyri. Notendur skulu vera tilbúnir til brottfarar á umsömdum tíma. Ekki er tryggt að bíll bíði sé notandi ekki tilbúinn. Biðtími notenda skal að jafnaði ekki fara yfir 10 mínútur frá umsömdum tíma.
Aðstoð við notanda skal vera fyrir hendi á vegum hans eða fyrir hönd hans, gerist þess þörf. Við sérstakar aðstæður veitir bílstjóri þó notanda aðstoð við að komast inn í bíl á brottfararstað eða út úr honum á áfangastað.
Ekki er beðið á meðan notandi sinnir erindi sínu og bílstjórum er ekki heimilt að sinna sendiferðum fyrir notendur.
Notanda sem ekið er til læknis er heimilt að hringja eftir akstri til baka að viðtali loknu, enda hafi ekki verið vitað fyrirfram hve langan tíma það tæki. Ekki er hægt að tryggja að biðtími í þeim tilvikum sé í samræmi við 1. mgr. 7.gr.
Akstursþjónustan byggist á samnýtingu ökutækja þannig að fleiri en einn notandi ferðast að jafnaði saman. Miðað er við að ferðatími milli staða sé svipaður og hjá almenningsvögnum á þjónustusvæðinu.
Rétt eins og notendur almenningsvagna þurfa þeir sem nýta akstursþjónustuna að vera viðbúnir töfum eða breytingum á áætlun, svo sem vegna færðar eða umferðartafa á annatímum.
Ábendingum og kvörtunum notenda vegna þjónustunnar skal beina til Mosfellsbæjar.
8. gr. Aðrir farþegar og aðstoðarmenn
Notanda er heimilt að hafa með sér einn farþega og greiðir notandinn þá sama gjald fyrir hann.
9. gr. Gjald og þjónustusvæði
Um gjald fyrir akstursþjónustuna vísast til gjaldskrár Mosfellsbæjar þar að lútandi.
Þjónustusvæði akstursþjónustunnar er Hafnarfjörður, Garðabær, Kópavogur, Reykjavík, Seltjarnarnes og Mosfellsbær.
10. gr. Öryggi
Ökutæki, ökumenn og aðrir starfsmenn sem vinna að akstursþjónustu eldri borgara skulu uppfylla ákvæði laga, reglugerða og leiðbeininga velferðarráðuneytisins fyrir sveitarfélög um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk frá 24. janúar 2012.
Ökumaður sem sinnir akstursþjónustu eldri borgara skal hafa til þess aukin ökuréttindi, hafa sótt skyndihjálparnámskeið og önnur þau námskeið sem sérstaklega eru ætluð ökumönnum fólksflutningabíla. Hann skal einnig leggja fram sérstakt sakavottorð við umsókn sína um starf.
Óheimilt er að ráða starfsmann til aksturs eða annarrar akstursþjónustu eldri borgara sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum.
III. kafli – Málsmeðferð, málskotsréttur og gildistími
11. gr. Ákvörðun
Starfsmaður fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar metur þjónustuþörf umsækjanda. Hann skal kanna aðstæður umsækjanda svo fljótt sem unnt er eftir að umsókn hefur borist. Öflun gagna og upplýsinga skal fara fram í samvinnu við umsækjanda eftir því sem unnt er.
Hlutaðeigandi starfsmaður leggur mat sitt fyrir trúnaðarmálafund fjölskyldusviðs sem starfar í umboði bæjarstjórnar, sbr. 2. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Trúnaðarmálafundur tekur ákvörðun um heimild til akstursþjónustu. Þeirri ákvörðun getur umsækjandi skotið til fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar ef hann unir ekki niðurstöðunni.
12. gr. Tímabil samþykktar
Heimilt er að samþykkja akstursþjónustu til tveggja ára í senn.
13. gr. Hlutverk fjölskyldunefndar
Hlutverk fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar í þessum efnum er:
- Að gera tillögur að reglum um akstursþjónustu eldri borgara og hafa eftirlit með að eftir þeim sé farið.
- Að fjalla um öll stefnumarkandi mál sem varða akstursþjónustu eldri borgara.
- Að fjalla um umsóknir ef um er að ræða undanþágu frá reglum þessum.
- Að fjalla um ákvarðanir trúnaðarmálafundar fjölskyldusviðs þegar umsækjendur skjóta þeim til nefndarinnar.
14. gr. Varðveisla gagna, trúnaður og aðgangur að gögnum
Málsgögn er varða persónulega hagi einstaklinga skulu varðveitt með tryggilegum hætti. Hafi starfsmenn kynnst einkahögum notenda eða annarra í starfi sínu er þeim óheimilt að fjalla um þau mál við óviðkomandi nema að fengnu skriflegu samþykki þess er í hlut á.
Umsækjandi á rétt á að kynna sér upplýsingar úr skráðum gögnum sem varða mál hans að því marki að ekki stangist á við trúnað gagnvart öðrum.
Ökumenn og aðrir starfsmenn akstursþjónustu eldri borgara skulu skrifa undir yfirlýsingu um trúnað. Trúnaðarskylda helst þó að látið sé af starfi.
15. gr. Niðurstaða, rökstuðningur synjunar og málskot til fjölskyldunefndar
Kynna skal umsækjanda niðurstöðu trúnaðarmálafundar fjölskyldusviðs skriflega svo fljótt sem auðið er. Sé umsókn synjað í heild eða að hluta getur umsækjandi krafist rökstudds, skriflegs svars um forsendur þess. Þar skal jafnframt kynntur réttur umsækjanda til að skjóta synjuninni til fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar til endurskoðunar. Beiðni um endurskoðun skal leggja fram innan fjögurra vikna frá því að umsækjanda barst vitneskja um ákvörðun trúnaðarmálafundar.
16. gr. Málskot til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála
Um málsmeðferð fer skv. XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Það felur meðal annars í sér að umsækjandi getur skotið ákvörðun fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Kærufrestur er þrír mánuðir frá því að tilkynning barst um ákvörðunina. Kæra telst fram komin innan kærufrests ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist úrskurðarnefndinni eða verið afhent póstþjónustu áður en fresturinn er liðinn.
17. gr. Gildistaka
Reglur þessar öðlast gildi 24. október 2017. Jafnframt falla úr gildi reglur Mosfellsbæjar um akstursþjónustu eldri borgara frá 1. janúar 2015.
Samþykkt í fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar 24. október 2017.
Samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar 1. nóvember 2017.