Mosfellsbær veitir árlega einstaklingum og félagssamtökum styrki til margvíslegrar starfsemi.
Annarsvegar er um að ræða árlega styrki sem auglýstir eru sérstaklega svo sem menningarstyrkir á hendi menningar- og ferðamálanefndar, styrkir til verkefna á sviði fjölskylduþjónustu í Mosfellsbæ á vegum Fjölskyldusviðs og hinsvegar eru almennir styrkir eða styrktarlínur til ýmiskonar verkefna sem falla ekki undir árlega styrki.
Upphæðir styrkja ráðast af fjárheimildum í fjárhagsáætlun ár hvert.
Bæjarlistamaður
Menningar- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar auglýsir eftir umsóknum frá listamönnum búsettum í Mosfellsbæ og/eða rökstuddum ábendingum um einstaklinga eða samtök listamanna sem hljóta nafnbótina Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2022. Þeir einir koma til greina við tilnefningu bæjarlistamanns sem hafa verið virkir í listgrein sinni og búið í Mosfellsbæ um tveggja ára skeið.
Bæjarlistamaður mun á því ári sem hann er tilnefndur í samvinnu við menningar- og nýsköpunarnefnd kynna sig og verk sín innan Mosfellsbæjar. Ennfremur mælist nefndin til þess að „Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar“ láti nafnbótina koma fram sem víðast, bænum og listamanninum til framdráttar. Auk nafnbótarinnar er bæjarlistamanni veittur menningarstyrkur og verður útnefning að vanda tilkynnt í tengslum við bæjarhátíð Mosfellsbæjar, Í túninu heima.
Umsóknarfrestur rann út 1. ágúst 2022.
Efnilegt ungt fólk
Íþrótta- og tómstundanefnd Mosfellsbæjar auglýsir eftir umsóknum vegna úthlutunar styrkja til efnilegra ungmenna sem leggja stund á íþróttir, tómstundir eða listir yfir sumartímann.
Öll ungmenni á aldrinum 16-20 ára, (f. 2002, 2003, 2004 og 2005) með lögheimili í Mosfellsbæ, sem skara fram úr og/eða hafa sýnt sérstaka hæfileika á sínu sviði geta sótt um styrkinn.
Markmið styrksins er meðal annars að gefa einstaklingum sömu tækifæri og jafnöldrum þeirra til að njóta launa frá bænum á sama tíma og þau stunda list sína, íþrótt eða tómstund yfir sumartímann. Styrkurinn er fólginn í launum frá Mosfellsbæ og greitt í samræmi við önnur sumarstörf hjá Mosfellsbæ.
Sótt er um rafrænt á íbúagátt Mosfellsbæjar.
Umsóknarfrestur rann út 20. mars 2022.
Athygli er vakin á að unglingum á aldrinum 13-15 ára (f. 2006, 2007 og 2008) sem taka þátt í til dæmis landsliðsverkefnum og/eða verkefnum fyrir félög/félagasamtök á vinnutíma vinnuskóla verður gefinn sá möguleiki að sækja formlega um leyfi á launum á þeim tíma sem að verkefnið varir. Skilyrði er að viðkomandi verði skráður í vinnu í Vinnuskóla Mosfellsbæjar og skili þar lágmarks vinnuframlagi.
Greiðsla fasteignaskatts til félaga og félagasamtaka
Mosfellsbær auglýsir eftir umsóknum um styrk til greiðslu fasteignaskatts til félaga og félagasamtaka. Um er að ræða styrki til greiðslu fasteignaskatts af fasteignum þar sem fram fer starfsemi sem ekki er rekin í ágóðaskyni.
Umsóknarfrestur rann út 25. febrúar 2022.
Klörusjóður
Fræðslu- og frístundasvið Mosfellsbæjar auglýsir eftir umsóknum í nýsköpunar- og þróunarsjóð skóla- og frístundastarfs í Mosfellsbæ.
Markmið sjóðsins er að stuðla að nýsköpun og framþróun í skóla- og frístundastarfi í leik- og grunnskólum Mosfellsbæjar.
Veittir eru styrkir einu sinni á ári úr sjóðnum.
Í nýsköpunar- og þróunarsjóðinn geta sótt einstaka kennarar, kennarahópar, aðrir fagaðilar sem starfa við skóla/frístund í Mosfellsbæ, einn skóli eða fleiri skólar/fagaðilar í sameiningu sem og fræðslu- og frístundasvið í samstarfi við skóla.
Áherslan 2022 er á umhverfisfræðslu.
Umsóknarfrestur rann út 15. apríl 2022.
Leiðbeiningar og reglur
Listviðburðir og menningarmál
Menningar- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar auglýsir eftir umsóknum um styrki vegna listviðburða og menningarmála árið 2022.
Hér undir falla áður árviss fjárframlög til margvíslegrar menningarstarfsemi í bænum, auk nýrra. Umsækjendur geta verið einstaklingar, fyrirtæki, félagasamtök eða stofnanir, innan sem utan Mosfellsbæjar. Menningar- og nýsköpunarnefnd óskar sérstaklega eftir umsóknum sem efla nýsköpun á sviði lista og menningar.
Fjárframlög til lista og menningarmála eru af tvennum toga:
- Fjárframlög til almennrar listastarfsemi
- Fjárframlög vegna viðburða eða verkefna
Umsóknarfrestur rann út 9. mars 2022.
Niðurstöður menningar- og nýsköpunarnefndar Mosfellsbæjar munu liggja fyrir eigi síðar en í lok marsmánaðar 2022 og eru háðar samþykki bæjarstjórnar.
Verkefni á sviði fjölskylduþjónustu
Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar auglýsir eftir umsóknum um styrki til verkefna á sviði fjölskylduþjónustu í Mosfellsbæ fyrir árið 2022.
Umsóknarfrestur rann út 30. nóvember 2021. Umsóknir sem berast eftir þann tíma hljóta að jafnaði ekki afgreiðslu.
Aðilar sem fengu styrk á síðasta ári þurfa að skila inn greinargerð um ráðstöfun þess fjár.
Afgreiðsla styrkumsókna fer fram fyrir lok mars 2022.