Reglur um nýsköpunarstyrki Mosfellsbæjar.
1. gr. Almennt
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd veitir nýsköpunarstyrk Mosfellsbæjar annað hvert ár.
2. gr. Styrkhæf verkefni
Nýsköpunarverkefni sem tengjast Mosfellsbæ sérstaklega eða gagnast Mosfellsbæ á einn eða annan hátt. Nýsköpun er skilgreind sem innleiðing nýrrar eða mjög endurbættrar vöru, þjónustu eða ferils, nýrrar aðferðar til markaðssetningar eða nýrrar skipulagsaðferðar í viðskiptaháttum, skipulagi á vinnustað eða ytri samskiptum.
3. gr. Hverjir geta hlotið nýsköpunarstyrk Mosfellsbæjar?
Umsækjendur um nýsköpunarstyrki geta verið einstaklingar eða lögaðilar sem uppfylla eitt eða fleiri neðangreindra skilyrða:
a) Eiga lögheimili í Mosfellsbæ.
b) Vinna að verkefni sem gagnast eða tengist íbúum, fyrirtækjum eða stofnunum í Mosfellsbæ sérstaklega.
c)Vinna að verkefni sem varðar málefni sem tengist Mosfellsbæ sérstaklega eða gagnast sveitarfélaginu á einn eða annan hátt.
4. gr. Umsókn
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd auglýsir eftir umsóknum um nýsköpunarstyrk Mosfellsbæjar annað hvert ár.
Í auglýsingu skulu koma fram upplýsingar um helstu atriði sem litið er til við mat á umsóknum, hvar og hvernig skuli sækja um, auk upplýsinga um umsóknarfrest og hvenær umsóknir verði afgreiddar ásamt upphæð styrks hverju sinni.
5. gr. Viðmið um mat á verkefnum
Við mat á verkefni skoðar nefndin einkum nýnæmi, frumleika, útfærslu og samfélagsleg áhrif.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd áskilur sér rétt til að boða umsækjendur á sinn fund í umsóknarferlinu til að gera nánar grein fyrir verkefni sínu eða óska eftir upplýsingum.
6. gr. Úthlutun styrkja
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd vinnur úr innsendum umsóknum og leggur til við bæjarstjórn Mosfellsbæjar hvaða umsækjanda skuli veittur nýsköpunarstyrkur Mosfellsbæjar hverju sinni. Tillaga nefndarinnar skal innihalda rök og forsendur fyrir vali umsókna.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd er ekki skuldbundin til að veita styrkinn hverju sinni ef umsóknir teljast ekki uppfylla skilyrði þessara reglna.
Tilkynna skal öllum umsækjendum þegar bæjarstjórn hefur tekið ákvörðun um úthlutun styrkja.
Við móttöku á styrk ábyrgist styrkþegi að honum verði einungis varið til þess verkefnis sem samþykkt var að styrkja. Ef sýnt þykir að styrkur hafi ekki verið eða verði ekki nýttur í þeim tilgangi sem ætlað var getur Atvinnu- og nýsköpunarnefnd gert tillögu til bæjarstjórnar um að styrkurinn verði endurgreiddur í heild eða að hluta, ásamt kostnaði við innheimtu. Áður en ákvörðun um slíkt er tekin skal styrkþega gefinn kostur á að lýsa afstöðu sinni til málsins.
7. gr. Samantekt og kynning
Styrkþegi skal skila samantekt á framvindu u.þ.b. 12 mánuðum frá styrkveitingu og halda kynningu fyrir atvinnu- og nýsköpunarnefnd sé þess óskað.
Styrkþegi skal ávallt birta merki Mosfellsbæjar í kynningarefni og láta þess getið að verkefnið hafi hlotið nýsköpunarstyrk Mosfellsbæjar.
8. gr. Gildistaka
Reglur þessar voru samþykktar á fundi bæjarstjórnar 24. apríl 2024 og öðlast þegar gildi. Á sama tíma falla úr gildi reglur um þróunar- og nýsköpunarviðurkenningu sem samþykktar voru á 674. fundi bæjarstjórnar þann 22. júní 2016.