Reglur um styrki til greiðslu fasteignaskatts til félaga og félagasamtaka.
1. gr.
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur í samræmi við heimild skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga ákveðið að veita styrki, svo sem nánar greinir í reglum þessum, til greiðslu fasteignaskatts af fasteignum þar sem fram fer starfsemi sem ekki er rekin í ágóðaskyni, svo sem menningar-, íþrótta- og æskulýðsstarfs, tómstundastarfsemi og mannúðarstörf.
2. gr.
Rétt til styrks eiga félög og félagasamtök sem uppfylla eftirtalin skilyrði:
- Eru fasteignaeigendur í Mosfellsbæ.
- Reka starfsemi sína í húsnæðinu.
- Hafa með höndum starfsemi sem flokkast til menningar-, íþrótta- og æskulýðsstarfs, tómstundastarfsemi og mannúðarstarfa.
- Um mannúðarsamtök gildir að góðgerðarstarfsemin verður að meginstefnu að vera unnin í sjálfboðavinnu félagsmanna og ná út fyrir raðir þeirra, s.s. í formi styrkja, gjafa eða stuðnings fyrir almannaheill og samfélagið.
- Starfsemin má ekki vera rekin í ágóðaskyni en heimilt er að innheimta tímabundnar tekjur fyrir notkun húsnæðisins ef þær tekjur eru eingöngu nýttar til reksturs húsnæðisins.
- Starfsemin má ekki njóta samningsbundinna rekstrarstyrkja frá Mosfellsbæ eða ígildi þeirra.
3. gr.
Styrkur til greiðslu fasteignaskatts skal nema allt að álögðum fasteignaskatti viðkomandi árs.
Sé fasteign jafnframt notuð til annars en meginstarfsemi félags eða félagasamtaka skal styrkur veittur í réttu hlutfalli við slík not. Styrkur skal ekki reiknast vegna þess hluta húsnæðis sem:
- Nýttur er til annars en meginstarfsemi félags eða félagasamtaka.
- Nýttur er undir veitinga- eða verslunarrekstur.
- Er í útleigu.
Styrkur til greiðslu fasteignaskatts af lóð skal reiknast í sama hlutfalli og af húsnæði.
4. gr.
Í janúar ár hvert skal auglýst á vef Mosfellsbæjar eftir umsóknum um styrki til greiðslu fasteignaskatts. Umsóknum um styrki skal skilað fyrir lok febrúar á þar til gerðum eyðublöðum ásamt þeim fylgigögnum sem þar kann að vera beðið um hverju sinni. Bæjarráð getur óskað frekari gagna en þar er beðið um telji ráðið að slíkt kunni að vera nauðsynlegt við mat á umsóknum.
5. gr.
Bæjarráð Mosfellsbæjar í umboði bæjarstjórnar móttekur og afgreiðir umsóknir skv. reglum þessum. Tilkynna skal öllum umsækjendum skriflega um afgreiðslu umsóknar. Veittur styrkur skal færður til lækkunar á fasteignagjöldum umsækjanda.
6. gr.
Við alla meðferð skv. reglum þessum skal gætt að reglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Samþykkt á 864. fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar þann 17. janúar 2008.