1. gr.
Sjóðurinn heitir Lista- og menningarsjóður Mosfellsbæjar og er eign Mosfellsbæjar. Hann tekur við hlutverki Listaverkasjóðs Mosfellsbæjar, sem stofnaður var þann 9. ágúst 1987 á fyrsta fundi bæjarstjórnar eftir að Mosfellshreppur hlaut kaupstaðarréttindi. Listaverk og fjármunir Listaverkasjóðs Mosfellsbæjar renna til Lista- og menningarsjóðs Mosfellsbæjar.
2. gr.
Menningar- og lýðræðisnefnd Mosfellbæjar hefur með höndum daglega stjórn sjóðsins í umboði bæjarstjórnar.
3. gr.
Markmið sjóðsins er að:
- Bæjarfélagið eignist gott safn listaverka, sem endurspegli listsköpun í landinu.
- Veita árlega styrki til verkefna á sviði menningarmála.
- Efla hverskonar list og menningarstarfsemi í bæjarfélaginu.
4. gr.
Árlegar tekjur sjóðsins eru samkvæmt fjárhagsáætlun hverju sinni.
5. gr.
Tillaga um hvernig fé sjóðsins skuli variðskal Menningar- og nýsköpunarnnefnd Mosfellsbæjar taka á fundum sínum og skulu minnst fjórir nefndarmenn mættir á slíkum fundum. Einfaldur meirihluti nefndarmanna ræður úrslitum varðandi afgreiðslu mála.
6. gr.
Stjórn sjóðsins skal, í byrjun hvers árs, leggja fyrir bæjarstjórn til samþykktar, skýrslu um áætlun sjóðsins. Allar gerðir sjóðsstjórnar þarf að leggja fyrir bæjarstjórn til samþykktar hverju sinni.
7. gr.
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar skal annast fjárreiður sjóðsins og reikningshald. Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af skoðunarmönnum ársreikninga Mosfellsbæjar og skulu þeir prentast ásamt reikningum bæjarsjóðs.
8. gr.
Forstöðumaður bókasafns og menningarmála skal halda skrá yfir listaverkaeign sjóðsins og ljósmyndir, höfunda, hvenær unnið, hvenær keypt eða fengið að gjöf og tilefni ef eitthvað er, kaupverð og hvar varðveitt.
9. gr.
Reglugerð þessi er samþykkt af bæjarstjórn Mosfellsbæjar 24. apríl 2024.