Reglur Mosfellsbæjar um styrki til velferðarmála.
1. gr. Markmið og forsendur
Markmið með styrkveitingum til velferðarmála er að veita félagasamtökum, fyrirtækjum eða einstaklingum styrki til starfsemi sem stuðlar að nýjungum eða heldur við starfsemi tengt velferðarmálum.
2. gr. Skilyrði fyrir styrkveitingu
Skilyrði fyrir styrkveitingu eru eftirfarandi:
- Félög, fyrirtæki eða einstaklingar sem hljóta styrk skulu starfa að velferðarmálum með einum eða öðrum hætti og skal nýtast í þágu velferðarmála.
- Íbúar Mosfellsbæjar skulu eiga kost á að nýta þjónustu umsækjanda sem sótt er um fyrir.
- Sótt skal um áður en umsóknarfrestur rennur út.
- Skila skal greinargóðum upplýsingum um fyrirhugaða notkun styrksins sem og væntanlegum ávinningi af notkun hans.
- Hafi umsækjandi fengið styrk áður frá velferðarnefnd skal gera grein fyrir ráðstöfun þess styrks samhliða umsókninni.
- Með styrkumsókn skal fylgja nýjasti ársreikningur og/eða hliðstæð gögn.
- Viðburðir eða verkefni eru ekki styrkt eftir á.
4. gr. Umsóknarferli
Auglýst er eftir umsóknum um styrki einu sinni á ári á vef sveitarfélagsins, mos.is. Hægt er að sækja um styrkinn frá október til loka nóvember ár hvert og úthlutar velferðarnefnd styrkjum á fundi sínum í febrúar árið á eftir.
Umsóknum skal skilað með rafrænum hætti í gegnum vef sveitarfélagsins, mos.is, í samræmi við leiðbeingar í auglýsingu hverju sinni.
5. gr. Úthlutun
Velferðarnefnd hefur skilgreinda upphæð til úthlutunar árlega sem kemur fram í fjárhagsáætlun velferðarsviðs hverju sinni. Styrkveiting gildir fyrir næsta fjárhagsár.
Velferðarnefnd metur umsóknir út frá skilyrðum 2. gr. reglna þessara. Velferðarnefnd er heimilt að úthluta allri upphæðinni til eins umsækjanda, deila henni niður á fleiri umsækjendur eða hafna öllum styrkbeiðnum uppfylli þær ekki skilyrði.
Öllum umsækjendum um styrk er tilkynnt um afgreiðslu styrkumsókna og hvenær styrkur komi til greiðslu, hafi styrkbeiðni verið samþykkt.
6. gr. Greiðsla samþykktra styrkja
Styrkur er greiddur samkvæmt reikningi frá styrkþega sem senda skal rafrænt til bókhalds Mosfellsbæjar.
Réttur til úthlutunar fyrnist sé ekki sendur reikningur á því fjárhagsári sem styrkurinn er veittur fyrir.
7. gr. Endurkröfur
Sveitarfélagið áskilur sér rétt til að endurkrefja styrkhafa um styrk sem veittur hefur verið á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga af hendi styrkþega, ef styrkur er nýttur í annað en umsókn gerir ráð fyrir eða ef sannanlega er um forsendubrest eða vanefnd að ræða af hálfu styrkþega.
8. gr. Gildistaka
Reglur þessar voru samþykktar í velferðarnefnd 21.11.2023 og staðfestar í bæjarstjórn 6.12.2023 og taka strax gildi.